Utan á tennur setjast óhreinindi og litur sem gera þær dökkar. Þar á meðal er tannsýklan sem er mjúkur, þunnur hjúpur, myndaður úr matarleifum, bakteríum, munnvatni og dauðum frumum, og límist utan á tennurnar. Þessi óhreinindi eru tilvalin fæða fyrir munnbakteríurnar til að fjölga sér og myndast þannig ákjósanleg gróðrarstía fyrir tannskemmdasýklana.Tannsýkla sem fær að sitja óáreitt á tönnum safnar í sig kalsíum- og fosfatsöltum úr munnvatni og blóðvökva sem vætlar frá bólgnu holdi. Sýklan „kalkar“ og kallast þá tannsteinn. Tannsteinn getur orðið mjög harður en er þó engu að síður það hrjúfur og gljúpur að í honum sitja ætíð sýklar og eiturefni frá þeim. Tannsteinn er því ertivaldur á sama hátt og tannsýkla, ekki þó vegna steinefnanna heldur vegna sýklanna og eiturefnanna. Tannsteinn myndast bæði á krónuhluta tannanna og niðri í pokunum undir tannholdsbrúninni. Þetta svar er að mestu fengið af heimasíðu Tannverndarráðs www.tannheilsa.is og birt með góðfúslegu leyfi. Á síðunni er að finna mikinn fróðleik um tennur og tannhirðu. Skoðið einnig önnur svör á Vísindavefnum um tannheilsu, til dæmis:
- Hvað þarf maður að borða mikið sælgæti, án þess að bursta tennurnar, til að tennurnar detti úr manni? eftir Peter Holbrook
- Er mjólkurneysla tannskemmandi? eftir Sigfús Þór Elíasson
- Er appelsínusafi óhollari en gos? eftir Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur
- Fer sýra, t.d. úr sítrónu, illa með tennur? eftir Þorbjörgu Jensdóttur og Peter Holbrook
- Er betra fyrir tannheilsuna að neyta sykurskertra gosdrykkja í stað sykraða, þá í sambandi við tannátu? eftir Þorbjörgu Jensdóttur og Peter Holbrook
- Af hverju fær maður kul í tennurnar? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur