Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala?

Ólafur Páll Jónsson

Hvort apar fengju mannréttindi við það að læra að tala veltur annars vegar á því hvaða skilning maður leggur í mannréttindahugtakið og hins vegar hvað í því felst að læra að tala. Lítum fyrst á seinna atriðið.

Þegar páfagaukar læra að tala þá læra þeir einungis að herma eftir því sem þeir heyra, en þeir læra ekki tungumálið. Þeir læra ekki merkingu einstakra orða, og þeir læra heldur ekki að búa til nýjar setningar úr þeim orðum sem þeir hafa þegar lært. Ef apar lærðu að tala á sama hátt og páfagaukar myndi siðferðileg afstaða okkar til þeirra ekki breytast mikið. Apar yrðu þó líklega vinsælli gæludýr og sýningagripir í fjölleikahúsum og dýragörðum, en slík meðferð lætur í ljósi skýra hugmynd um að þær skepnur sem í hlut eiga hafi ekki réttindi sambærileg við mannréttindi. Það er farið með þessar skepnur sem hluti – sýningarhluti – en ekki sem verur sem hafa sjálfstætt gildi.

En hvað ef apar gætu lært tungumál á svipaðan hátt og fólk lærir tungumál? Þá horfði málið öðruvísi við, enda fylgir slíkum hæfileika margt fleira en einber geta til að gefa frá sér hljóð sem hljóma eins og setningar í mannlegu máli. Með fullburða tökum á tungumáli gætu apar hugsað mun flóknari hugsanir en þeir geta án tungumálsins. Þeir gætu ef til vill öðlast skilning á almennum siðalögmálum og greinarmuni rétts og rangs, og því talist siðferðisverur í svipuðum skilningi og manneskjur.

En fengju apar réttindi sambærileg við mannréttindi ef þeir hefðu fullburða tök á tungumáli? Eins og kemur fram í svari við spurningunni Hvað eru mannréttindi? er lagður þrennskonar skilningur í mannréttindahugtakið, lagalegur, pólitískur og siðferðilegur skilningur.

Samkvæmt lagalega skilningnum eru mannréttindi þau réttindi sem skilgreind eru í réttindaskrám og alþjóðasamþykktum. Samkvæmt þessum skilningi á mannréttindum þyrfti meira að koma til en það eitt að apar fengju mál til þess að þeir fengju mannréttindi þar sem þessar réttindaskrár segja ekkert um apa, hvort heldur þeir hafa mál eða ekki. Hins vegar mætti vel hugsa sér að ef apar fengju mál, þá myndi fólk breyta þessum réttindaskrám.

Samkvæmt pólitískum skilningi á mannréttindum eru mannréttindi þau réttindi sem talið er æskilegt að tryggja fólki. Þá getum við spurt: Yrði talið æskilegt að tryggja öpum réttindi svipuðum þeim sem við köllum mannréttindi – til dæmis málfrelsi – ef þeir hefðu mál? Ein megin rökin fyrir málfrelsi eru þau að fólk viti best sjálft hvað á því brennur og því sé fólkið sjálft bestu talsmenn eigin hagsmuna. Það eru að sama skapi algeng rök harðstjórna gegn málfrelsi að yfirvöld viti betur hvað fólki sé fyrir bestu en það sjálft. Ef apar hefðu fullburða tungumál mætti ef til vill ætla að þeir gætu varið hagsmuni sína sjálfir, og þá kannski líka að engir væru betur til þess fallnir að verja hagsmuni þeirra. Þar með væri æskilegt, að minnsta kosti frá þeirra sjónarhóli, að tryggja þeim málfrelsi.

En hvað með hinn siðferðilega skilning á mannréttindum? Flestir eru líkast til sammála um að dýr eins og apar hafi siðferðilegt gildi. Það ber til dæmis vott um grimmt og guðlaust hjarta að valda þeim óþarfa kvölum. Aftur á móti finnst fæstum neitt athugavert við það að hafa apa til sýnis í dýragörðum þar sem ferðafrelsi þeirra er mjög takmarkað svo fremi að vel sé búið að þeim að öðru leyti. Skyldi þessi afstaða okkar breytast ef apar fengju mál? Aftur veltur það á því hvað í því fælist fyrir apana að hafa mál. Ef málinu fylgdi ekki annað en hæfileiki til að segja hver öðrum hvenær væri matmálstími, hvenær það væri fyndinn ferðamaður við búrið og þar fram eftir götunum, þyrfti málhæfileikinn ekki að breyta neinu um það hvort rétt eða rangt væri að loka þá inni í búri. Slíkt mál þyrfti ekki að breyta neinu um það hvort þeir upplifðu dýragarðsvistina sem frelsissviptingu af þeirri einföldu ástæðu að þeir hefðu mjög takmarkaðan skilning á því hvað það er að vera frjáls. En svo gætum við ímyndað okkur að með málinu fengju apar nýjan sjálfskilning, kannski myndu þeir líta á sig sem frjálsar verur, eða að minnsta kosti verur sem hefðu hæfileika til að vera frjálsar og taka sjálfstæðar ákvarðanir, og þá horfir málið allt öðruvísi við. Þá gæti dýragarðsvistin orðið þeim óbærileg hversu góður sem aðbúnaðurinn annars væri.

