Um kjörgengi forseta á Íslandi segir í 4. grein stjórnarskrárinnar:
Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningaréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.Af þessu má draga þá ályktun að aðild að þjóðkirkjunni sé ekki skilyrði fyrir þann sem sækist eftir þessu æðsta embætti landsins. Forsetinn er ekki æðsti yfirmaður þjóðkirkjunnar, heldur biskup Íslands sem jafnframt nýtur lögbundinnar aðstoðar Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við að sinna starfi sínu. Þar sem konungsveldi er við lýði, tíðkast víða að konungstigninni fylgi staða yfirmanns viðkomandi þjóðkirkju. Svo er til dæmis í Bretlandi þar sem Elísabet II situr yfir bæði ríki og kirkju. Í bresku stjórnarskránni er það jafnframt skilyrði að konungurinn/drottningin sé meðlimur bresku kirkjunnar, en það ákvæði hefur legið undir gagnrýni undanfarið þar í landi. Hér á Íslandi hefur umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju verið í hámæli síðustu ár en hvort það ýtir undir að fyrsti forsetinn utan þjóðkirkjunnar verði kosinn, fyrr eða síðar, skal ósagt látið. Engu að síður er það vert umhugsunar gagnvart framtíðinni.