Allt að 13% af flatarmáli Perú er verndað á einhvern hátt. Meðal annars eru 10 þjóðgarðar (e. national parks) og 9 verndarsvæði (e. national reserves). Stærst þessara svæða er Pacaya-Samiria sem er stórfenglegt regnskógarsvæði í norðurhluta Perú með mörgum af sjaldséðustu dýrum Amasonsvæðisins. Svæðið er rúmlega 2 milljónir hektara að stærð. Næst því að stærð er Manuþjóðgarðurinn sem er regnskógarsvæði og Bahuaja-Sonone djúpt í Amasonsvæðinu en vistfræðingar hafa nefnt það tegundaríkasta svæði jarðar. Manuþjóðgarðurinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna vegna fjölda fugla og stórra spendýra. Þar er að finna um 1200 tegundir af fiðrildum, 1000 tegundir fugla og 200 tegundir spendýra auk fjölda skriðdýra-, froskdýra- og skordýrategunda. Meðal þeirra rándýra sem finnast í Manuþjóðgarðinum og víðar á Amasonsvæðinu eru fimm tegundir katta (Felidae) og tvær tegundir hunda (Canidae). Stærsta nagdýr heimsins, Capybara, er tiltölulega algengt á votlendisflákum svæðisins og þétt inni í skógunum lifa fjölmargar tegundir apa og perlusvína.
Dýralíf í Andesfjöllum er mjög frábrugðið Amasonsvæðinu. Þó svæðið sé ekki eins tegundaauðugt og regnskógarnir þá er dýralífið engu að síður fjölbreytt. Einkennisdýr fjalllendisins eru lamadýr. Nokkrar hjarðir lamadýra lifa villtar en langflest dýrin tilheyra bændum Andesfjallanna og veita íbúum svæðisins mjólk, ull og kjöt. Konungur Andesfjallanna er þó kondórinn en hann er stærsti fleygi fugl í heimi og svífur þöndum vængjum um fjallasalina. Fjallaljón finnast í fjalllendinu í talsverðum mæli.
Austan Andesfjalla ríkir eyðimerkurloftslag og setur það mark sitt á dýralíf þess svæðis. Við Kyrrahafsströnd Perú er þó mjög fjölskrúðugt fuglalíf og úti fyrir ströndinni er að finna margar tegundir sjávarspendýra og fjöldann allan af fisktegundum. Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi dýralíf í Perú en eins og svarið gefur til kynna eru þar ógrynni af tegundum og ógerningur að telja þær allar upp. Heimildir og myndir: