Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad?

Skúli Sæland

Stalíngrad („borg Stalíns“, hét Tsarítsyn til 1925 og Volgograd frá 1961), var 600 þúsund manna iðnaðarborg sunnarlega við ána Volgu í Sovétríkjunum. Þegar Þjóðverjar endurnýjuðu sókn sína gegn Sovétmönnum árið 1942 eftir nokkur áföll fyrr um veturinn var markmið þeirra að ná olíulindum í Kákasusfjöllum á sitt vald. Þeir töldu mikilvægt að hertaka Stalíngrad til að geta myndað öfluga varnarlínu meðfram ánum Don og Volgu áður en sótt væri suður á bóginn þangað sem olían var. Þeir náðu borginni en svo fór þó að sókn Þjóðverja fjaraði út en í staðinn gerði Rauði herinn öfluga gagnsókn og náði að umkringja Stalíngrad og hersveitir Möndulveldanna. Tilraunir Þjóðverja til gagnsóknar og til að flytja vistir til nauðstaddra hermannanna loftleiðis reyndust árangurslausar og þeir gáfust upp 2. febrúar 1943.

Við Stalíngrad var bundinn endi á möguleika Þjóðverja á að sigra Sovétríkin, og missir manna og herbúnaðar var svo mikill að þeir náðu aldrei að rétta úr kútnum eftir það. Raunar náði útþensla Þriðja ríkisins hámarki þetta ár (1942) með sókninni í Sovétríkjunum og Egyptalandi (þar sem Möndulveldin töpuðu reyndar fyrir Bretum við El Alamein). Rauði herinn sýndi hins vegar að hann hafði náð að jafna sig eftir áföll síðustu tveggja ára þar á undan og reyndist nú fyllilega jafnoki þess þýska bæði hvað varðaði getu og styrk.

Bardagarnir við Stalíngrad hafa meðal annars orðið frægir fyrir leyniskyttuhernað Rauða hersins þar. Frægasta leyniskyttan var Vasily Zaitsev sem varð þjóðhetja í kjölfarið. Áttu Þjóðverjar að hafa sent sína færustu leyniskyttu til þess að drepa hann en Zaitsev sá við honum og skaut hann. Sumir draga þó þessa sögu í efa þar sem ekki hafa fundist neinar skýrslur til að styðja frásögnina.

Sókn Þjóðverja

Snemma árs 1942 mótuðu Þjóðverjar hernaðaráætlunina Aðgerð blár um sókn til olíulindanna í Kákasus. Skiptu þeir sóknarliði sínu upp í tvær fylkingar. Sú nyrðri átti að sækja að borginni Voronezh við ána Don og síðan austur með henni samtímis sem styrkum vörnum skyldi komið upp meðfram ánni. Á meðan skyldi syðri fylkingin sækja suður yfir ána Don við borgina Rostov og þaðan í átt til Stalíngrad þar sem fylkingarnar myndu mætast og umkringja fjölmenna sovéska heri. Að því búnu yrði sótt suður á bóginn.


Hluti sögusviðs átakanna á milli Þjóðverja og Sovétmanna í seinni heimsstyrjöldinni. Til einföldunar eru aðeins merktar inn þær borgir/bæir sem koma við sögu í þessu svari. Úkraína og Hvíta Rússland tilheyrðu Sovétríkjunum á þessum tíma þó þau séu táknuð með öðrum lit hér.

Akkilesarhæll Þjóðverja var hins vegar sá að mannfæð var tekin að hrjá þýska herinn. Eins voru hersveitir meðreiðarsveina þeirra frá Rúmeníu, Ítalíu og Ungverjalandi, sem ætlað var að fylgja þýsku sókninni eftir og verja hliðar sóknarsveitanna, til muna ver þjálfaðar og vopnum búnar en bæði þýsku og sovésku hersveitirnar. Þvert gegn skipunum Hitlers tóku herforingjar við vígstöðvarnar líka að nota tugþúsundir Hiwis (skammstöfun fyrir Hilfswillige eða „samstarfsfúsa“) sem voru stríðsfangar og minnihlutahópar sem voru andsnúnir stjórn Stalíns.

