Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær er núna?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir



Núna er auðvitað nákvæmlega á þessari stundu, það er að segja þegar þetta er skrifað ... eða kannski alveg eins þegar þetta er lesið.

Núna er eitt af þeim orðum sem kölluð hafa verið ábendingarorð (e. indexicals) og eru þeim eiginleikum gædd að merking þeirra ræðst af því hver segir þau, hvar og hvenær. Með öðrum orðum ræðst merking ábendingarorða af samhengi og aðstæðum. Meðal annarra slíkra orða má nefna hérna, ég, þú, hún, hann, þetta, í gær og reyndar.

Að sjálfsögðu má segja um flest orð að samhengi og aðstæður hafi einhver áhrif á merkingu þeirra en þegar um ábendingarorð er að ræða má segja að merkingin sé með öllu óljós ef ekki er vitað um aðstæður þess sem þau mælir. Ef ég heyri til dæmis sagt “Ég er hér” gefur það mér nákvæmlega engar upplýsingar nema ég hafi einhverja hugmynd um hver það er sem talar og hvar viðkomandi er.

Sá heimspekingur sem hefur haft mest áhrif á hugmyndir málspekinga um ábendingarorð á síðari tímum er David Kaplan sem birti árið 1977 tímamótagreinina “Demonstratives.” Kaplan færir rök fyrir því að ábendingarorð hafi svokallaða beina tilvísun, það er að þau vísi beint til þeirra hluta sem talað er um fremur en að merkingin vísi til einhvers konar lýsingar eða eiginleika. Kaplan heldur því einnig fram að ábendingarorð sýni okkur berlega að orð hafi tvenns konar merkingu. Annars vegar er um að ræða málfræðilega merkingu sem er óháð samhengi og aðstæðum. Til dæmis merkir “Ég er hér” í þeim skilningi alltaf það sama; ég vísar til þess sem talar og hér vísar til staðarins sem viðkomandi er á. Hin merkingin er svo sú sem er breytileg og felur í sér hina beinu tilvísun sem Kaplan talar um. Í þeim skilningi merkir “Ég er hér” eitt þegar undirrituð skrifar það í New York-ríki í Bandaríkjunum og allt annað þegar lesandi þessa svars (líklega á Íslandi) segir “Ég er hér.”

Samkvæmt þessum hugmyndum Kaplan má því segja að í einum skilningi sé merking orðsins núna alltaf hin sama, það er að segja orðið núna vísar alltaf til þess tíma sem það er notað. Í þeim skilningi eru setningar á borð við “Núna er einmitt á þessari stundu” og “Ég er hér núna” alltaf sannar. Í öðrum skilningi er merkingin breytileg eftir samhengi og aðstæðum. Ef við gerum ráð fyrir að spyrjandinn hafi átt við þann skilning orðsins væri “núna” væntanlega á þeirri stundu sem spyrjandinn setti fram spurninguna.

En merking orðsins núna getur líka verið samhengisbundin á annan hátt sem hefur ekkert með eðli ábendingarorða að gera. Merking orðsins núna er nefnilega afstæð og ræðst það af samhenginu hve stór tímaeiningin er sem orðið vísar til. Þegar ég segi “grænir skór eru í tísku núna” vísar núna líklega til þessa árs og þegar ég segi “bílar eru algeng farartæki núna” er ég væntanlega að tala um mörg ár eða áratugi. Ef ég hrópa skyndilega “stígðu á bremsuna núna” er ég hins vegar ekki að biðja um að stigið sé á bremsuna á þessu ári eða þessa vikuna heldur vísar núna til þessarar sekúndu eða sekúndubrots.

Ýmis önnur ábendingarorð eru afstæð á svipaðan hátt og núna, til dæmis orðið hér (er átt við einhvern pínulítinn blett sem bent er á, borgina sem viðkomandi býr í, jörðina eða kannski alheiminn?). Önnur ábendingarorð eru ekki afstæð, til að mynda vísar ég alltaf til nákvæmlega einnar persónu og á morgun til nákvæmlega eins dags. Fjölmörg orð sem ekki eru ábendingarorð hafa líka afstæða merkingu, þar má nefna orðin oft, stór og ríkur.

Með þessi einkenni orðsins núna í huga, að það sé bæði ábendingarorð og afstætt, geta lesendur svo líklega svarað spurningunni sjálfir.

Tölvumynd: HB

Mynd af David Kaplan: UCLA Humanities

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

27.1.2003

Spyrjandi

Óli Þorsteinsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvenær er núna?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2003, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3065.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 27. janúar). Hvenær er núna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3065

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvenær er núna?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2003. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3065>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær er núna?


