Miðeyrnabólga kemur oft í kjölfar sýkingar í nefkoki. Sýkingin berst í gegnum kokhlustina frá nefkokinu til miðeyrans. Hættan á eyrnabólgu er mest þegar kokhlustin er stífluð eins og áður var nefnt, eða lítil eins og hjá börnum. Algengustu orsakir miðeyrnabólgu eru kvef (sem oft stíflar kokhlustina), bólgnir separ (polypar) í nefi/nefkoki eða stórir nefkirtlar, inflúensa, barnasjúkdómar og bólga í afholum nefs (skútum) eins og til dæmis kinnholubólga Helstu einkenni miðeyrnabólgu eru verkur og þrýstingur í eyra, minni heyrn, pirringur (sem getur verið eina sjáanlega einkennið hjá ungbörnum sem geta ekki tjáð sig) og jafnvel hiti. Ef hljóðhimnan springur getur komið útferð úr eyranu. Ef ungabörn fá tíðar eyrnabólgur er mikilvægt að fylgjast með heyrninni. Til þess að draga úr líkum á miðeyrnabólgu er mikilvægt að reykja ekki á heimilinu þar sem reykingar auka hættuna á eyrnabólgu. Hugsanlegt er að þær valdi minni virkni bifháranna sem eiga að sjá um að losa eyrað við slím. Æskilegt er að börn sem fá tíðar eyrnabólgur séu ekki í vistun innan um mjög mörg börn. Það dregur úr sýkingartíðni í efri öndunarvegi (eins og kvefi) og minnkar þar með hættuna á eyrnabólgu.
Mögulegur fylgikvilli miðeyrnabólgu er bólga í beini bak við eyrað og getur það verið mjög hættulegt. Í örfáum tilfellum getur eyrnabólga einnig valdið heilahimnubólgu. Heyrnartap sem getur fylgt eyrnabólgu ætti einungis að vera tímabundið, en getur orðið langvinnt við tíðar eyrnabólgur og þar af leiðandi valdið því að málþroska seinkar hjá börnum. Sársaukinn sem stundum fylgir miðeyrnabólgu getur verið óbærilegur og því eru væg verkjastillandi lyf mikilvæg fyrir börn. Annað hvort er um að ræða lyf í fljótandi formi eða stílar sem gefnir eru í endaþarminn. Rétt er að fá ráðleggingar læknis varðandi notkun þeirra. Læknir metur einnig hvort þörf er á sýklalyfjagjöf. Við tíðar eyrnabólgur er í sumum tilfellum stungið á og jafnvel sett rör í hljóðhimnuna til að hleypa vökvanum frá miðeyranu út. Einnig dregur kirtlataka hjá börnum sem oft fá eyrnabólgur úr tíðni þeirra í sumum tilfellum. Myndir: University of Maryland Medicine