Hér á Vísindavefnum hefur stuttlega verið sagt frá Tsjernobyl-slysinu í svari Þórunnar Jónsdóttur við spurningunni Í hvaða landi varð kjarnorkuslysið í Tsjernobyl? Í þessu svari verður atburðarásin rakin ítarlega.Þann 26. apríl 1986 leiddi röð mistaka við stjórnun og prófun í Tsjernobyl-kjarnorkuverinu til sprengingar í einum ofninum og síðar íkveikju í grafítskildi hans með þeim afleiðingum að gríðarmikið magn geislavirkra efna gaus út í andrúmsloftið og dreifðist víða um lönd. Nokkurn tíma tók að slökkva í ofninum og kæfa útstreymið og rýma þurfti stór svæði umhverfis orkuverið. Mikið starf við ýmiss konar hreinsun fylgdi einnig í kjölfarið og komu að því þúsundir manna. Enn þann dag í dag, meira en 17 árum eftir atburðinn, eru ekki öll kurl komin til grafar en hér á eftir verður fjallað nánar um áhrifin eins og þau eru metin um þessar mundir.
Mannkynið sem og annað líf, verður fyrir stöðugri geislun, einkum vegna áhrifa frá geislavirkum efnum í berggrunninum og einnig ná geimgeislar að vissu marki gegnum lofthjúp jarðar. Náttúruleg geislun er misjöfn eftir löndum, hæð yfir sjó og ýmsum landsháttum. Geislaáverki er mældur í einingu sem nefnd er Sievert, skammstafað Sv. Hér á landi verða menn að jafnaði fyrir um 1 mSv (millisievert, 1/1000 úr Sv) geislun á ári af náttúrulegum ástæðum. Þá má nefna að í Noregi og Svíþjóð, þar sem berggrunnurinn er mjög frábrugðinn þeim íslenska, er náttúruleg geislun að jafnaði um 4 mSv á ári. Reglur um geislavarnir gera ráð fyrir að geislun undir 5 mSv á ári sé látin afskiptalaus, en þegar unnið er eða dvalið við aðstæður þar sem geislun er á bilinu 5-50 mSv á ári, sé skylt að hafa viðeigandi eftirlit. En snúum okkur aftur að Tsjernobyl. Strax fyrstu nóttina fórust 5 slökkviliðsmenn við að hemja eldana. Fyrstu dagana urðu 134 björgunarmenn fyrir mikilli geislun eða ígildi meira en 1000 mSv. Þar af urðu 43 þeirra fyrir meiri geislun en 4000 mSv og af þeim létust 28 innan nokkurra vikna. Að auki hafa 11 látist síðan (fram til 1998) úr þessum hópi, þar af einn úr hvítblæði. Fyrstu dagana dreifðist mikið magn geislavirkra efna einkum til norðurs og vesturs frá kjarnorkuverinu með ríkjandi vindátt. Fljótlega eftir slysið var því tekið til við að rýma þau landsvæði sem verst urðu úti. Rýmdir voru 187 bæir og þorp í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi með alls um 116 þúsund íbúum. Þar á meðal var bærinn Pripyat sem taldi um 50 þúsund íbúa. Þetta svæði er alls um 10 þúsund ferkílómetrar eða á stærð við Reykjanesskagann. Að auki jókst grunngeislun um 5-10 mSv fyrstu árin á um 20 þúsund ferkílómetra svæði. Þá jókst grunngeislum um 1-5 mSv á ári á um 150 þúsund ferkílómetra svæði, þar af liggja 30 þúsund utan gömlu Sovétríkjanna. Í kjölfar slyssins (1986-87) komu alls um 290 þúsund manns að ýmis konar hreinsun og er metið að þau hafi orðið fyrir geislun á bilinu 100-200 mSv meðan á þessu starfi stóð. Þegar meta skal áhrif þessa slyss er ljóst að hér er um að ræða flókið samspil mannskaða, heilsufars (andlega og líkamlega) og röskunar á búsetu og lífsháttum. Sennilega verða áhrifin aldrei metin til fullnustu. Beinn mannskaði í sjálfu verinu hefur þegar verið nefndur, en hvað með önnur áhrif af geisluninni? Þegar menn verða fyrir miklum geislaáverka (skammtímageislun fer yfir 1000-2000 mSv) eru einkennin oftast augljós og lífslíkur minnka hratt með