Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur?

Gylfi Magnússon

Með vergum þjóðartekjum er einfaldlega átt við allar tekjur þjóðarinnar á tilteknu tímabili, oftast einu almanaksári. Með tekjum er einkum átt við laun, hagnað fyrirtækja og vaxtatekjur. Önnur hugtök sem oft eru notuð til að lýsa svipuðum stærðum eru verg landsframleiðsla og verg þjóðarframleiðsla. Verg landsframleiðsla er þannig verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ári en verg þjóðarframleiðsla er verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem Íslendingar (eða almennt, sú þjóð sem til skoðunar er hverju sinni) framleiðir á einu ári.

Munurinn á vergri landsframleiðslu og vergri þjóðarframleiðslu liggur í því að hluti af afrakstri efnahagsstarfsemi á Íslandi rennur til útlendinga, til dæmis vegna vinnu útlendinga hér eða þess að þeir eiga hér eignir. Slíkar tekjur eru með í landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu. Á móti kemur síðan að Íslendingar hafa tekjur af efnahagsstarfsemi í útlöndum, vinna þar eða eiga þar eignir. Það telst með í þjóðarframleiðslu en ekki landsframleiðslu. Vegna þess hve mikið Íslendingar skulda í útlöndum er verg þjóðarframleiðsla Íslendinga alltaf lægri en verg landsframleiðsla á Íslandi. Munurinn liggur einkum í greiðslum Íslendinga á vöxtum af erlendum lánum.

Þegar þjóðartekjur eru reiknaðar út er tekið mið af þjóðarframleiðslu en auk þess er tekið tillit til þess ef viðskiptakjör hafa breyst. Ef viðskiptakjör batna, til dæmis ef útflutningsverð hækkar meira en innflutningsverð, þá hækka þjóðartekjur að öðru jöfnu. Ef þessu er öfugt farið og viðskiptakjör versna þá lækka þjóðartekjur að öðru jöfnu.

Vergur er fornt íslenskt orð sem merkti áður óhreinn eða mengaður, en er í þessu samhengi notað sem þýðing á danska orðinu brutto og enska orðinu gross. Stundum er einnig talað um hreina landsframleiðslu eða hreina þjóðarframleiðslu. Munurinn á hreinni landsframleiðslu og vergri landsframleiðslu liggur í afskriftum. Til að reikna út hreina landsframleiðslu eru afskriftir af eignum í landinu dregnar frá vergri landsframleiðslu. Hrein landsframleiðsla er því alltaf minni en verg landsframleiðsla. Samsvarandi munur er á hreinni þjóðarframleiðslu og vergri þjóðarframleiðslu.

Þess má geta að notkun fyrrnefndra hugtaka, landsframleiðsla, þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum. Ein ástæða er að hugtökin taka eingöngu tillit til vara og þjónustu sem gengur kaupum og sölu á markaði en ekki til dæmis þess sem framleitt er á heimilum til eigin nota. Aðrir gagnrýna að verðmæti sé reiknað út frá markaðsverði og telja að það gefi ekki alltaf rétta mynd. Þá hafa ýmsir gagnrýnt að ekkert tillit er tekið til þess hvort efnahagsstarfsemin veldur því að gengið er á náttúruauðlindir.

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

1.4.2004

Spyrjandi

Smári Árnason

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2004, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4122.

Gylfi Magnússon. (2004, 1. apríl). Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4122

Gylfi Magnússon. „Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2004. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4122>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur?
Með vergum þjóðartekjum er einfaldlega átt við allar tekjur þjóðarinnar á tilteknu tímabili, oftast einu almanaksári. Með tekjum er einkum átt við laun, hagnað fyrirtækja og vaxtatekjur. Önnur hugtök sem oft eru notuð til að lýsa svipuðum stærðum eru verg landsframleiðsla og verg þjóðarframleiðsla. Verg landsframleiðsla er þannig verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ári en verg þjóðarframleiðsla er verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem Íslendingar (eða almennt, sú þjóð sem til skoðunar er hverju sinni) framleiðir á einu ári.

Munurinn á vergri landsframleiðslu og vergri þjóðarframleiðslu liggur í því að hluti af afrakstri efnahagsstarfsemi á Íslandi rennur til útlendinga, til dæmis vegna vinnu útlendinga hér eða þess að þeir eiga hér eignir. Slíkar tekjur eru með í landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu. Á móti kemur síðan að Íslendingar hafa tekjur af efnahagsstarfsemi í útlöndum, vinna þar eða eiga þar eignir. Það telst með í þjóðarframleiðslu en ekki landsframleiðslu. Vegna þess hve mikið Íslendingar skulda í útlöndum er verg þjóðarframleiðsla Íslendinga alltaf lægri en verg landsframleiðsla á Íslandi. Munurinn liggur einkum í greiðslum Íslendinga á vöxtum af erlendum lánum.

Þegar þjóðartekjur eru reiknaðar út er tekið mið af þjóðarframleiðslu en auk þess er tekið tillit til þess ef viðskiptakjör hafa breyst. Ef viðskiptakjör batna, til dæmis ef útflutningsverð hækkar meira en innflutningsverð, þá hækka þjóðartekjur að öðru jöfnu. Ef þessu er öfugt farið og viðskiptakjör versna þá lækka þjóðartekjur að öðru jöfnu.

Vergur er fornt íslenskt orð sem merkti áður óhreinn eða mengaður, en er í þessu samhengi notað sem þýðing á danska orðinu brutto og enska orðinu gross. Stundum er einnig talað um hreina landsframleiðslu eða hreina þjóðarframleiðslu. Munurinn á hreinni landsframleiðslu og vergri landsframleiðslu liggur í afskriftum. Til að reikna út hreina landsframleiðslu eru afskriftir af eignum í landinu dregnar frá vergri landsframleiðslu. Hrein landsframleiðsla er því alltaf minni en verg landsframleiðsla. Samsvarandi munur er á hreinni þjóðarframleiðslu og vergri þjóðarframleiðslu.

Þess má geta að notkun fyrrnefndra hugtaka, landsframleiðsla, þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum. Ein ástæða er að hugtökin taka eingöngu tillit til vara og þjónustu sem gengur kaupum og sölu á markaði en ekki til dæmis þess sem framleitt er á heimilum til eigin nota. Aðrir gagnrýna að verðmæti sé reiknað út frá markaðsverði og telja að það gefi ekki alltaf rétta mynd. Þá hafa ýmsir gagnrýnt að ekkert tillit er tekið til þess hvort efnahagsstarfsemin veldur því að gengið er á náttúruauðlindir....