Þetta vor sótti Rauði herinn fram en Þjóðverjar mættu sókn hans við Kharkov með því að umkringja sóknarsveitirnar og misstu Sovétmenn yfir 270.000 manns. Sókn Þjóðverja hófst að því búnu þann 28. júní og gekk vel því þeir höfðu villt um fyrir Stavka, sovéska yfirherráðinu, með því að þykjast ætla að sækja gegn Moskvu og eins voru varnir Rauða hersins veikburða eftir ófarirnar fyrr um vorið. Fljótlega kom þó í ljós að Stalín hafði lært af fyrri mistökum og leyfði herforingjum sínum að hörfa frekar en að eiga á hættu að þeir yrðu umkringdir.

Þrátt fyrir að Rauða hernum væri nú leyft að hörfa varð hann sums staðar að verjast af hörku og nauðsynlegt var að halda uppi aga og baráttuvilja. Þetta varð til þess að Stalín gaf út tilskipun 227 þaðan sem fræg eru orðin „Ni shagu nazad“ sem þýða „Ekki skref aftur á bak.“ Þetta þýddi að hermenn sem til að mynda flúðu undan andstæðingnum eða hlýddu ekki skilyrðislaust skipunum yfirmanna sinna gátu átt á hættu að vera teknir af lífi eða lenda í refsisveitum þaðan sem fáir áttu afturkvæmt. Illvirki þýskra hersveita og sérsveita voru þó oft á tíðum næg ástæða til þess að heilu liðssveitirnar börðust til síðasta manns frekar en að gefast upp.

Óánægja yfir því hve fáir fangar náðust varð til þess að Hitler hóf að stjórna báðum herfylkingum Þjóðverja frá Wherwolf stjórnstöð sinni við Vinnitsa í vestur Úkraníu. Afskipti Hitlers töfðu fyrir ákvarðanatöku auk þess sem hann ákvað að sækja skyldi samtímis til Stalíngrad og Kákasusfjalla. Þetta varð til þess að nú dreifði þýski herinn sóknarþunga sínum í tvær mismunandi áttir og endaði með því að ná hvorugu takmarki sínu. Telja margir að þessi breyting hafi verið orsök þess að sókn Þjóðverja fjaraði síðar út.


Sovéskir hermenn í áhlaupi í Stalíngrad.

Kákasussókn Þjóðverja lauk 28. ágúst rétt við olíulindirnar í Grozny á meðan 6. her Þjóðverja undir stjórn Friederick Paulus hershöfðinga hélt inn í Stalíngrad. Við tóku heiftarlegir götubardagar vikum saman þar sem 62. her Sovétmanna undir stjórn Vasily Ivanovich Chuikovs hershöfðingja sýndi ótrúlega þrautseigju og baráttuvilja. Oft skildu einungis húsveggir andstæðingana að og fámennar liðssveitir börðust um hvern metra. Her Chuikovs gat þó ekki staðist þrýstinginn til lengdar, lét smám saman undan síga og í byrjun nóvember vörðust hermennirnir á nokkur hundruð fermetra svæðum á bökkum árinnar Volgu sem rann við borgina. En þýski herinn var líka aðframkominn þrátt fyrir að allt tiltækt varalið hefði verið sent til að ljúka sókninni og gríðarlegar loftárásir.

Gagnsókn Rauða hersins

Með komu vetrar mótaði Stavka metnaðarfullar áætlanir um gagnárásir sem myndu, undir stjórn færustu herstjórnenda Rauða hersins, annars vegar stöðva sókn Þjóðverja í átt til Kákasus og hins vegar eyða öflugum hersafnaði þeirra nærri Moskvu. Samkvæmit Áætlun Úranus, sem var stjórnað af Aleksandr Mikhailovich Vasilevsky undirhershöfðingja, var ætlunin að ráðast á veikburða hersveitir Rúmena, vestan og sunnan við Stalíngrad og umkringja hersveitir Þjóðverja þar. Áætlun Mars, stjórnað af Georgi Konstantinovich Zhukov hershöfðingja, gekk út á að umkringja 9. her Þjóðverja við borgina Rzehv nærri Moskvu.

Að auki voru lögð drög að frekari sóknaraðgerðum vestur á bóginn eftir að sigur ynnist í þessum aðgerðum undir dulnefninu Satúrnus á suðurvígstöðvunum og Neptúnus eða Júpiter fyrir nyrðri vígstöðvarnar. Svo virðist sem Stavka hafi lagt ívið meiri áherslu á sóknaraðgerðir Zhukovs með það í huga að ef varnir Þjóðverja myndu hrynja á svæðinu væri leiðin opin fyrir frekari sóknir Sovétmanna og Þjóðverjar yrðu að hörfa á öllum austurvígstöðvunum.

Þjóðverjar voru meðvitaðir um það hve lélegar varnir herja bandamanna þeirra voru en töldu að Rauði herinn myndi einungis sækja fram í nágrenni Moskvu þó búast mætti við takmarkaðri sókn í nágrenni Stalíngrad. Hluti skýringarinnar liggur í blekkingum Sovétmanna sem villtu um fyrir Þjóðverjum. Þetta varð til þess að þeir fluttu ekki nægilegt lið frá Stalíngrad til að mæta væntanlegri sókn Sovétmanna sem kom þeim algerlega í opna skjöldu og lokaði lið þeirra inni.

Sókn Vasilevskys í átt að Stalíngrad hófst 19. nóvember og gersamlega splundraði vörnum andstæðinganna. Í lok nóvember hafði Rauði herinn lokið við að umkringja borgina með 250-330.000 manna herliði Möndulveldanna, þrefalt fleiri en Stavka hafði þorað að vona. Hitler þvertók fyrir að leyfa 6. hernum að hörfa frá Stalíngrad auk þess sem Hermann Göring yfirmaður Luftwaffe, þýska flughersins, fullyrti að unnt væri að birgja herinn úr lofti. Þetta gerði Göring jafnvel þó að undirmenn hans væru þegar búnir að reikna út að slíkt væri ómögulegt enda slátraði Rauði flugherinn flutningavélum Luftwaffe gersamlega.

Sultur, kuldi og sjúkdómar tóku nú að hrjá umsetið lið Möndulveldanna. Um svipað leyti hóf Zhukov sókn sína við Rzehv. Hún hafði tafist vegna slæms veðurs og misheppnaðist gersamlega. Rauði herinn beið mikið afhroð og manntjón en það var þó ekki til einskis því Aðgerð Mars kom í veg fyrir að Þjóðverjar gætu sent liðsauka suður til Stalíngrad.


Þýskir hermenn í vígstöðvum sínum í Stalíngrad.

Hitler fól Erich von Manstein marskálki, einum snjallasta herforingja Þjóðverja, að brjótast til 6. hersins en veitti honum þó aðeins hluta af hersveitum þeim sem hann taldi þurfa til verksins. Vasilevsky hóf nú frekari sóknaraðgerðir vestur á bóginn en varð að minnka umfang Aðgerðar Satúrnus niður í Aðgerð Litla Satúrnus vegna gagnsóknar Mansteins. Enn var spjótunum beint gegn veikburða bandamönnum Þjóðverja og tókst Vasilevsky að stöðva sóknartilburði Mansteins og enda allar frekari tilraunir til björgunar 6. hernum.

Sovétmenn einbeittu sér nú að því að þurrka út umsetið lið Þjóðverja í Stalíngrad og þrengdu smám saman meira og meira að því. Á síðustu stundu hækkaði Hitler Paulus hershöfðingja (sem fór fyrir liði Þjóðverja í Stalíngrad) í tign og gerði hann að marskálki með ábendingu um að hann ætti að fremja sjálfsmorð fremur en að gefast upp. Paulus varð þó ekki við óskum hans og gafst upp 2. febrúar 1943 ásamt þeim 91.000 mönnum sínum sem eftir lifðu ásamt óþekktum fjölda Hiwis. Rauði herinn lagði nú í stórfellda sókn inn í suður Úkraínu en var stöðvaður af meistaralegum varnaraðgerðum Mansteins sem fékk nú loks frjálsar hendur til aðgerða frá Hitler.

Mikil óvissa ríkir um hve marga hermenn Möndulveldin misstu við Stalíngrad þó sumir telji að allt að 330 þúsund manns hafi orðið þar innikróaðir. Af þeim voru 25 þúsund særðir og sérhæfðir hermenn fluttir burtu með flugi. Líklega verður aldrei hægt að fá endanlegar tölur um mannfall og stafar óvissan meðal annars af því hver margir Hiwis börðust með Þjóðverjum allt til hinstu stundar. Sennilega féll þó rúmlega hálf milljón hermanna Möndulveldanna við Stalíngrad og í sóknaraðgerðum Sovétmanna í kjölfarið og um 120 þúsund hermenn voru teknir til fanga. Athyglivert er að af föngunum létust 95% óbreyttra hermanna og lægst settu undirforingja, 55% liðsforingja og en einungis 5% æðstu yfirmanna. Stafaði þetta bæði af því að foringjarnir fengu meira að borða á meðan á umsátrinu stóð og hlutu síðan betri meðferð í sovéskum fangabúðum.

Þrátt fyrir stórsigur Rauða hersins við Stalíngrad er merkilegt að hann missti líklega fleiri hermenn en andstæðingurinn í aðgerðum sínum. Talið er að Vasilevsky hafi misst um 485 þúsund manns látna og særða í sóknaraðgerðunum 19. nóvember til 2. febrúar samtímis því sem Zhukov missti á bilinu 215-335 þúsund í sókn sinni við Moskvu dagana 25. nóvember til 20. desember. Óvissan í seinni tölunum stafar af því að Sovétmenn hafa fram til þessa reynt að þagga niður alla umfjöllun um þessa hroðalegu útreið. Sovétmenn gátu hins vegar þolað jafnmikinn mannstapa og raun bar vitni öfugt við Þjóðverja sem áttu orðið erfitt með að manna hersveitir sínar. Þungbærasti missir þýska hersins var að sjá á bak vel reyndum og þjálfuðum foringjum og hersveitum auk þess sem missir margvíslegra vígtóla varð seint bættur.

Það var einnig mikið sálrænt áfall fyrir Þriðja ríkið að goðsögnin um hinn ósigrandi þýska her skyldi vera brotin á bak aftur, staðreynd sem var ekki síður mikilvæg hermönnum Rauða hersins. Rauði herinn hafði fram til þessa átt í miklum erfiðleikum vegna reynsluleysis foringja sinna og gengið illa að samhæfa og framkvæma stórar sóknir. Stafaði þetta að miklu leyti af hreinsunum Stalíns á fjórða áratugnum þegar hann lét taka stóran hluta yfirmanna hersins af lífi vegna grunsemda um svik. Nú loks hafði Rauði herinn sýnt að hann var fær um viðamiklar sóknaraðgerðir langt að baki víglínu óvinarins. Samhæfing, geta og stjórnun hersveita hans var nú farin að slaga upp í færni þýska hersins og Rauði herinn átti bara eftir að styrkjast úr þessu á meðan sá þýski veiktist.

Heimildir og myndir:
  • Beevor, Antony: Stalingrad. Fyrst gefin út 1998. (Penguin Books Ltd., London, England, 2001).
  • Erickson, John: The road to Stalingrad. Stalins’s war with Germany. 1. bindi. Fyrst gefin út 1975. (Cassel Military Paperbacks, London, England, 2003).
  • Glantz, David M.: Zhukov’s greatest defeat. The Red Army’s epic disaster in Operation Mars, 1942. Modern War Studies. (University Press of Kansas, Lawrence, Kansas, 1999).
  • Glantz, David M. og House, Jonathan M.: When Titans clashed. How the Red Army stopped Hitler. Modern War Studies. (University Press of Kansas, Lawrence, Kansas, 1995).
  • Stalingrad. All you want to know about great battle. Sótt 8. apríl 2005.
  • Wikipedia. The Free Encyclopedia. „Battle of Stalingrad.“ Sótt 8. apríl 2005.
  • Perry-Castañeda Library Map Collection. Kortagrunnur fenginn úr þessu safni en einfaldaður og lagfærður af starfsmanni Vísindavefsins.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvers vegna var Stalíngrad svona mikilvæg?

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

14.4.2005

Síðast uppfært

6.12.2017

Spyrjandi

Íris Benediktsdóttir
Geir Konráð Theodórsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad?“ Vísindavefurinn, 14. apríl 2005, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4884.

