Stjörnumerkið Óríon er að margra mati meðal fegurstu stjörnumerkja himinsins. Í goðafræðinni var Óríon veiðimaðurinn mikli, sonur Póseidons og Eruyale drottningar. Hann stærði sig af því að geta drepið hvaða skepnu sem var á og var hreykinn af sjálfum sér. Það kom að því að guðirnir fengu nóg af stærilæti Oríons og ákváðu að refsa honum. Þeir brugðu á það ráð að senda sporðdreka sem stakk hann í hælinn og drap. Síðan tók veiðigyðjan Artemis Óríon og sporðdrekann og setti hvorn á sitt himinhvelið til að halda þeim langt frá hvor öðrum. Sporðdrekinn beinir þó oddi sínum í átt til Óríons á himninum. Stjörnumerkið Óríon sést vel á himninum. Það liggur beint suður af Ökumannsmerkinu, suðvestur af Nautinu og sést best frá Íslandi í desember og fram í febrúar. Margir telja að Óríon sé sama stjörnumerkið og fornmenn nefndu Aurvandil og sagt er frá í Snorra-Eddu. Aurvandill táknar þann sem ferðast um með björtu skini. Neðst til hægri í Óríon er bláleita stjarnan Rígel, bjartasta stjarna merkisins. Hún er auðséð, 60 þúsund sinnum bjartari en sólin okkar, mun heitari og í 900 ljósára fjarlægð. Nafn stjörnunnar kemur úr arabísku og þýðir fótur en það hefur verið í notkun síðan á tíundu öld. Næst bjartasta stjarna merkisins er Betelgás, efst í vinstra horninu. Betelgás er rauður risi í um 400 ljósára fjarlægð og rétt um það bil 3000°C heit, en þó nógu stór til þess að ná út fyrir braut jarðar væri hún staðsett í miðju sólkerfisins. Betelgás er breytistjarna, en birtan er oftast við 0,5 birtustig og því er hún aðeins bjartari en Aldebaran í nautsmerkinu. Mintaka, ξ (ksí) Orionis, stjarnan í miðju Óríonbeltinu er einnig breytistjarna sem liggur mjög nærri miðbaug himins.
Í miðju merkisins eru þrjár stjörnur í beinni röð sem mynda belti Óríons. Þetta eru stjörnurnar Alnítak, Alnílam og Mintaka og hafa oft verið nefndar fjósakonurnar þrjár á íslensku. Úr belti Óríons hangir sverðið hans og í því er Sverðþokan fræga, M42. Stjörnurnar í sverði Óríons hafa oft verið nefndar fjósakarlarnir á íslensku. Nokkuð er um tvístirni í stjörnumerkinu. Rígel hefur fylgistjörnu af birtustiginu 6,8 og er hún nógu fjarri Rígel til að sjást í sjónauka, þótt glampinn frá Rígel geri erfitt fyrir. Mintaka hefur einnig fylgistjörnu af birtustigi 6,3 sem auðvelt er að koma auga á. Hatysa, ι (jóta) Orionis, neðsta stjarnan í Óríonssverðinu, hefur fylgistjörnu af birtustigi 6,9. σ (sigma) og θ (þeta) eru margstirni. θ, fyrir framan Sverðþokuna er í raun margar stjörnur sem kallast einu nafni Trapisan, vegna þess að uppröðun stjarnanna sem þar eru þykir minna á trapisu. Stjörnurnar í Trapisunni lýsa Sverðþokuna upp svo úr verður eitt fallegasta fyrirbæri himinsins. Þokan er sýnileg berum augum sem daufur þokublettur í miðju sverðinu. M42 er ein þekktasta þoka sinnar gerðar. Hún er í raun aðeins bjartasti hluti mikils efnismassa, skýs, sem þekur næstum allt merkið. Þetta ský er því mjög stórt og þar myndast nýjar stjörnur í meira en 1000 ljósára fjarlægð. Mun daufari hlutar þokunnar eru til dæmis Hesthöfuðþokan og Barnard 33. Heimildir:
- Moore, Patrick og Tirion, Wil. Cambridge Guide to Stars and Planets. Cambridge University Press, Cambridge, Bretland, 1997.
- Discovery Channel Handbook. Night Sky. Discovery Books, New York, Bandaríkin, 1999.
- Mynd af M42 hjá Hubblesite.org