Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:13 • Sest 13:33 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:31 • Síðdegis: 23:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:12 • Síðdegis: 16:52 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:13 • Sest 13:33 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:31 • Síðdegis: 23:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:12 • Síðdegis: 16:52 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Allt of langt mál væri á þessum vettvangi að lýsa starfsháttum Alþingis að fornu. Í örstuttu máli má þó segja að þingið hafi starfað með tvennum hætti á tveimur ólíkum tímaskeiðum, meðan það sat á Þingvöllum.

  1. Á fyrra skeiðinu, frá því á fyrri hluta 10. aldar og fram á síðari hluta 13. aldar, var það sameiginlegt þing íslenska þjóðveldisins og löggjafarsamkoma þess. Lítið er vitað um starfshætti þingsins í fyrstu, en eftir að sæmilega traustar heimildir koma til var þingið sett saman af einum sjö aðgreindum stofnunum. Lögrétta var einkum löggjafarsamkoma. Fjórir fjórðungsdómar dæmdu í málum hver úr sínum landsfjórðungi. Fimmtardómur dæmdi í málum sem ekki tókst að ljúka í fjórðungsdómum, auk þess ýmsum málum sem risu af sjálfu dómstarfinu á þinginu. Loks var Lögberg opinber tilkynningavettvangur.
  2. Á síðara skeiðinu, frá því að landið kom undir konungsvald á síðari hluta 13. aldar og fram til um 1800, var lögréttan lengst af eina reglulega stofnunin á Alþingi. Hún var einkum dómstóll en lét jafnframt oft í ljós álit sitt á löggjafarmálum, einkum áður en konungseinveldi var leitt í lög á síðari hluta 17. aldar. Á síðari hluta 16. aldar var stofnaður sérstakur yfirdómur á Alþingi.
Þetta verður að nægja um starfshættina. En um þá má finna meiri fróðleik í mörgum ritum. Rækilegast er sagt frá þeim í Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson, sem er I. bindi Sögu Alþingis. Mikill fróðleikur er líka í Sögu Íslands I–VI, sem nú er komin fram á 17. öld. Eitthvað er sagt frá starfsháttum þingsins í öllum yfirlitsritum og flestum námsbókum um þjóðarsögu Íslendinga.

Eftir því sem best er vitað var Alþingi fyrsta stofnunin sem Íslendingar eignuðust sameiginlega. Á landnámsöld hefur flust hingað fólk frá ólíkum lagaumdæmum í Noregi og frá öðrum löndum. Eins og í öðrum nýbyggðum hefur verið hér sundurleit blanda fólks sem hefur verið vant ólíkum réttarreglum og venjum úr heimkynnum sínum. Það hefur talað ólíkar mállýskur af norrænu og einnig ólík tungumál. Það hefur haft ólíkar sjálfsmyndir; þeir sem komu úr Þrændalögum hafa kallað sig Þrændi, þeir sem komu úr Sogni hafa kallað sig Sygni, þeir sem komu frá Írlandi hafa litið á sig sem Íra.

Á Alþingi var þessum ólíku réttarreglum, venjum, mállýskum, tungumálum og sjálfsmyndum stefnt saman. Þar, öllum öðrum stöðum fremur, hefur fólk lært að líta á sig sem Íslendinga. Sagt hefur verið að Alþingi hafi stofnað íslenska þjóð. Auðvitað hefur margt fleira átt hlut að því máli, en óhjákvæmilega hefur Alþingi farið með mikið hlutverk í þeim ferli. Gildi Alþingis fyrir þjóðina má því kalla ómetanlegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir
  • Björn Þorsteinsson: Íslenzka þjóðveldið. Reykjavík, Heimskringla, 1953.
  • Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945 (Saga Alþingis I).
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Gunnar Karlsson: Iceland's 1100 Yrears. The History of a Marginal Society. London, Hurst, 2000.
  • Gunnar Karlsson: "Upphaf þjóðar á Íslandi." Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar (Reykjavík, Sögufélag, 1988), 21–32.
  • Saga Íslands I–VI. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjóri Sigurður Líndal. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1974–2003.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.7.2004

Spyrjandi

Arnór Hauksson, f. 1985

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina?“ Vísindavefurinn, 7. júlí 2004, sótt 21. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4395.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2004, 7. júlí). Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4395

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina?“ Vísindavefurinn. 7. júl. 2004. Vefsíða. 21. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4395>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru starfshættir Alþingis til forna og hvert var gildi þess fyrir þjóðina?
Allt of langt mál væri á þessum vettvangi að lýsa starfsháttum Alþingis að fornu. Í örstuttu máli má þó segja að þingið hafi starfað með tvennum hætti á tveimur ólíkum tímaskeiðum, meðan það sat á Þingvöllum.