Skúli Sæland. (2005, 14. apríl). Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4884

Skúli Sæland. „Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad?“ Vísindavefurinn. 14. apr. 2005. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4884>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad?
Stalíngrad („borg Stalíns“, hét Tsarítsyn til 1925 og Volgograd frá 1961), var 600 þúsund manna iðnaðarborg sunnarlega við ána Volgu í Sovétríkjunum. Þegar Þjóðverjar endurnýjuðu sókn sína gegn Sovétmönnum árið 1942 eftir nokkur áföll fyrr um veturinn var markmið þeirra að ná olíulindum í Kákasusfjöllum á sitt vald. Þeir töldu mikilvægt að hertaka Stalíngrad til að geta myndað öfluga varnarlínu meðfram ánum Don og Volgu áður en sótt væri suður á bóginn þangað sem olían var. Þeir náðu borginni en svo fór þó að sókn Þjóðverja fjaraði út en í staðinn gerði Rauði herinn öfluga gagnsókn og náði að umkringja Stalíngrad og hersveitir Möndulveldanna. Tilraunir Þjóðverja til gagnsóknar og til að flytja vistir til nauðstaddra hermannanna loftleiðis reyndust árangurslausar og þeir gáfust upp 2. febrúar 1943.

Við Stalíngrad var bundinn endi á möguleika Þjóðverja á að sigra Sovétríkin, og missir manna og herbúnaðar var svo mikill að þeir náðu aldrei að rétta úr kútnum eftir það. Raunar náði útþensla Þriðja ríkisins hámarki þetta ár (1942) með sókninni í Sovétríkjunum og Egyptalandi (þar sem Möndulveldin töpuðu reyndar fyrir Bretum við El Alamein). Rauði herinn sýndi hins vegar að hann hafði náð að jafna sig eftir áföll síðustu tveggja ára þar á undan og reyndist nú fyllilega jafnoki þess þýska bæði hvað varðaði getu og styrk.

Bardagarnir við Stalíngrad hafa meðal annars orðið frægir fyrir leyniskyttuhernað Rauða hersins þar. Frægasta leyniskyttan var Vasily Zaitsev sem varð þjóðhetja í kjölfarið. Áttu Þjóðverjar að hafa sent sína færustu leyniskyttu til þess að drepa hann en Zaitsev sá við honum og skaut hann. Sumir draga þó þessa sögu í efa þar sem ekki hafa fundist neinar skýrslur til að styðja frásögnina.

Sókn Þjóðverja

Snemma árs 1942 mótuðu Þjóðverjar hernaðaráætlunina Aðgerð blár um sókn til olíulindanna í Kákasus. Skiptu þeir sóknarliði sínu upp í tvær fylkingar. Sú nyrðri átti að sækja að borginni Voronezh við ána Don og síðan austur með henni samtímis sem styrkum vörnum skyldi komið upp meðfram ánni. Á meðan skyldi syðri fylkingin sækja suður yfir ána Don við borgina Rostov og þaðan í átt til Stalíngrad þar sem fylkingarnar myndu mætast og umkringja fjölmenna sovéska heri. Að því búnu yrði sótt suður á bóginn.


Hluti sögusviðs átakanna á milli Þjóðverja og Sovétmanna í seinni heimsstyrjöldinni. Til einföldunar eru aðeins merktar inn þær borgir/bæir sem koma við sögu í þessu svari. Úkraína og Hvíta Rússland tilheyrðu Sovétríkjunum á þessum tíma þó þau séu táknuð með öðrum lit hér.

Akkilesarhæll Þjóðverja var hins vegar sá að mannfæð var tekin að hrjá þýska herinn. Eins voru hersveitir meðreiðarsveina þeirra frá Rúmeníu, Ítalíu og Ungverjalandi, sem ætlað var að fylgja þýsku sókninni eftir og verja hliðar sóknarsveitanna, til muna ver þjálfaðar og vopnum búnar en bæði þýsku og sovésku hersveitirnar. Þvert gegn skipunum Hitlers tóku herforingjar við vígstöðvarnar líka að nota tugþúsundir Hiwis (skammstöfun fyrir Hilfswillige eða „samstarfsfúsa“) sem voru stríðsfangar og minnihlutahópar sem voru andsnúnir stjórn Stalíns.

