Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig svarað eftirtöldum spurningum frá sama spyrjanda:
Hvar lifir svarti jagúarinn?
Af hverju er svarti jagúarinn svartur?
Jagúarinn (Panthera onca) tilheyrir ættkvísl svokallaðra stórkatta, Panthera. Tegundin er eini meðlimur ættkvíslarinnar sem lifir í Norður- og Suður-Ameríku og er jafnframt langstærst og kröftugust katta Nýja-heimsins.
Svört afbrigði eru vel þekkt meðal hlébarða og jagúara og er hvorki um sértegundir að ræða né deilitegundir, heldur aðeins litaafbrigði. Sömu sögu er til dæmis að segja um hvít bengaltígrisdýr. Ástæðan fyrir svarta litnum er stökkbreyting í genum sem stjórna lit feldsins. Genin eru víkjandi þannig að þau geta erfst frá foreldrum til afkvæma, án þess að koma endilega fram.
Svartur litur jagúarsins dregur ekki úr hæfni hans í lífsbaráttunni við viss umhverfisskilyrði, rannsóknir líffræðinga staðfesta það. Ekki hefur höfundur þessa svars rekist á neinar rannsóknar um hversu algengir svartir jagúarar eru en þeir eru nokkuð algengir í þéttum regnskógum Suður- og Mið-Ameríku. Á opnum gresjum er svarti liturinn hinsvegar mjög óhentugur og þar er einungis gulbrúna jagúarar með svörtu rósettumynstri að finna. Slíkir sléttujagúarar eru einnig nokkuð stærri en bræður þeirra sem lifa í þéttum regnskógum og geta stærstu karldýrin orðið allt að 160 kg á þyngd. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að bráð sléttujagúaranna er stærri en þeirra sem lifa í frumskóginum, svo sem flóðsvín og margar tegundir meðalstórra grasbíta.
Útbreiðsla jagúarsins er nú bundin við Suður- og Mið-Ameríku. Deilitegundir jagúarsins voru við upphaf 20. aldar níu talsins og hefur að minnsta kosti ein þeirra, Panthera onca arizonaris sem var stórvaxin og lifði aðallega á stjaktrjáarsvæðum, horfið af völdum mannsins. Um miðja 20. öld var jagúarinn horfinn úr norður-amerískri náttúru vegna yfirgangs voldugra nautgriparæktenda í Suðurríkjum Bandaríkjanna sem þurrkuðu þá út (og einnig úlfa í leiðinni) af stórum svæðum í Arizona, Kaliforníu og víðar í suðurhluta Bandaríkjanna. Reglulega fara þó jagúarar norður yfir landamærin frá Mexíkó en þar hefur tegundin einnig átt í vök að verjast, að undanskildum suðurhluta landsins þar sem þétta regnskóga er að finna.
Heimildir og myndir:
Jón Már Halldórsson. „Er svarti jagúarinn sérstök tegund eða bara óvenjulegt afbrigði?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2003, sótt 1. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=3436.
Jón Már Halldórsson. (2003, 21. maí). Er svarti jagúarinn sérstök tegund eða bara óvenjulegt afbrigði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3436
Jón Már Halldórsson. „Er svarti jagúarinn sérstök tegund eða bara óvenjulegt afbrigði?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2003. Vefsíða. 1. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3436>.