  1. Á fyrra skeiðinu, frá því á fyrri hluta 10. aldar og fram á síðari hluta 13. aldar, var það sameiginlegt þing íslenska þjóðveldisins og löggjafarsamkoma þess. Lítið er vitað um starfshætti þingsins í fyrstu, en eftir að sæmilega traustar heimildir koma til var þingið sett saman af einum sjö aðgreindum stofnunum. Lögrétta var einkum löggjafarsamkoma. Fjórir fjórðungsdómar dæmdu í málum hver úr sínum landsfjórðungi. Fimmtardómur dæmdi í málum sem ekki tókst að ljúka í fjórðungsdómum, auk þess ýmsum málum sem risu af sjálfu dómstarfinu á þinginu. Loks var Lögberg opinber tilkynningavettvangur.
  2. Á síðara skeiðinu, frá því að landið kom undir konungsvald á síðari hluta 13. aldar og fram til um 1800, var lögréttan lengst af eina reglulega stofnunin á Alþingi. Hún var einkum dómstóll en lét jafnframt oft í ljós álit sitt á löggjafarmálum, einkum áður en konungseinveldi var leitt í lög á síðari hluta 17. aldar. Á síðari hluta 16. aldar var stofnaður sérstakur yfirdómur á Alþingi.
Þetta verður að nægja um starfshættina. En um þá má finna meiri fróðleik í mörgum ritum. Rækilegast er sagt frá þeim í Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson, sem er I. bindi Sögu Alþingis. Mikill fróðleikur er líka í Sögu Íslands I–VI, sem nú er komin fram á 17. öld. Eitthvað er sagt frá starfsháttum þingsins í öllum yfirlitsritum og flestum námsbókum um þjóðarsögu Íslendinga.

Eftir því sem best er vitað var Alþingi fyrsta stofnunin sem Íslendingar eignuðust sameiginlega. Á landnámsöld hefur flust hingað fólk frá ólíkum lagaumdæmum í Noregi og frá öðrum löndum. Eins og í öðrum nýbyggðum hefur verið hér sundurleit blanda fólks sem hefur verið vant ólíkum réttarreglum og venjum úr heimkynnum sínum. Það hefur talað ólíkar mállýskur af norrænu og einnig ólík tungumál. Það hefur haft ólíkar sjálfsmyndir; þeir sem komu úr Þrændalögum hafa kallað sig Þrændi, þeir sem komu úr Sogni hafa kallað sig Sygni, þeir sem komu frá Írlandi hafa litið á sig sem Íra.

Á Alþingi var þessum ólíku réttarreglum, venjum, mállýskum, tungumálum og sjálfsmyndum stefnt saman. Þar, öllum öðrum stöðum fremur, hefur fólk lært að líta á sig sem Íslendinga. Sagt hefur verið að Alþingi hafi stofnað íslenska þjóð. Auðvitað hefur margt fleira átt hlut að því máli, en óhjákvæmilega hefur Alþingi farið með mikið hlutverk í þeim ferli. Gildi Alþingis fyrir þjóðina má því kalla ómetanlegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir
  • Björn Þorsteinsson: Íslenzka þjóðveldið. Reykjavík, Heimskringla, 1953.
  • Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945 (Saga Alþingis I).
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
  • Gunnar Karlsson: Iceland's 1100 Yrears. The History of a Marginal Society. London, Hurst, 2000.
  • Gunnar Karlsson: "Upphaf þjóðar á Íslandi." Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar (Reykjavík, Sögufélag, 1988), 21–32.
  • Saga Íslands I–VI. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjóri Sigurður Líndal. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1974–2003.
...