aukinni geislun. Þegar geislunaráverki er minni en 500 mSv er öllu flóknara að meta áhrifin, „meðgöngutíminn“ getur orðið æði langur og þá blandast oft saman aðrir þættir og sjúkdómar ótengdir geislaáverkanum. Beinar ályktanir út frá sjúkrasögu einstakra manna eru vandmeðfarnar og í raun er nauðsynlegt að fylgjast með heilsufari stórra hópa áratugum saman til að greina raunveruleg áhrif slyss á borð við það sem sem hér um ræðir. Mikið starf hefur verið unnið á þessu sviði og 1998 náði alhliða gagnagrunnur tengdur þessum atburðum til alls um 650 þúsund manna. Hér er alltof flókið að rekja þessa vinnu en rétt er að draga fram nokkra þætti sem þar má greina. Vitað er að geislun getur valið krabbameini og hér skulu fyrst nefndir tveir þættir, krabbamein í skjaldkirtli og hvítblæði. Við slysið losnaði mikið magn af geislavirku joði sem er skammlíft (helmingunartíminn er um 8 dagar). Joð sest í skjaldkirtilinn og ef það er geislavirkt getur það valdið krabbameini þar. Mikilvægt er að gefa joðtöflur í nokkrar vikur eftir atburði eins og Tsjernobyl-slysið til að metta kirtilinn og draga þannig úr upptöku á geislavirku joði. Verulegur misbrestur var á þessu í ringlureiðinni sem varð eftir slysið og skýrslur sýna að veruleg aukning var á fjölda þeirra sem greindust með þetta mein. Alls hafa um 1.800 manns fengið krabbamein í skjaldkirtilinn fyrstu árin eftir slysið og þar af hafa 10 látist. Enn (árið 1999) er tíðni þessa krabbameins hærri en annars staðar þó að ástandið sé núna miklu betra en þegar meginbylgjan reis sem hæst 1987-91.
Hvítblæði er velþekkt sem fylgifiskur mikillar geislunar (meira en 1000 mSv) og áhrifin talin koma fram fljótlega eftir geislaáaverkann (1-5 ár). Rannsóknir á þessu hafa einkum beinst að því að meta áhrif á þær 270 þúsundir sem tóku þátt í hreinsunarstarfinu sem og á íbúa þeirra svæða sem rýmd voru. Þá liggja einnig fyrir víðtækar rannsóknir í nokkrum nærliggjandi löndum. Hvergi hefur orðið marktæk breyting á fjölda tilvika hvítblæðis borið saman við það sem gerist utan þessara svæða. Sama máli gildir í raun um aðrar tegundir krabbameins en langur meðgöngutími margra þeirra gerir það að verkum að fullfljótt er að afskrifa hugsanleg áhrif slyssins hvað þetta varðar. Miklu erfiðara er að meta ýmis konar önnur áhrif á heilsufar fólks sem geislun og atburður sem þessi veldur. Ekki bætir úr skák að við hrun Sovétríkjanna varð mikil röskun á öllu heilbrigðiskerfinu og margs konar óreiða komst á heilbrigðisþjónustu sem og skjalasöfn og önnur gögn og því allur samanburður við ástandið fyrir atburðinn flókinn og oft ómögulegur. Þá verður seint metin sú sálarangist og óvissa sem fylgir því að verða að rýma heimili og vinnustað árum saman og að auki búa við ótta um áhrif geislunar á heilsu sína og sinna, ótta sem því miður er oft magnaður upp með gáleysislegu tali og ýkjum um afleiðingarnar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju stökkbreytist erfðaefni í náttúrunni eftir geislavirkni? eftir Jónínu Guðjónsdóttur
- UNSCEAR 2000. Vol. I og II. Skýrsla unnin á vegum Sameinuðu þjóðanna sem lögð var fyrir allsherjarþingið haustið 2000. Hún fjallar um flest er varðar kjarnorku í heiminum sem og rannsóknir á því sem fer úrskeiðis.
- Geislavarnir ríkisins. Þar má finna önnur vefföng, til dæmis Sænsku geislavarnanna en þar er ítarlegur útdráttur úr ofangreindri skýrslu.