Læknablóðsugan hefur lengi verið notuð til ýmissa læknismeðferða. Vitað er að Grikkirnir Þeókrítos and Níkandros sem uppi voru á 2. öld f. Kr. skrifuðu lýsingar á ýmsum eiginleikum blóðsugunnar og sögðu hana algenga víða á fenjasvæðum. Fyrstu heimildir um beina notkun H. medicinalis til lækninga má rekja til Þemisar frá Laódíkeu, sem nú er í Sýrlandi. Þemis var uppi á tímum Krists og beitti blóðsugunni einungis til blóðtöku að sögn heimilda. Blóðtaka var algeng meðferð við margvíslegum kvillum þar sem menn stóðu í þeirri trú að sjúkdómar stöfuðu af ójafnvægi í líkamsstarfsemi og lækningin fólst því í að fjarlægja „mengað“ blóð. Eftir daga Þemisar geta heimildir um notkun á H. medicinalis til þess að lækna sýkingar í lifur auk þess sem franskur læknir, Ambroise Paré, notaði hana til að koma reglu á tíðir kvenna. Um miðja 19. öld féll notkun á H. medicinalis til lækninga í ónáð af einhverjum ástæðum sem höfundi er ekki kunnugt um og var henni ekki beitt í áratugi. Hins vegar hefur notkun á blóðsugunni aukist mjög á undanförnum áratugum. Nú á dögum er H. medicinalis sérstaklega notuð til þess að örva eða koma blóðflæði af stað, eða losna við blóð sem hefur safnast saman á ákveðnum stöðum eftir áverka eða skurðaðgerð og gæti leitt til skemmda á líkamsvefjum. Kunnust þessara meðferða er þegar læknablóðsugan er notuð til að örva blóðflæði til líkamshluta sem hafa verið græddir á, svo sem fingur og tær, eða eftir umfangsmiklar húðágræðslur vegna brunasára. Þær eru einnig í vaxandi mæli notaðar við ýmis konar fegrunarskurðlækningar. Læknablóðsugur hafa einnig verið notaðar við meðferð á kvillum í þvag- og kynfærum og einstaka sinnum hefur þeim verið beitt í taugalækningum.
Nú á dögum eru læknablóðsugur eingöngu fengnar úr eldi þar sem þær eru ræktaðar við dauðhreinsaðar aðstæður til þess að tryggja að þær sýki ekki væntanlegan sjúkling. Þær finnast þó enn villtar víða í Evrópu en vegna mengunar á vatnasvæðum hefur þeim fækkað mikið á undanförnum áratugum. Heimildir og mynd:
- Daane, S. o.fl. 1997 „Clinical Use of Leeches in Reconstructive Surgery.“ American Journal of Orthopedics 26(8): 528-532.
- Whitaker I.S., Izadi, D., Oliver, D.W., Monteath, G., Butler, P.E. 2004. „Hirudo Medicinalis and the plastic surgeon.“ Br. Journal of Plastic Surgery. 57(4): 348-53.
- Britannica Online
- Biomedia Museum
- Ittiofauna.org