Þetta vor sótti Rauði herinn fram en Þjóðverjar mættu sókn hans við Kharkov með því að umkringja sóknarsveitirnar og misstu Sovétmenn yfir 270.000 manns. Sókn Þjóðverja hófst að því búnu þann 28. júní og gekk vel því þeir höfðu villt um fyrir Stavka, sovéska yfirherráðinu, með því að þykjast ætla að sækja gegn Moskvu og eins voru varnir Rauða hersins veikburða eftir ófarirnar fyrr um vorið. Fljótlega kom þó í ljós að Stalín hafði lært af fyrri mistökum og leyfði herforingjum sínum að hörfa frekar en að eiga á hættu að þeir yrðu umkringdir.

Þrátt fyrir að Rauða hernum væri nú leyft að hörfa varð hann sums staðar að verjast af hörku og nauðsynlegt var að halda uppi aga og baráttuvilja. Þetta varð til þess að Stalín gaf út tilskipun 227 þaðan sem fræg eru orðin „Ni shagu nazad“ sem þýða „Ekki skref aftur á bak.“ Þetta þýddi að hermenn sem til að mynda flúðu undan andstæðingnum eða hlýddu ekki skilyrðislaust skipunum yfirmanna sinna gátu átt á hættu að vera teknir af lífi eða lenda í refsisveitum þaðan sem fáir áttu afturkvæmt. Illvirki þýskra hersveita og sérsveita voru þó oft á tíðum næg ástæða til þess að heilu liðssveitirnar börðust til síðasta manns frekar en að gefast upp.

Óánægja yfir því hve fáir fangar náðust varð til þess að Hitler hóf að stjórna báðum herfylkingum Þjóðverja frá Wherwolf stjórnstöð sinni við Vinnitsa í vestur Úkraníu. Afskipti Hitlers töfðu fyrir ákvarðanatöku auk þess sem hann ákvað að sækja skyldi samtímis til Stalíngrad og Kákasusfjalla. Þetta varð til þess að nú dreifði þýski herinn sóknarþunga sínum í tvær mismunandi áttir og endaði með því að ná hvorugu takmarki sínu. Telja margir að þessi breyting hafi verið orsök þess að sókn Þjóðverja fjaraði síðar út.


Sovéskir hermenn í áhlaupi í Stalíngrad.

Kákasussókn Þjóðverja lauk 28. ágúst rétt við olíulindirnar í Grozny á meðan 6. her Þjóðverja undir stjórn Friederick Paulus hershöfðinga hélt inn í Stalíngrad. Við tóku heiftarlegir götubardagar vikum saman þar sem 62. her Sovétmanna undir stjórn Vasily Ivanovich Chuikovs hershöfðingja sýndi ótrúlega þrautseigju og baráttuvilja. Oft skildu einungis húsveggir andstæðingana að og fámennar liðssveitir börðust um hvern metra. Her Chuikovs gat þó ekki staðist þrýstinginn til lengdar, lét smám saman undan síga og í byrjun nóvember vörðust hermennirnir á nokkur hundruð fermetra svæðum á bökkum árinnar Volgu sem rann við borgina. En þýski herinn var líka aðframkominn þrátt fyrir að allt tiltækt varalið hefði verið sent til að ljúka sókninni og gríðarlegar loftárásir.

Gagnsókn Rauða hersins

Með komu vetrar mótaði Stavka metnaðarfullar áætlanir um gagnárásir sem myndu, undir stjórn færustu herstjórnenda Rauða hersins, annars vegar stöðva sókn Þjóðverja í átt til Kákasus og hins vegar eyða öflugum hersafnaði þeirra nærri Moskvu. Samkvæmit Áætlun Úranus, sem var stjórnað af Aleksandr Mikhailovich Vasilevsky undirhershöfðingja, var ætlunin að ráðast á veikburða hersveitir Rúmena, vestan og sunnan við Stalíngrad og umkringja hersveitir Þjóðverja þar. Áætlun Mars, stjórnað af Georgi Konstantinovich Zhukov hershöfðingja, gekk út á að umkringja 9. her Þjóðverja við borgina Rzehv nærri Moskvu.

