Búrhvalurinn (Physeter macrocephalus) er risinn meðal tannhvala úthafanna. Hann getur orðið allt að 15 metrar á lengd og vegið yfir 50 tonn. Margir þættir í fæðunámi búrhvalsins eru enn á huldu, til dæmis hvernig hann veiðir bráðina, á hvaða dýpi og hvað nákvæmlega hann étur. Þó hafa farið fram ýmsar athuganir á fæðuvali hans byggðar á magainnihaldi veiddra dýra. Vitað er að búrhvalir kafa djúpt í leit sinni að fæðu, nokkrar sannanir fyrir því hafa fengist með hjálp mælitækja sem hafa verið fest á búrhvali. Þau sýna að þeir fara allt niður á 1200 metra dýpi og kannski jafnvel enn dýpra í veiðiferðum. Búrhvalir geta ennfremur verið í kafi í um klukkustund. Helsta fæða búrhvala eru smokkfiskar (blekfiskar) og þá oftast stórvaxnir risasmokkfiskar af tegundinni Architeuthis dux en fjöldi slíkra skepna hefur fundist í maga búrhvala. Vísindamenn telja að búrhvalir séu einu afræningar þessara smokkfiska. Rannsóknir sýna að allt að 80% af fæðu búrhvala eru smokkfiskar sem þeir ráðast á og hremma á talsverðu dýpi. Hin 20% skiptast á milli tegunda eins og kolkrabba, bolfiska, rækja, tífættra krabba og jafnvel smávaxinna og meðalstórra botnlægra hákarla.
Hvað mest heillandi við lífshætti búrhvala eru gríðarstór sár sem margir þeirra hafa fengið í átökum við risasmokkfiska í undirdjúpunum. Þó risasmokkfiskurinn sé stór, á hann ekki mikla möguleika í búrhval. Því miður fyrir áhugamenn um lifnaðarhætti hvala, hefur slíkur bardagi ekki verið festur á filmu og nær öruggt er að enginn maður hefur orðið vitni að slíkum bardaga milli búrhvals og risasmokkfisk.
Á Vísindavefnum má lesa nánar um búrhvali í svari sama höfundar við spurningunni Hvað eru til margir búrhvalir í heiminum?
- Banister, Keith og Andrew Campbell. 1985. The Encyclopedia of Aquatic Life. Facts on File, New York, NY
- Richard Ellis Art Gallery
- Ozbird.net
- Cornell University Science News