Núna er auðvitað nákvæmlega á þessari stundu, það er að segja þegar þetta er skrifað ... eða kannski alveg eins þegar þetta er lesið.

Núna er eitt af þeim orðum sem kölluð hafa verið ábendingarorð (e. indexicals) og eru þeim eiginleikum gædd að merking þeirra ræðst af því hver segir þau, hvar og hvenær. Með öðrum orðum ræðst merking ábendingarorða af samhengi og aðstæðum. Meðal annarra slíkra orða má nefna hérna, ég, þú, hún, hann, þetta, í gær og reyndar.

Að sjálfsögðu má segja um flest orð að samhengi og aðstæður hafi einhver áhrif á merkingu þeirra en þegar um ábendingarorð er að ræða má segja að merkingin sé með öllu óljós ef ekki er vitað um aðstæður þess sem þau mælir. Ef ég heyri til dæmis sagt “Ég er hér” gefur það mér nákvæmlega engar upplýsingar nema ég hafi einhverja hugmynd um hver það er sem talar og hvar viðkomandi er.

Sá heimspekingur sem hefur haft mest áhrif á hugmyndir málspekinga um ábendingarorð á síðari tímum er David Kaplan sem birti árið 1977 tímamótagreinina “Demonstratives.” Kaplan færir rök fyrir því að ábendingarorð hafi svokallaða beina tilvísun, það er að þau vísi beint til þeirra hluta sem talað er um fremur en að merkingin vísi til einhvers konar lýsingar eða eiginleika. Kaplan heldur því einnig fram að ábendingarorð sýni okkur berlega að orð hafi tvenns konar merkingu. Annars vegar er um að ræða málfræðilega merkingu sem er óháð samhengi og aðstæðum. Til dæmis merkir “Ég er hér” í þeim skilningi alltaf það sama; ég vísar til þess sem talar og hér vísar til staðarins sem viðkomandi er á. Hin merkingin er svo sú sem er breytileg og felur í sér hina beinu tilvísun sem Kaplan talar um. Í þeim skilningi merkir “Ég er hér” eitt þegar undirrituð skrifar það í New York-ríki í Bandaríkjunum og allt annað þegar lesandi þessa svars (líklega á Íslandi) segir “Ég er hér.”

Samkvæmt þessum hugmyndum Kaplan má því segja að í einum skilningi sé merking orðsins núna alltaf hin sama, það er að segja orðið núna vísar alltaf til þess tíma sem það er notað. Í þeim skilningi eru setningar á borð við “Núna er einmitt á þessari stundu” og “Ég er hér núna” alltaf sannar. Í öðrum skilningi er merkingin breytileg eftir samhengi og aðstæðum. Ef við gerum ráð fyrir að spyrjandinn hafi átt við þann skilning orðsins væri “núna” væntanlega á þeirri stundu sem spyrjandinn setti fram spurninguna.

En merking orðsins núna getur líka verið samhengisbundin á annan hátt sem hefur ekkert með eðli ábendingarorða að gera. Merking orðsins núna er nefnilega afstæð og ræðst það af samhenginu hve stór tímaeiningin er sem orðið vísar til. Þegar ég segi “grænir skór eru í tísku núna” vísar núna líklega til þessa árs og þegar ég segi “bílar eru algeng farartæki núna” er ég væntanlega að tala um mörg ár eða áratugi. Ef ég hrópa skyndilega “stígðu á bremsuna núna” er ég hins vegar ekki að biðja um að stigið sé á bremsuna á þessu ári eða þessa vikuna heldur vísar núna til þessarar sekúndu eða sekúndubrots.

Ýmis önnur ábendingarorð eru afstæð á svipaðan hátt og núna, til dæmis orðið hér (er átt við einhvern pínulítinn blett sem bent er á, borgina sem viðkomandi býr í, jörðina eða kannski alheiminn?). Önnur ábendingarorð eru ekki afstæð, til að mynda vísar ég alltaf til nákvæmlega einnar persónu og á morgun til nákvæmlega eins dags. Fjölmörg orð sem ekki eru ábendingarorð hafa líka afstæða merkingu, þar má nefna orðin oft, stór og ríkur.

Með þessi einkenni orðsins núna í huga, að það sé bæði ábendingarorð og afstætt, geta lesendur svo líklega svarað spurningunni sjálfir.

Tölvumynd: HB

Mynd af David Kaplan: UCLA Humanities...