Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kynjakvóti er tæki eða aðferð sem víða hefur verið stuðst við til að rétta hlut kvenna gagnvart körlum í stjórnmálum, einkum á Norðurlöndum. Aðferðin vísar til sértækra aðgerða í jafnréttismálum sem hér á landi eru heimilaðar í lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt 22. gr. laganna teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki vera ólögmæt mismunun. Með þessu er viðurkennd nauðsyn þess að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði með löggjöf í viðleitni til að rétta hlut þeirra til jafnvægis við aðra þjóðfélagshópa.
Í femínískri stjórnmálafræði er meðal annars fjallað um aðferðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum og færð eru rök fyrir aukinni þjóðfélagsþátttöku þeirra. Samkvæmt þeim verður jafnréttishugtakið að taka mið af kerfislægum kynjamismun ef sanngjörn, réttlæt samfélagsskipan á að nást. Þess er krafist að tekið sé mið af kynferði sem pólitískri breytu sem þýðir að örva verði þá hugsun að stjórnmál séu ekki óháð kynferði. Að ekki sé hægt að fjalla um fulltrúalýðræði og þátttöku kvenna í stjórnmálum án þess að taka mið af kynjamismun og ójafnrétti kynjanna sem kerfislægum breytum.
Í frjálslyndum lýðræðiskenningum er lýðræðið skilgreint sem athöfn hins opinbera lífs en á þeim vettvangi fer hin pólitíska ákvarðanataka fram. Því er haldið fram að lýðréttindi kvenna hafi verið tryggð með kosningarétti þeirra en það er óraunhæfur mælikvarði eins og þátttaka kvenna í stjórnmálum sannar. Lýðræði og lýðréttindi þarf að endurskilgreina með þessar staðreyndir í huga og ein aðferð til þess er að taka mið af fólki, ekki eingöngu sem einstaklingum, heldur sem hópum. Aðgerðir sem eiga að tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum fela í sér samþykki okkar á því að kynferði sé pólitísk breyta og að lýðræðið verði að taka tillit til ákveðinna hópa. Burtséð frá þeirri spurningu hvort konur í stjórnmálum séu hagsmunahópur kvenna, er aðgerðin viðurkenning á því að stjórnvaldssamkundur sem endurspegla aðeins annað kynið séu ólýðræðislegar.
Undanfarna áratugi hefur verið tekist á um það í opinberri umræðu hvernig auka eigi þátttöku kvenna í stjórnmálum. Umræðan hefur einkennst af spennu milli þeirra sem færa rök fyrir því að kynin njóti jafnra tækifæra og hafi sambærilegar forsendur til að nýta sér þau og þeirra sem telja að svo sé ekki og nauðsynlegt sé að beita sértækum aðgerðum eins og kynjakvótum til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum.
Flestir stjórnmálaflokkar reyna að taka á því vandamáli að konur eru of fáar í stjórnmálum. Þrýst er á flokka að taka upp einhvers konar jafnréttisstefnu og þeir geta ekki sleppt að taka á málum sem aðrir flokkar hafa gert að sínum. Keðjuverkun fór af stað þegar fyrsta skrefið var tekið hér á landi með samfelldu framboði Kvennalistans og almennt hefur baráttan fyrir auknum kynjajöfnuði reynst flokkum vel eða eins og Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði segir: „Það þarf konur til að vinna kosningar.”
Norðurlöndin tóku fyrstu skrefin með kynjakvóta á miðjum áttunda áratugnum. Til dæmis urðu mikil umskipti í Noregi upp úr 1970 og má tengja það þeirri ákvörðun Verkamannaflokksins að fjölga konum í þingliði sínu. Árið 1981 var Gro Harlem Brundtland valin forsætisráðherra flokksins, og árið 1986 ákvað hún að skipa átta konur í 18 manna ráðherralið sitt. Síðan hefur hlutfall kvenna í ráðherraliðinu aldrei verið minna en 40%, enda bundið í lög að opinberir aðilar skulu tryggja hvoru kyni um sig minnst 40% sæta í öllum nefndum og ráðum, þar með talið ríkisstjórninni. Afstaða íslenskra stjórnmálaflokka til kynjakvóta er ólík, flestir flokkar hafa sett sér jafnréttisáæltun, en ekki bundið ákvæði um fléttulista eða kynjakvóta í lög.
En hvernig á að réttlæta kynjakvóta og sértækar aðgerðir í jafnréttismálum, sem gagnrýnendur vilja kalla öfuga mismunun? Stjórnmálafræðingurinn Anne Phillips leggur áherslu á lögmæti sértækra aðgerða í jafnréttismálum. Kynjajafnrétti í stjórnmálum megi réttlæta sem leiðréttingu á fyrrum óréttlæti. Hún segir mikla áskorun felast í þeirri tilraun að breyta kynjasamsetningu í stjórnmálum. Hún sé samfelld gagnrýni á það samfélagskerfi sem við lifum við. Það hefur kerfisbundið skilið konur útundan.
Phillips nefnir fjögur rök fyrir nauðsyn þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á það að konur í stjórnmálum eru fyrirmyndir annarra kvenna. Í öðru lagi að hér sé um að ræða sjálfsagt réttlæti milli kynja. Í þriðja lagi er talið að sérhagmunir kvenna þurfi að eiga sé ötula talsmenn. Að lokum leggur Phillips áherslu á mismunandi sýn kvenna og karla á stjórnmál og segir að ef konur komi í auknum mæli að stjórnmálum muni það auka gæði þeirra og lögmæti fulltrúastofnanna.
Hún leggur höfuðáherslu á þau rök sem benda á að konur eigi að komast í pólitískar áhrifastöður því það sé spurning um réttlæti og að það sé fjarstæðukennt og ósanngjarnt að karlar einoki pólitískar stöður. Jafn réttur kynja til þátttöku í stjórnmálum er til staðar en hins vegar er ekki hægt að tala um jafnan rétt kynjanna þegar að því kemur að komast í pólitískar fulltrúastöður.
Árið 1997 samþykktu Alþjóðasamtök þjóðþinga almenna stefnuyfirlýsingu um lýðræði þar sem einum af hornsteinum þess er lýst svo:
Lýðræði verður ekki skapað á annan hátt en þann að karlmenn og konur vinni saman að málefnum samfélagsins á jafnréttisgrundvelli og auðgist að reynslu, með þekkingu á því sem kann að skilja kynin að.
Í skýrslu sem samtökin létu gera árið 2000 á stöðu kvenna á þjóðþingum heims kom fram, að það sem skipti höfuðmáli varðandi framgang kvenna í stjórnmálum væri pólitískur vilji, einkum innan stjórnmálaflokka.
Heimildir og ítarefni:
Anne Phillips, 1991. Engendering Democracy.
Anne Phillips, 1995. The Politics of Presence.
Maria Herngren, Eva Swedenmark, Annica Wennström, 1999. Gegnum glerþakið.
Rósa Erlingsdóttir. „Hvað er kynjakvóti og hver eru markmið hans?“ Vísindavefurinn, 13. október 2003, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3795.
Rósa Erlingsdóttir. (2003, 13. október). Hvað er kynjakvóti og hver eru markmið hans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3795
Rósa Erlingsdóttir. „Hvað er kynjakvóti og hver eru markmið hans?“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2003. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3795>.