Nær undantekningarlaust verpir kvenfuglinn tveimur eggjum. Það merkilega er að þau eru oftast misstór þar sem það fyrra er áberandi stærra og klekst fyrr út. Sá ungi hefur forskot á systkini sitt og helst stærðarmunur á þeim þar til þeir fara til sjávar. Ef ekki er fæðuskortur í sjónum þá nær minni unginn þeim stærri að vexti en ef fæða er af skornum skammti þá afétur sá eldri og stærri yngra systkini sitt. Útungunin tekur venjulega um 35-37 daga og taka foreldrarnir jafnan þátt í að ala ungana. Á þeim tíma leggja fuglarnir mikið af en eftir útungunartímann yfirgefa þeir varpið og halda til sjávar þar sem þeir geta nærst. Venjulega slítur unginn öll tengsl við foreldrana við tveggja mánaða aldur. Fyrir utan varptímann halda adeliemörgæsir sig að mestu í sjónum við jaðar Suðurskautsíssins þar sem nóg er af æti og stutt í hafísinn vilji þær komast á þurrt. Þar til snemma á 10. áratug síðustu aldar vissu líffræðingar lítið um fæðu þessara mörgæsa en rannsóknir síðan þá hafa sýnt að fæðan samanstendur fyrst og fremst af fiskmeti, aðallega svonefndum 'antarctic silverfish' (Pleurogamma antarctica) og ljósátu, aðallega suðurhafsátu (Euphausia superba). Helstu óvinir adeliemörgæsa eru hlébarðaselir (Hydrurga leptonyx) og suðurhafsháhyrningar (Orchinus orca) en þessar tegundir halda til á svipuðum slóðum og mörgæsirnar. Hlébarðaselir eru yfir 3 metrar á lengd og vega um 250 kg. Þeir standa vel undir nafni þar sem skoltur þeirra minnir mjög stórvaxinn kött. Þó fiskur sé aðalfæða þeirra og ljósáta þegar ekkert annað býðst, vita þeir fátt ljúffengara en mörgæsir.
Adeliemörgæsin hefur stundum verið kölluð „varkára mörgæsin“ af landkönnuðum og vísindamönnum. Ástæða þessa heitis er allsérstætt háttarlag hennar sem þó á sér afar eðlilega skýringu. Þegar mörgæsahópurinn ætlar að stinga sér til sunds þá hópast þær að ísröndinni, kvaka svakalega og reyna að mana hverja aðra til að stinga sér fram af ísnum í hafið. Þær vita sem er að hlébarðaselir geta legið í launsátri undir ísnum tilbúnir að hremma þær fyrstu um leið og þær koma út í. Loks lætur sú hugaðasta undan og stingur sér og þá fylgja hinar á eftir. Heimildir og myndir:
- del Hoyo, J., Elliott, A. & Sargatal, J. eds. 1992. Handbook of the Birds of the World. Vol. 1: 290-309. Lynx Edicions, Barcelona.
- Kent S., Seddon J. and Wieneck 1998. Diet of Adelie penguins Pygoscelis adeliae at Shirley island, East Antarctica, January 1992. Marine ornithology 26: 7-10.
- Australian Antarctic Division
- Doug Allan