Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Minkur (Mustela vison) er rándýr af marðardýraætt (Mustelidae). Hann er upprunninn í Norður-Ameríku og nær náttúruleg útbreiðsla hans allt frá túndru Alaska í norðri til leiruviðarfenja Flórída og þurrs loftslags Nýju Mexíkó og Kaliforníu í suðri. Frá því að tegundinni var fyrst lýst af Schreber árið 1777 hefur 15 mismunandi undirtegundum verið lýst í Norður-Ameríku (Hall 1981). Minkar voru fyrst ræktaðir vegna skinna árið 1867 (Enders 1952) en upp úr því hófst umfangsmikil ræktun á minkum sem sennilega voru blanda 3-6 undirtegunda.
Minkur á ísrönd.
Fyrstu dýrin voru flutt til ræktunar í Evrópu á 2. áratug 20. aldar (Dunstone 1993) en fyrsta minkabúið í Evrópu var stofnað í Noregi 1927 (Bevanger & Ålbu 1986, Bevanger & Henriksen 1995). Næstu ár og áratugi voru minkar fluttir til flestra annarra landa í norðanverðri Evrópu (Karl Skírnisson 1993). Minkar í Evrópu eru því allir afkomendur dýra sem sluppu úr búrum eftir að hafa verið fluttir þangað af mönnum, ef frá eru taldir stofnar í Rússlandi en þar var dýrum sleppt af ásettu ráði á árunum 1930-50 til að mynda veiðistofn (Dunstone 1993).
Minkar sluppu fljótlega úr búrum í Evrópu, þeir fyrstu í Finnlandi fyrir 1930 og nú er tegundin útbreidd í flestum löndum Evrópu, að minnsta kosti þar sem minkarækt hefur verið stunduð. Minkarækt hefur að mestu verið bundin við Norður-Evrópu en útbreiðslusvæði minksins virðist vera að stækka þaðan í suður og vestur frá Rússlandi (Mitchell-Jones o.fl. 1999). Minkurinn finnst einnig á belti þvert yfir stóran hluta Asíu og syðst í Suður-Ameríku.
Um landnám og útbreiðslu minks á Íslandi má lesa um í svari Karls Skírnissonar og Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur við spurningunni Hvenær var minkur fluttur til Íslands? Heimildir og mynd:
Bevanger, K. & G. Henriksen 1995. The distributional history and present status of the American mink (Mustela vison) in Norway. Ann. Zool. Fennici. 32: 11-14.
Bevanger, K. & Ø. Ålbu 1986. Mink Mustela vison in Norge. Økoforsk, NAVF, Trondheim. 73 bls.
Dunstone, N. 1993. The Mink. T. & A.D. Poyser, London. 232 bls.
Enders, R.K. 1952. Reproduction of the mink (Mustela vison). Proceedings of the American Philosophical Society 96: 691-755.
Hall, E.R. 1981. The Mammals of North America. II. John Viley & Sons, New York. 623 bls.
Karl Skírnisson 1993. Minkur. Í: Páll Hersteinsson & Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.): Villt Íslensk spendýr. Landvernd og Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík. Bls. 79-102.
Mitchell-Jones, A.J., G. Amori, W. Bogdanowicz, B. Kryštufek, P.J.H. Reijnders, F. Spitzenberger, M. Stubbe, J.B.M. Thissen, V. Vohralík & J. Zima 1999. The Atlas of European Mammals. T. & A.D. Poyser, London. 484 bls.
Róbert Arnar Stefánsson. „Hvenær barst minkur til Evrópu?“ Vísindavefurinn, 27. ágúst 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3687.
Róbert Arnar Stefánsson. (2003, 27. ágúst). Hvenær barst minkur til Evrópu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3687
Róbert Arnar Stefánsson. „Hvenær barst minkur til Evrópu?“ Vísindavefurinn. 27. ágú. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3687>.