Kraftverk, sem nefnast mu’jizãt á arabísku, gegna afar litlu hlutverki í íslamskri guðfræði, ólíkt kraftaverkum í kristinni trú. Íslamstrú afneitar þó ekki kraftaverkum en þau hafa litla sem enga þýðingu. Fræðimaðurinn al-Ansãri, sem var uppi frá 1006-1089 eftir okkar tímatali, sagði um kraftaverk:
Sá sem gengur á vatni, er engu meiri en strá. Sá sem segist geta flogið, líkist lítilli flugu. Sigraðu eigið hjarta, það er hið sanna kraftaverk.Spámanninum Múhameð hafa verið eignuð nokkur kraftaverk. Í 54. súru, en svo nefnast 114 kaflar Kóransins, segir af því þegar máninn er klofinn í tvennt. Sumir túlka þann atburð sem kraftaverk Múhameðs. Sú túlkun styðst hins vegar ekki við neitt í texta Kóransins. Nú hallast menn frekar að því að túlka þennan atburð sem fyrirboða einhvers konar heimsslita, frekar en þarna sé verið að segja frá kraftaverki. Í kristinni trú hafa kraftaverk gegnt stóru hlutverki. Heilagur Ágústínus (354-430) taldi að mesta kraftaverkið hafi verið sköpunin sjálf. Samkvæmt heimssýn Ágústínusar ganga kraftaverk þess vegna ekki gegn náttúrunni eða náttúrulögmálum heldur eru þau forsenda fyrir tilvist þeirra. Kraftaverk eru hins vegar handan okkar skilnings, á sama hátt og sköpun Guðs á heiminum er mönnunum óskiljanleg. Í stað þess að vera contra naturam eru kraftaverk samkvæmt Ágústínusi supra naturam. Á 18. öld færði David Hume (1711-1776) fram kunn rök gegn kraftaverkum. Kraftaverk, sagði Hume, eru í eðli sínu brot á náttúrulögmálunum, annars væru þau ekki kraftaverk. Það er ekki kraftaverk að maður á besta aldri deyi skyndilega því að við vitum að slíkt gerist stundum. Það er hins vegar kraftaverk ef einhver rís upp frá dauðum, því að slíkt er alls ekki vanalegt og gerist í raun ekki. Það er náttúrulögmál að við deyjum en andstætt náttúrlögmálunum að rísa upp frá dauðum. Kraftaverk ganga þess vegna alltaf gegn allsherjar reynslu og þekkingu, annars væru þau ekki kraftaverk Að þessum forsendum gefnum dregur Hume eftirfarandi ályktun: Vitnisburður þeirra sem telja sig hafa orðið vitni að kraftaverki vegur alltaf minna en sá margfaldi vitnisburður sem liggur til grundvallar náttúrulögmálinu sem kraftaverkið brýtur gegn. Rökin fyrir því að náttúrulögmálið hafi verið brotið eru alltaf veikari en rökin fyrir því að náttúrulögmálið haldi. Ef svo væri í raun ekki, yrði kraftaverkið að nýju náttúrulögmáli og væri þar af leiðandi ekki kraftaverk lengur. Heimildir
- Cyril Glassé, The Concise Encyclopædia of Islam, Stacey International, London, 1989.
- Adrian Hastings, Alistair Mason og Hugh Pyper (ritstj.), The Oxford Companion to Christian Thought, Oxford University Press, Oxford, 2000.
- An Enquiry Concerning Human Understanding.