Sú tegund sem helst getur staðið undir hinni blóðugu ímynd píranafiska, er hin áðurnefnda Serrasalmus nattereri, sem á ensku er kölluð „red-bellied piranha“ vegna rauðs kviðar. Á íslensku mætti nefna hana rauðflensara. Fiskar af þessari tegund verða um 30 cm á lengd, hafa stærstu og oddhvössustu tennur allra píranafiska og veiða í hópum sem geta talið allt að 100 fiska. Oftast er bráðin stærri en þeir sjálfir. Veiðiaðferð þessarar tegundar hefur verið rannsökuð mikið og er talið að þegar einn fiskur hefur fundið vænlega bráð, gefi hann frá sér merki sem aðrir fiskar nema. Líklega er um hljóðmerki að ræða en píranafiskar heyra afskaplega vel. Yfirleitt ræðst hver píranafiskur á bráðina, bítur stykki af og fer jafnharðan í burtu á meðan sá næsti endurtekur leikinn. Svona gengur það koll af kolli þangað til allt hold er búið af bráðinni og tekur þetta mjög skamman tíma. Serrasalmus nattereri eru vinsælir búrfiskar en eins og gefur að skilja eru þeir ekki hentugir í búri með öðrum tegundum! Kjörhitastig þeirra er 24-27°C í vatni með sýrustig (pH-gildi) á bilinu 5,5-7. Heimkynni S. nattereri er í Amasonfljótinu og nokkrum þverám þess. Eigendur þessara fiska mæla með því að þeir fái lifandi fæðu, til dæmis aðra smáfiska, en einnig fer hrátt kjöt vel ofan í þá. Ólöglegt er að halda þessari tegund í búri í heimahúsi í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Höfundi er ekki kunnugt hvort S. nattereri eða aðrar tegundir píranafiska séu bannaðar hér á landi. Vitað er að píranafiskar eru haldnir í búrum á Íslandi og áhugasamir lesendur geta farið á vefsíðuna Gallerí skrautfiskur til að nálgast frekari upplýsingar um hvernig búa skal um þessa fiska. Heimildir og mynd:
- Encyclopædia Britannica: piranha
- Akwa Foto: Atlas Akwarystyczny