Í grískri goðafræði spratt Pegasus, Vængfákurinn, upp úr blóði Medúsu, sem Perseifur hafði orðið að bana. Vængfákurinn flaug strax til himna og settist síðar að á Helikon-fjalli þar sem hann skapaði uppsprettu Hippókrenesar, en þaðan kom innblástur skáldanna. Aþena tamdi að lokum villta hestinn og færði Bellerófón, sem notaði Pegasus á ferðalögum sínum. Í einni ferðinni kastaði Pegasus Bellerófón í opinn dauðann og hélt ferð sinni áfram einsamall. Hann náði loks himnum þar sem hann var settur meðal stjarnanna. Fjórar meginstjörnurnar í merkinu mynda ferhyrning, en af einhverju ókunnri en forvitnilegri ástæðu hefur ein stjarnanna fjögurra, Alferatz, verið flutt yfir í nágrannamerkið Andrómedu. Áður var stjarnan δ (delta) Pegasi (fjórða bjartasta stjarna Pegasusar) en er nú α (alfa) Andrómedae (bjartasta stjarna Andrómedu). Birtustig hennar er 2,06 og er hún bjartasta stjarnan í ferhyrningnum. Nokkrar daufar vetrarbrautir eru í Pegasus-merkinu, en áhugaverðasta fyrirbærið er kúluþyrpingin M15. Hún sést ekki með berum augum, en auðvelt er að koma auga á hana með handsjónauka þar sem hún sést sem daufur þokukenndur blettur. Með stjörnusjónauka sést að hún er greinilega ein fallegasta kúluþyrping himinsins.
- Moore, Patrick og Tirion, Wil. Cambridge Guide to Stars and Planets. Cambridge University Press, Cambridge, Bretland, 1997.