Að auki voru lögð drög að frekari sóknaraðgerðum vestur á bóginn eftir að sigur ynnist í þessum aðgerðum undir dulnefninu Satúrnus á suðurvígstöðvunum og Neptúnus eða Júpiter fyrir nyrðri vígstöðvarnar. Svo virðist sem Stavka hafi lagt ívið meiri áherslu á sóknaraðgerðir Zhukovs með það í huga að ef varnir Þjóðverja myndu hrynja á svæðinu væri leiðin opin fyrir frekari sóknir Sovétmanna og Þjóðverjar yrðu að hörfa á öllum austurvígstöðvunum.

Þjóðverjar voru meðvitaðir um það hve lélegar varnir herja bandamanna þeirra voru en töldu að Rauði herinn myndi einungis sækja fram í nágrenni Moskvu þó búast mætti við takmarkaðri sókn í nágrenni Stalíngrad. Hluti skýringarinnar liggur í blekkingum Sovétmanna sem villtu um fyrir Þjóðverjum. Þetta varð til þess að þeir fluttu ekki nægilegt lið frá Stalíngrad til að mæta væntanlegri sókn Sovétmanna sem kom þeim algerlega í opna skjöldu og lokaði lið þeirra inni.

Sókn Vasilevskys í átt að Stalíngrad hófst 19. nóvember og gersamlega splundraði vörnum andstæðinganna. Í lok nóvember hafði Rauði herinn lokið við að umkringja borgina með 250-330.000 manna herliði Möndulveldanna, þrefalt fleiri en Stavka hafði þorað að vona. Hitler þvertók fyrir að leyfa 6. hernum að hörfa frá Stalíngrad auk þess sem Hermann Göring yfirmaður Luftwaffe, þýska flughersins, fullyrti að unnt væri að birgja herinn úr lofti. Þetta gerði Göring jafnvel þó að undirmenn hans væru þegar búnir að reikna út að slíkt væri ómögulegt enda slátraði Rauði flugherinn flutningavélum Luftwaffe gersamlega.

Sultur, kuldi og sjúkdómar tóku nú að hrjá umsetið lið Möndulveldanna. Um svipað leyti hóf Zhukov sókn sína við Rzehv. Hún hafði tafist vegna slæms veðurs og misheppnaðist gersamlega. Rauði herinn beið mikið afhroð og manntjón en það var þó ekki til einskis því Aðgerð Mars kom í veg fyrir að Þjóðverjar gætu sent liðsauka suður til Stalíngrad.


Þýskir hermenn í vígstöðvum sínum í Stalíngrad.

Hitler fól Erich von Manstein marskálki, einum snjallasta herforingja Þjóðverja, að brjótast til 6. hersins en veitti honum þó aðeins hluta af hersveitum þeim sem hann taldi þurfa til verksins. Vasilevsky hóf nú frekari sóknaraðgerðir vestur á bóginn en varð að minnka umfang Aðgerðar Satúrnus niður í Aðgerð Litla Satúrnus vegna gagnsóknar Mansteins. Enn var spjótunum beint gegn veikburða bandamönnum Þjóðverja og tókst Vasilevsky að stöðva sóknartilburði Mansteins og enda allar frekari tilraunir til björgunar 6. hernum.

Sovétmenn einbeittu sér nú að því að þurrka út umsetið lið Þjóðverja í Stalíngrad og þrengdu smám saman meira og meira að því. Á síðustu stundu hækkaði Hitler Paulus hershöfðingja (sem fór fyrir liði Þjóðverja í Stalíngrad) í tign og gerði hann að marskálki með ábendingu um að hann ætti að fremja sjálfsmorð fremur en að gefast upp. Paulus varð þó ekki við óskum hans og gafst upp 2. febrúar 1943 ásamt þeim 91.000 mönnum sínum sem eftir lifðu ásamt óþekktum fjölda Hiwis. Rauði herinn lagði nú í stórfellda sókn inn í suður Úkraínu en var stöðvaður af meistaralegum varnaraðgerðum Mansteins sem fékk nú loks frjálsar hendur til aðgerða frá Hitler.

