Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér á landi er reglubundið eftirlit með gæðum neysluvatns í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og framkvæmt í samræmi við reglugerð um neysluvatn frá 1995. Sýni eru tekin reglulega á hverjum stað og fer fjöldi sýna eftir fólksfjölda á hverju svæði. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík eru tekin um 180 sýni á ári. Mest áhersla er lögð á örverumælingar en einnig er fylgst með svokölluðum vísbendingarþáttum, það er að segja þeim þáttum sem geta gefið vísbendingu um að vandamál sé á ferð eða eitthvað hafi farið úrskeiðis til dæmis við dreifingu á vatninu. Flestar veitur hafa jafnframt látið framkvæma einhverjar efnamælingar og þær stærstu mjög rækilegar mælingar, einkum vegna útflutnings á átöppuðu vatni.
Íslenska vatnið kemur mjög vel út úr öllum mælingum. Hvað reglubundið eftirlit varðar eru að minnsta kosti 95% sýna að jafnaði í lagi. Ef vandamál finnast eru þau smávægileg. Á þeim fáu stöðum (einum fimm) þar sem yfirborðsvatn er notað hér á landi er vatnið ágeislað með útfjólubláu ljósi til sótthreinsunar og hefur það reynst vel. Hér á landi er engin klórmeðhöndlun á vatni eins og algengt er erlendis og bragðgæði því mikil. Hvað efnamælingar varðar er óhætt að segja að íslenska vatnið sé í sérflokki. Varnarefni og ýmis önnur lífræn efni hafa til dæmis aldrei greinst í íslensku vatni og nítrat, sem er víða vandamál erlendis, finnst aðeins í afar lágum styrk ef einhverjum.
Ég hef ekki í höndunum mæliniðurstöður fyrir vatn í öðrum löndum og get því ekki farið í beinan samanburð, en samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins er hreinleiki íslenska vatnsins mikill, til dæmis ef miðað er við hámarksgildi fyrir efni samkvæmt reglugerð. Því er svo sannarlega óhætt að mæla með íslenska vatninu.
Sumir halda ef til vill að það geti verið galli hversu hreint eða "tómt" íslenska vatnið er, það er að segja sneytt öðrum efnum en H2O. Næringarfræðilega á þetta þó ekki við rök að styðjast því að við fáum í ríkum mæli úr annarri fæðu þau efni sem hugsanlega geta verið í vatni. Það er staðreynd að íslenska vatnið er steinefnasnautt, en stundum er vatn á flösku einmitt auglýst eða markaðssett með því að benda á að það innihaldi steinefni eða jónir í æskilegum styrk eða jafnvægi. Vatn er hins vegar ekki mikilvæg uppspretta steinefna ef niðurstöður erlendra næringarfræðilegra rannsókna er skoðaðar.
Hins vegar má benda á athuganir á fólki sem er í miklum hitum yfir töluverðan tíma, það er að segja að minnsta kosti nokkrar klukkustundir. Ef fólk drekkur vatn við þessar aðstæður og nærist að öðru leyti ekkert, getur það fundið einkenni salt- eða natríumskorts, sem lýsir sér meðal annars með höfuðverk og slappleika. Svipaðar aðstæður geta komið upp við mikla líkamlega áreynslu, en þá hentar auðvitað vel að drekka til dæmis þynntan ávaxtasafa eða annað sem veitir steinefni og vökva, auk sykra eða kolvetna sem orkugjafa. Þrátt fyrir þessi sértilvik er hreint íslenskt vatn við flestar aðstæður hinn ágætasti drykkur.
Til undirbúnings þessa svars leitaði höfundur ráða hjá Ástfríði Sigurðardóttur matvælafræðingi hjá Hollustuvernd ríkisins.
Inga Þórsdóttir. „Er vatn á Íslandi betra en annars staðar í heiminum, og þá af hverju?“ Vísindavefurinn, 29. mars 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=304.
Inga Þórsdóttir. (2000, 29. mars). Er vatn á Íslandi betra en annars staðar í heiminum, og þá af hverju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=304
Inga Þórsdóttir. „Er vatn á Íslandi betra en annars staðar í heiminum, og þá af hverju?“ Vísindavefurinn. 29. mar. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=304>.