Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Saltið sem dreift er á götur bræðir ísinn og salti er stundum dreift á skíðabrekkur til að fá harðfenni. Þrátt fyrir að við fyrstu sýn sé þetta mótsögn geta báðar fullyrðingarnar verið réttar.
Salt sem stráð er á snjó eða ís bræðir yfirborð hans og myndar saltvatnspoll. Þetta gerist þannig að ísinn og saltið mynda blöndu sem hefur lægra bræðslumark en hreinn snjór eða ís og getur því haldist bráðin við lægra hitastig en frostmark vatns. Þess konar blanda er stundum kölluð kuldablanda. Bræðslumarkslækkun saltvatnsins ræðst af styrkleika saltsins í vatninu. Svo að dæmi sé tekið þarf 16 g af matarsalti til að lækka bræðslumark eins lítra af vatni um eina gráðu á selsíus.
Mokað og saltað.
Eftir því sem meira bráðnar af snjónum minnkar styrkleiki saltsins í blöndunni og á endanum er svo komið að lækkaða bræðslumarkið er jafnt ríkjandi hitastigi, þar á meðal á ísnum sem undir er, og meiri snjór bráðnar ekki (svo fremi sem saltið sé ekki svo mikið að allur snjórinn bráðni). Þegar svona er komið er sagt að fasarnir eða efnishamirnir tveir, vökvi og fast efni (saltvatnið og ísinn) séu í jafnvægi. Við þessar aðstæður þarf umhverfishitastig ekki að lækka nema örlítið til að saltvatnið frjósi og hörð ísskán myndist ofan á snjónum. Sé veðrið þokkalega stöðugt og söltunin hafi gerst að degi til, má búast við að blandan frjósi strax kvöldið eða nóttina eftir.
Salt er stundum notað til þess að mynda harða skel í skíðabrekkum.
Snjórinn í skíðabrekkunum er auðvitað nægilega mikill til að saltdreifing hafi aðeins áhrif á efsta lagið, sem frýs þá fljótlega aftur og myndar harða skel. Aðra sögu er að segja af ís eða snjó á götunum, sem saltið nær að bræða að öllu eða miklu leyti. Ef snjórinn á götunum bráðnar ekki alveg myndast ís alveg eins og í skíðabrekkunum og þá þarf að endurtaka saltdreifinguna. Eins getur kuldablandan frosið aftur, til dæmis næstu nótt, ef hún hefur ekki skolast burt.
Margir kannast sjálfsagt við það að saltur sjór hefur lægra frostmark en ferskvatn. Þess vegna leggur stöðuvötn og tjarnir oft í frostum án þess að sjórinn láti á sjá. En þessi frostmarkslækkun sjávarins er að sjálfsögðu sama fyrirbærið og í kuldablöndunni.
Myndir:
Halldór Svavarsson. „Götur eru saltaðar til að svellið bráðni, en skíðabrekkur til að fá harðfenni. Hvernig má það vera?“ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3141.
Halldór Svavarsson. (2003, 13. febrúar). Götur eru saltaðar til að svellið bráðni, en skíðabrekkur til að fá harðfenni. Hvernig má það vera? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3141
Halldór Svavarsson. „Götur eru saltaðar til að svellið bráðni, en skíðabrekkur til að fá harðfenni. Hvernig má það vera?“ Vísindavefurinn. 13. feb. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3141>.