Mikil óvissa ríkir um hve marga hermenn Möndulveldin misstu við Stalíngrad þó sumir telji að allt að 330 þúsund manns hafi orðið þar innikróaðir. Af þeim voru 25 þúsund særðir og sérhæfðir hermenn fluttir burtu með flugi. Líklega verður aldrei hægt að fá endanlegar tölur um mannfall og stafar óvissan meðal annars af því hver margir Hiwis börðust með Þjóðverjum allt til hinstu stundar. Sennilega féll þó rúmlega hálf milljón hermanna Möndulveldanna við Stalíngrad og í sóknaraðgerðum Sovétmanna í kjölfarið og um 120 þúsund hermenn voru teknir til fanga. Athyglivert er að af föngunum létust 95% óbreyttra hermanna og lægst settu undirforingja, 55% liðsforingja og en einungis 5% æðstu yfirmanna. Stafaði þetta bæði af því að foringjarnir fengu meira að borða á meðan á umsátrinu stóð og hlutu síðan betri meðferð í sovéskum fangabúðum.

Þrátt fyrir stórsigur Rauða hersins við Stalíngrad er merkilegt að hann missti líklega fleiri hermenn en andstæðingurinn í aðgerðum sínum. Talið er að Vasilevsky hafi misst um 485 þúsund manns látna og særða í sóknaraðgerðunum 19. nóvember til 2. febrúar samtímis því sem Zhukov missti á bilinu 215-335 þúsund í sókn sinni við Moskvu dagana 25. nóvember til 20. desember. Óvissan í seinni tölunum stafar af því að Sovétmenn hafa fram til þessa reynt að þagga niður alla umfjöllun um þessa hroðalegu útreið. Sovétmenn gátu hins vegar þolað jafnmikinn mannstapa og raun bar vitni öfugt við Þjóðverja sem áttu orðið erfitt með að manna hersveitir sínar. Þungbærasti missir þýska hersins var að sjá á bak vel reyndum og þjálfuðum foringjum og hersveitum auk þess sem missir margvíslegra vígtóla varð seint bættur.

Það var einnig mikið sálrænt áfall fyrir Þriðja ríkið að goðsögnin um hinn ósigrandi þýska her skyldi vera brotin á bak aftur, staðreynd sem var ekki síður mikilvæg hermönnum Rauða hersins. Rauði herinn hafði fram til þessa átt í miklum erfiðleikum vegna reynsluleysis foringja sinna og gengið illa að samhæfa og framkvæma stórar sóknir. Stafaði þetta að miklu leyti af hreinsunum Stalíns á fjórða áratugnum þegar hann lét taka stóran hluta yfirmanna hersins af lífi vegna grunsemda um svik. Nú loks hafði Rauði herinn sýnt að hann var fær um viðamiklar sóknaraðgerðir langt að baki víglínu óvinarins. Samhæfing, geta og stjórnun hersveita hans var nú farin að slaga upp í færni þýska hersins og Rauði herinn átti bara eftir að styrkjast úr þessu á meðan sá þýski veiktist.

Heimildir og myndir:
  • Beevor, Antony: Stalingrad. Fyrst gefin út 1998. (Penguin Books Ltd., London, England, 2001).
  • Erickson, John: The road to Stalingrad. Stalins’s war with Germany. 1. bindi. Fyrst gefin út 1975. (Cassel Military Paperbacks, London, England, 2003).
  • Glantz, David M.: Zhukov’s greatest defeat. The Red Army’s epic disaster in Operation Mars, 1942. Modern War Studies. (University Press of Kansas, Lawrence, Kansas, 1999).
  • Glantz, David M. og House, Jonathan M.: When Titans clashed. How the Red Army stopped Hitler. Modern War Studies. (University Press of Kansas, Lawrence, Kansas, 1995).
  • Stalingrad. All you want to know about great battle. Sótt 8. apríl 2005.
  • Wikipedia. The Free Encyclopedia. „Battle of Stalingrad.“ Sótt 8. apríl 2005.
  • Perry-Castañeda Library Map Collection. Kortagrunnur fenginn úr þessu safni en einfaldaður og lagfærður af starfsmanni Vísindavefsins.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvers vegna var Stalíngrad svona mikilvæg?
...