- Til hvaða álfu teljast Kanaríeyjar?
- Í hvaða heimsálfu er Grænland, Evrópu eða Norður-Ameríku?
- Í hvaða heimsálfu er Kína?
Varðandi þau lönd eða svæði sem spurt er um í upphafi þá hefur þegar komið fram í svörum á Vísindavefnum (til dæmis Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu?) að Grænland er landfræðilega hluti Norður-Ameríku og Kanaríeyjar hluti af Afríku þó þau tilheyri bæði ríkum sem eru í Evrópu (Grænland heyrir undir Danmörku og Kanaríeyjar undir Spán). Vestur-Indíur er eyjaklasinn sem skilur Mexíkóflóa og Karíbahafið frá Atlantshafi og teygir sig frá Flórídaskaga í Norður-Ameríku að ströndum Venesúela í Suður-Ameríku. Í svari við spurningunni Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku? kemur fram að venjan er að telja eyjar Karíbahafsins til Norður-Ameríku þegar Ameríku er skipt í tvær heimsálfur, norður og suður. Hins vegar er oft notuð önnur skipting, til dæmis er gjarnan talað um Mið-Ameríku og eyjar Karíbahafsins sem sérstakt svæði. Einnig er hugtakið Rómanska Ameríka vel þekkt en það nær yfir Suður-Ameríku, eyjar Karíbahafsins og syðsta hluta Norður-Ameríku. Nánar má lesa um þetta í svari við spurningunni Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku? Loks var spurt um Kína en þetta fjölmennasta ríki heims er óumdeilanlega í Asíu. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um heimsálfur, til dæmis:
- Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu?
- Er Ísland ekki á milli meginlandsflekanna og telst því hvorki til Evrópu né Ameríku, jarðfræðilega?
- Til hvaða heimsálfu teljast Hawaii-eyjar, Norður-Ameríku eða Eyjaálfu?
- Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku?
- Í hvaða heimsálfu er Rússland?
- Hvaða lönd teljast til Evrópu?
- Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku?
- Hvernig eru nöfn heimsálfanna til komin?
- Hvers vegna er Suðurskautslandið talið heimsálfa en ekki norðurskautið?