Hugmyndir Konfúsíusar móta feðraveldið sem ríkir í Kína og þjóðarhollustuna sem að kínverskir borgarar eiga að búa yfir. Þær styðja tengslamyndanir, það er að einstaklingurinn verði að hafa félagsleg tengsl á réttum stöðum til að hafa möguleika á að hafa áhrif. Samkvæmt Konfúsíusi á stuðningur við leiðtoga að vera alger og það er ekki við hæfi að efast um vald hans. Einstaklingurinn á að vera góðhjartaður og hefur rétt til að mótmæla óréttlæti. Samfélagið á að byggja á raunsæi. Kenningar Marx og Leníns móta stjórnkerfi landsins. Kommúnistaflokkurinn er langstærsti stjórnmálaflokkurinn í Kína og hefur verið við völd frá árinu 1949. Skipulag ríkisins byggir á fimm ára áætlunarbúskap. Kínverski herinn styður Kommúnistaflokkinn og fylgir línum hans. Stjórnkerfið er miðstýrt og ætíð er hugað að því að hagsmunum flokksins sé borgið. Kenningar kapítalismans móta hagkerfi Kína en samkvæmt lögmálum hans ræður markaðurinn. Áhrif kapítalismans eru bæði til góðs og ills. Þannig hefur orðið mikill efnahagslegur uppgangur en um leið hefur bilið á milli ríkra og fátækra breikkað. Kenningar kapítalista gera kröfu um að landinu sé stjórnað með lögum svo að markaðurinn viti að hverju hann gengur, en engu að síður hefur spilling orðið vandamál í Kína með tilkomu markaðshagkerfisins. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Getið þið sagt mér allt um Kína? eftir Sigrúnu Harðardóttur
- Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag? eftir Geir Sigurðsson
- Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína? eftir Sverri Jakobsson
- Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsismi? eftir Geir Sigurðsson
- Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma? eftir Ragnheiði Kristjánsdóttur