Jeríkó í dag
Menning verður því til um leið og menn fara að búa til verkfæri og geyma þau til seinni nota og miðla þekkingu til komandi kynslóða með orðum og athöfnum. (Hér er því miður ekki rúm til að ræða hið skemmtilega viðfangsefni hvort dýr búi við eitthvað sem kalla mætti menningu). Ekkert er með vissu vitað um hvenær raunverulegt tungumál varð til en líklega hefur mannkynið snemma á ferli sínum farið að nota hljóð til að tjá annað og meira en ótta, undrun eða ánægju með viðeigandi hljóðum. Annað hugtak er svo siðmenning sem notað er um það sem á mörgum málum kallast „civilization“. Það orð er dregið af civis á latínu sem þýðir eiginlega borgari, samfélagsþegn. Stundum er „civilization“ þýtt sem borgmenning. Venja er telja að siðmenning einkennist af því að farið er að skrásetja alls konar upplýsingar og af því að veruleg verkaskipting eigi sér stað. Þetta er vissulega samfara myndun borga þar sem íbúarnir eru háðir því að bændur í nágrenninu sjái þeim fyrir mat. Fyrstu borgirnar eru þó allmiklu eldri en ritmál. Í Írak og Íran og í Suðaustur-Tyrklandi (svo miðað sé við ríkjaskipan á okkar tímum) voru þorp þar sem fólk bjó í húsum sem byggð voru í þyrpingum. Væntanlega voru þetta bændur sem sameinuðust um að verja akra sína og búfénað fyrir ásókn framandi fólks. Raunverulegar borgir voru orðnar til fyrir allt að níu þúsund árum, til dæmis Jeríkó. Það er næsta öruggt að siðmenning hafi verið komin til sögunnar fyrir um fimm þúsund árum, eða um þrjú þúsund árum fyrir upphaf tímatals okkar. Tvö svæði koma þar við sögu. Annars vegar Nílardalurinn, það er að segja Egyptaland, og hins vegar „Landið milli fljótanna“, Mesópótamía. Á báðum þessum svæðum hafa fundist elstu minjar um ritmál svo að óyggjandi sé. Þó mun ritun hafa hafist nokkru fyrr í Mesópótamíu en í Egyptalandi, og reyndar telja sumir fornfræðingar að Egyptar hafi upphaflega þegið ritmál sitt þaðan. Í landinu milli stórfljótanna tveggja, Efrat og Tígris, var ríki Súmera. Þar var ritað með fleygrúnum á leirtöflur og eru hinar elstu frá því fyrir rúmlega fimm þúsund árum.
Mesópótamía - Smellið til að skoða stærri mynd
Fyrir tugþúsundum ára fóru menn að skreyta bein og steina með táknum, punktum og strikum, hringum og ferhyrningum og hafa mannfræðingar talið að ekki sé útilokað að það séu tákn sem ætluð hafi verið til að varðveita þekkingu eða einhvers konar skilaboð, jafnvel tímatal. Þó að þeir sálmar séu býsna forvitnilegir verður ekki farið nánar út í þá hér. Einfalt svar er því: Siðmenning hófst fyrir um fimm þúsund árum í Mesópótamíu og um svipað leyti í Egyptalandi.
Tengd og áhugaverð svör á Vísindavefnum:
- Haraldur Ólafsson mannfræðingur: Fyrir hvað eru Súmerar þekktir?
- Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Vilhjálmsson: Súmerar fundu upp hjólið en hvenær var það?
- Arnar Árnason: Hvað er menning?
- Guðmundur Hálfdanarson: Hvað nær mannkynssagan langt aftur í tímann?
Myndir: