Hæsta fjall Rússlands heitir Elbrus (á rússnesku Gora El’brus) og er það í Kákasusfjallgarðinum, nálægt landamærum Georgíu. Tindar þess eru tveir, hinn vestari og hærri er 5.642 metrar á hæð en sá eystri 5.621 metri á hæð. Elbrus er jafnframt hæsta fjall Evrópu, 835 metrum hærra en Mt. Blanc sem lengi vel var hæsta fjallið í álfunni. Eftir fall Sovétríkjanna gömlu „fluttist“ Elbrus yfir til Evrópu og er því hæsta fjall álfunnar. Haraldur Örn Ólafsson, fjallgöngugarpur, gekk á vestari (þann vinstri á efstu myndinni) tind Elbrusfjalls 27. ágúst 2001 og var það hluti af afreki hans að ganga á hæstu fjöll allra heimsálfanna.
Heimildir og myndir:
- Um Elbrus og fjallgöngur Haraldar Arnar Ólafssonar á vefsetrinu Sjö tindar
- Um Elbrus á vefsetri Encyclopædia Britannica
Þetta svar var á sínum tíma eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið var í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.