Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru margir menn heiðnir?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Svarið við þessari spurningu hlýtur að vera "já", miðað við flestar merkingar orðsins heiðinn.

Í Íslenskri orðabók stendur um lýsingarorðið heiðinn:

1) sem er heiðingi, ókristinn; guðlaus; heiðinn siður Ásatrú; heiðinna manna heilsa fornmannaheilsa, góð heilsa. 2) ófermdur, illa upplýstur um trúmál. 3) sem vantar á: heiðinn klyfberi gjarðalaus klyfberi; verlaus (um sæng): sofa í heiðnu rúmi; bryddingalaus; auður, óskrifaður: heiðin blaðsíða; sviplaus, eyðilegur: þetta er svo heiðið.

Um nafnorðið heiðingi stendur:

1) maður sem ekki játar kristna trú. 2) maður sem ekki játar nein æðri trúarbrögð. 3) ófermdur maður. 4) trúleysingi. 5) sá sem býr á heiði, úlfur.

Ef við skiljum heiðinn sem "ókristinn" þá á það orð við um tvo þriðjuhluta jarðarbúa eða um 4 milljarða manna. Ef heiðinn er sá sem ekki aðhyllist nein "æðri" trúarbrögð liggur kannski beinast við að spyrja hvað geri sum trúarbrögð öðrum æðri. Hér er væntanlega átt við eingyðistrú, það er kristni, gyðingdóm og íslam, en fylgjendur þessara trúarbragða vilja sumir líta svo á að þessi trúarbrögð séu svokölluð "æðri trúarbrögð". Kristnir eru um 2 milljarðar manna, múslímar eru 1,3 milljarðar og Gyðingar 14-18 milljónir. Eftir standa þá um 2,7 milljarðar manna sem ekki aðhyllast æðri trúarbrögð og hljóta það að teljast margir menn.

Ef heiðinn þýðir einfaldlega "trúlaus" þá er heldur erfiðara að svara til um fjölda. Líklega eru um 14 til 19% jarðarbúa, eða eitthvað um einn milljarður manna, einhvers konar trúleysingjar.

Ófermt fólk má auðvitað finna víða þótt nákvæmar tölur um fjölda þess liggi ekki fyrir. Það að merkingin "ófermdur" sé flokkuð með "illa upplýstur um trúmál" er auðvitað merki um viðhorf gamalla tíma þegar fermingin var endapunktur á trúarfræðslunni sem börn hlutu. Nú á dögum ætti hins vegar að vera ljóst að þessir tveir hlutir þurfa alls ekki að falla saman og má sjálfsagt finna fermt fólk sem er illa upplýst um trúmál ásamt vel upplýstu, ófermdu fólki. En líklega má segja um flest okkar að við séum illa upplýst um trúmál, að minnsta kosti á heimsmælikvarða, þar sem það gildir sjálfsagt víðast að fólk veit lítið um önnur trúarbrögð en sín eigin. Sé viðmiðunin þessi hlýtur heimurinn að vera fullur af heiðingjum. Líklega hafa þó trúmál verið nokkuð þröngt skilgreind í upphaflegu merkingunni hér að ofan þannig að átt er við að hinir ófermdu séu illa upplýstir um það sem kennt er til fermingar.

Sennilega þarf ekki að taka það fram að þriðja merking orðsins heiðinn í orðabókinni, það er "sem eitthvað vantar á" getur tæpast átt við um menn, enda lítið vit í að segja að einhver manneskja sé verlaus eða bryddingalaus. Eitthvað svipað gildir um fimmtu merkingu orðsins heiðingi. Að minnsta kosti ætti að vera óhætt að fullyrða að fáir menn eru úlfar.

Að lokum er rétt að fjalla um orðið heiðinn í merkingunni "sem aðhyllist Ásatrú". Þegar Íslendingar tóku kristna trú var talað um að þeir sem stunduðu átrúnað á gömlu goðin, Æsina, væru heiðnir eða aðhylltust heiðinn sið. Í hugum kristinna Íslendinga jafngilti þetta kannski því að vera ekki kristinn sem aftur jafngilti því að vera trúlaus, sem skýrir þessar mismunandi merkingar orðsins heiðinn. Nú orðið er þetta orð stundum haft um þá sem eru ásatrúar og er það væntanlega sértækasta merking þess. Þann 1. desember 2001 voru meðlimir Ásatrúarsafnaðarins á Íslandi 568 sem teljast auðvitað ekki margir menn á heimsmælikvarða en þó eru þeir að minnsta kosti í einhverjum skilningi "margir". Einnig eru til sambærilegir söfnuðir í öðrum löndum en fjöldi meðlima þeirra liggur ekki fyrir.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

14.11.2002

Spyrjandi

Þórdís Holm, f. 1992

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru margir menn heiðnir?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2861.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 14. nóvember). Eru margir menn heiðnir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2861

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru margir menn heiðnir?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2861>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru margir menn heiðnir?
Svarið við þessari spurningu hlýtur að vera "já", miðað við flestar merkingar orðsins heiðinn.

Í Íslenskri orðabók stendur um lýsingarorðið heiðinn:

1) sem er heiðingi, ókristinn; guðlaus; heiðinn siður Ásatrú; heiðinna manna heilsa fornmannaheilsa, góð heilsa. 2) ófermdur, illa upplýstur um trúmál. 3) sem vantar á: heiðinn klyfberi gjarðalaus klyfberi; verlaus (um sæng): sofa í heiðnu rúmi; bryddingalaus; auður, óskrifaður: heiðin blaðsíða; sviplaus, eyðilegur: þetta er svo heiðið.

Um nafnorðið heiðingi stendur:

1) maður sem ekki játar kristna trú. 2) maður sem ekki játar nein æðri trúarbrögð. 3) ófermdur maður. 4) trúleysingi. 5) sá sem býr á heiði, úlfur.

Ef við skiljum heiðinn sem "ókristinn" þá á það orð við um tvo þriðjuhluta jarðarbúa eða um 4 milljarða manna. Ef heiðinn er sá sem ekki aðhyllist nein "æðri" trúarbrögð liggur kannski beinast við að spyrja hvað geri sum trúarbrögð öðrum æðri. Hér er væntanlega átt við eingyðistrú, það er kristni, gyðingdóm og íslam, en fylgjendur þessara trúarbragða vilja sumir líta svo á að þessi trúarbrögð séu svokölluð "æðri trúarbrögð". Kristnir eru um 2 milljarðar manna, múslímar eru 1,3 milljarðar og Gyðingar 14-18 milljónir. Eftir standa þá um 2,7 milljarðar manna sem ekki aðhyllast æðri trúarbrögð og hljóta það að teljast margir menn.

Ef heiðinn þýðir einfaldlega "trúlaus" þá er heldur erfiðara að svara til um fjölda. Líklega eru um 14 til 19% jarðarbúa, eða eitthvað um einn milljarður manna, einhvers konar trúleysingjar.

Ófermt fólk má auðvitað finna víða þótt nákvæmar tölur um fjölda þess liggi ekki fyrir. Það að merkingin "ófermdur" sé flokkuð með "illa upplýstur um trúmál" er auðvitað merki um viðhorf gamalla tíma þegar fermingin var endapunktur á trúarfræðslunni sem börn hlutu. Nú á dögum ætti hins vegar að vera ljóst að þessir tveir hlutir þurfa alls ekki að falla saman og má sjálfsagt finna fermt fólk sem er illa upplýst um trúmál ásamt vel upplýstu, ófermdu fólki. En líklega má segja um flest okkar að við séum illa upplýst um trúmál, að minnsta kosti á heimsmælikvarða, þar sem það gildir sjálfsagt víðast að fólk veit lítið um önnur trúarbrögð en sín eigin. Sé viðmiðunin þessi hlýtur heimurinn að vera fullur af heiðingjum. Líklega hafa þó trúmál verið nokkuð þröngt skilgreind í upphaflegu merkingunni hér að ofan þannig að átt er við að hinir ófermdu séu illa upplýstir um það sem kennt er til fermingar.

Sennilega þarf ekki að taka það fram að þriðja merking orðsins heiðinn í orðabókinni, það er "sem eitthvað vantar á" getur tæpast átt við um menn, enda lítið vit í að segja að einhver manneskja sé verlaus eða bryddingalaus. Eitthvað svipað gildir um fimmtu merkingu orðsins heiðingi. Að minnsta kosti ætti að vera óhætt að fullyrða að fáir menn eru úlfar.

Að lokum er rétt að fjalla um orðið heiðinn í merkingunni "sem aðhyllist Ásatrú". Þegar Íslendingar tóku kristna trú var talað um að þeir sem stunduðu átrúnað á gömlu goðin, Æsina, væru heiðnir eða aðhylltust heiðinn sið. Í hugum kristinna Íslendinga jafngilti þetta kannski því að vera ekki kristinn sem aftur jafngilti því að vera trúlaus, sem skýrir þessar mismunandi merkingar orðsins heiðinn. Nú orðið er þetta orð stundum haft um þá sem eru ásatrúar og er það væntanlega sértækasta merking þess. Þann 1. desember 2001 voru meðlimir Ásatrúarsafnaðarins á Íslandi 568 sem teljast auðvitað ekki margir menn á heimsmælikvarða en þó eru þeir að minnsta kosti í einhverjum skilningi "margir". Einnig eru til sambærilegir söfnuðir í öðrum löndum en fjöldi meðlima þeirra liggur ekki fyrir.

...