Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sólmyrkvar eiga sér stað þegar tungl er nýtt og gengur fyrir sólina og varpar skugga á takmarkað svæði á yfirborði jarðar. Þeir eiga sér ekki stað mánaðarlega því nýtt tungl er venjulega norðan eða sunnan við jarðbrautarsléttuna vegna halla tunglbrautarinnar.
Frá jörðu séð er sýndarþvermál tunglsins næstum því það sama og sýndarþvermál sólarinnar – um 0,5° - enda er þvermál sólar um 400 sinnum meira en þvermál tunglsins og jafnframt er sólin 400 sinnum fjær en tunglið. Þessi tilviljun veldur því að tunglið „passar“ yfir sólina á meðan á almyrkva á sólu stendur. Í nokkrar mínútur hylur tunglið bjarta sólskífuna og ekki mikið meira en það. Þunna heita gasið sem umlykur sólina, sólkórónuna svonefndu, er einungis hægt að ljósmynda frá jörðu í stutta stund á meðan almyrkva stendur.
Almyrkvar á sólu eru sjaldgæfir atburðir á hverjum stað á jörðinni, þar sem skugginn fellur aðeins á lítið takmarkað svæði. Fræðilega séð gætu almyrkvar lengst varað í 7 mínútur og 31 sekúndu en venjulega eru þeir ekki lengri en 2-4 mínútur. Sólmyrkvar hafa engar afleiðingar í för með sér aðrar en þær að dýr breyta hegðun sinni meðan hann stendur yfir.
Til að sjá þessa undraverðu sýningu sem sólmyrkvi er, verður maður að vera staddur í alskugga tunglsins þar sem tunglið byrgir algerlega fyrir sólina og ekkert ljós berst frá henni, og er þá talað um almyrkva. Í þeirri fjarlægð sem jörðin er frá tunglinu er alskugginn mjór og þekur því aðeins lítið svæði á jörðinni. Þegar jörðin snýst, myndar alskugginn myrkvaslóð eða -rák á yfirborði jarðar. Almyrkvinn verður aðeins á þeim stöðum á jörðinni sem slóðin liggur um.
Skugga tunglsins er skipt í tvo hluta, alskugga og svo hálfskugga. Sé maður staddur innan hálfskuggans, hylur tunglið aðeins hluta sólarinnar. Meðan á sólmyrkva stendur nær hálfskuggi tunglsins yfir stórt svæði af yfirborði jarðar og hver sem stendur innan hálfskuggans sér svonefndan deildarmyrkva. Með öðrum orðum, deildarmyrkvar á sólu verða þegar tunglið hylur ekki algjörlega sólskífuna. Sólskífan virðist þá vera sigð, vegna tunglsins. Deildarmyrkvar eiga sér líka stað í tunglmyrkvum, en þá er tunglið ekki alveg hulið af alskugga jarðar, þannig að hluti tunglsins er upplýstur.
Breiddin á myrkvaslóðinni veltur aðallega á fjarlægð milli jarðar og tungls á meðan almyrkva stendur. Myrkvaslóðin er breiðust ef tunglið er í jarðnánd, það er í nálægasta punktinum á braut sinni um jörðu. Myrkvaslóðin getur þannig orðið allt að 270 km breið, en er venjulega mun mjórri.
Stundum nær alskuggi tunglsins ekki alveg til jarðar og þá verður til þriðja tegund sólmyrkva sem kallast hringmyrkvi. Þetta gerist þegar tunglið er fjærst jörðu á braut sinni, í svonefndri jarðfirð, þannig að alskugginn nær ekki til jarðar og tunglið virðist of smátt til að hylja sólina algjörlega. Á meðan hringmyrkva stendur sést þunnur hringur sólskífunnar umhverfis brún tunglsins. Lengdin á alskugga tunglsins er nærri 5000 km minni en meðalfjarlægðin milli tunglsins og yfirborðs jarðar (384.000 km). Þar af leiðandi nær skuggi tunglsins ekki alltaf yfirborði jarðar, jafnvel þegar sólin, tunglið og jörðin eru í réttri línu til að mynda myrkva. Hringmyrkvar eru aðeins algengari en almyrkvar og geta varað í allt að 12 mínútur og 30 sekúndur. Sólmyrkvinn á Ísland 31. maí 2003 er af þessari tegund.
Sé maður nógu heppinn til að verða vitni af sólmyrkva, verður að hafa í huga að eina stundin sem óhætt er að horfa á sólina með berum augum, er meðan á almyrkva stendur, þegar sólskífan er algjörlega hulin af tunglinu og aðeins sólkórónan sést. Að horfa á þessa mögnuðu sýningu, en aðeins þegar sólin er almyrkvuð, skaðar mann ekkert. En ef maður horfir beint í sólskífuna, jafnvel þegar aðeins örlítill hluti hennar er sýnilegur, getur maður átt á hættu að verða fyrir varanlegum augnskaða eða jafnvel blindast. Í augunum eru engir sársaukaskynjarar svo maður tekur ekki eftir því þegar slíkt gerist.
Í sólmyrkvanum 31. maí, sem er hringmyrkvi, er hluti sólskífunnar alltaf sýnilegur og því verður að grípa til viðeigandi ráðstafana ef fylgjast á með myrkvanum. Aldrei má horfa á sólina með berum augum eða með einhvers konar sjóntæki, eins og handsjónauka eða stjörnusjónaukum. Alls ekki nota sólgleraugu, ljósmyndafilmur, reyklitað gler, röntgenfilmur, ljósmyndasíur eða diskettufilmur. Þó svo að þessir hlutir dragi úr birtu sólar, draga þeir ekki úr ósýnilegri innrauðri eða útfjólublárri geislun sem skaðar augun á fremur skömmum tíma. Ágætis ráðlegging er að verða sér úti um gott rafsuðugler sem hægt er að kaupa í byggingavöruverslunum. Best er þó að eyða nokkrum hundruð eða þúsund krónum í viðeigandi síur frá viðurkenndum framleiðsluaðila, til dæmis þekktum stjörnusjónaukaframleiðanda sem öruggt er að treysta. Ef nota á síu á sjónauka, skal aðeins nota síu frá framleiðanda sjónaukans eða framleiðanda sem gerir síur sérstaklega fyrir tækið sem nota á.
Nánari upplýsingar um hringmyrkvann 31. maí má nálgast á vefsíðu Almanaks Háskólans. Þar er einnig að finna töflu sem sýnir tímasetningu um hvenær myrkvinn sést frá tilteknum stað á landinu. Að sjálfsögðu eru allir hvattir til að fylgjast með.
Heimildir:
Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
Pasachoff, Jay. Astronomy: From the Earth to the Universe. Massachusets, Saunders College Publishing, 1998. Fimmta útgáfa.
Hér var einnig svarað eftirfarandi spurningum:
Hvað er hringmyrkvi? (Eiríkur Magnússon)
Hvers vegna verður sólmyrkvi og hvaða afleiðingar getur það haft í för með sér? Hvernig lýsir hringmyrkvi sér? En deildarmyrkvi? (Atli Steinar Siggeirsson)
Er sól- og almyrkvi það sama? (Þórunn Guðbjörnsdóttir)
Ég hef alltaf heyrt talað um að það skemmi augun að horfa á sólmyrkva, er það rétt? (Ingibjörg Dagbjartsdóttir)
Er eitthvað sem gæti komið í staðinn fyrir hlífðargleraugun fyrir sólmyrkvann?
Sævar Helgi Bragason. „Hvað er sólmyrkvi og hvað varir hann lengi?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3464.
Sævar Helgi Bragason. (2003, 30. maí). Hvað er sólmyrkvi og hvað varir hann lengi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3464
Sævar Helgi Bragason. „Hvað er sólmyrkvi og hvað varir hann lengi?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3464>.