En jafnvel þótt apar hefðu mál, og jafnvel þótt öll rök hnigu að því að þeir skyldu hafa réttindi sambærileg við þau sem við köllum mannréttindi, þá væri auðvitað ekki þar með sagt að þeir nytu þessara réttinda. Blóðug sagan og samtíðin sýna svo glögglega að jafnvel sjálfsögð réttindi koma ekki af sjálfu sér.

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

2.7.2002

Spyrjandi

Gestur Páll Reynisson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2002, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2552.

Ólafur Páll Jónsson. (2002, 2. júlí). Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2552

Ólafur Páll Jónsson. „Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2002. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2552>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala?
Hvort apar fengju mannréttindi við það að læra að tala veltur annars vegar á því hvaða skilning maður leggur í mannréttindahugtakið og hins vegar hvað í því felst að læra að tala. Lítum fyrst á seinna atriðið.

Þegar páfagaukar læra að tala þá læra þeir einungis að herma eftir því sem þeir heyra, en þeir læra ekki tungumálið. Þeir læra ekki merkingu einstakra orða, og þeir læra heldur ekki að búa til nýjar setningar úr þeim orðum sem þeir hafa þegar lært. Ef apar lærðu að tala á sama hátt og páfagaukar myndi siðferðileg afstaða okkar til þeirra ekki breytast mikið. Apar yrðu þó líklega vinsælli gæludýr og sýningagripir í fjölleikahúsum og dýragörðum, en slík meðferð lætur í ljósi skýra hugmynd um að þær skepnur sem í hlut eiga hafi ekki réttindi sambærileg við mannréttindi. Það er farið með þessar skepnur sem hluti – sýningarhluti – en ekki sem verur sem hafa sjálfstætt gildi.

En hvað ef apar gætu lært tungumál á svipaðan hátt og fólk lærir tungumál? Þá horfði málið öðruvísi við, enda fylgir slíkum hæfileika margt fleira en einber geta til að gefa frá sér hljóð sem hljóma eins og setningar í mannlegu máli. Með fullburða tökum á tungumáli gætu apar hugsað mun flóknari hugsanir en þeir geta án tungumálsins. Þeir gætu ef til vill öðlast skilning á almennum siðalögmálum og greinarmuni rétts og rangs, og því talist siðferðisverur í svipuðum skilningi og manneskjur.

En fengju apar réttindi sambærileg við mannréttindi ef þeir hefðu fullburða tök á tungumáli? Eins og kemur fram í svari við spurningunni Hvað eru mannréttindi? er lagður þrennskonar skilningur í mannréttindahugtakið, lagalegur, pólitískur og siðferðilegur skilningur.

Samkvæmt lagalega skilningnum eru mannréttindi þau réttindi sem skilgreind eru í réttindaskrám og alþjóðasamþykktum. Samkvæmt þessum skilningi á mannréttindum þyrfti meira að koma til en það eitt að apar fengju mál til þess að þeir fengju mannréttindi þar sem þessar réttindaskrár segja ekkert um apa, hvort heldur þeir hafa mál eða ekki. Hins vegar mætti vel hugsa sér að ef apar fengju mál, þá myndi fólk breyta þessum réttindaskrám.

Samkvæmt pólitískum skilningi á mannréttindum eru mannréttindi þau réttindi sem talið er æskilegt að tryggja fólki. Þá getum við spurt: Yrði talið æskilegt að tryggja öpum réttindi svipuðum þeim sem við köllum mannréttindi – til dæmis málfrelsi – ef þeir hefðu mál? Ein megin rökin fyrir málfrelsi eru þau að fólk viti best sjálft hvað á því brennur og því sé fólkið sjálft bestu talsmenn eigin hagsmuna. Það eru að sama skapi algeng rök harðstjórna gegn málfrelsi að yfirvöld viti betur hvað fólki sé fyrir bestu en það sjálft. Ef apar hefðu fullburða tungumál mætti ef til vill ætla að þeir gætu varið hagsmuni sína sjálfir, og þá kannski líka að engir væru betur til þess fallnir að verja hagsmuni þeirra. Þar með væri æskilegt, að minnsta kosti frá þeirra sjónarhóli, að tryggja þeim málfrelsi.

En hvað með hinn siðferðilega skilning á mannréttindum? Flestir eru líkast til sammála um að dýr eins og apar hafi siðferðilegt gildi. Það ber til dæmis vott um grimmt og guðlaust hjarta að valda þeim óþarfa kvölum. Aftur á móti finnst fæstum neitt athugavert við það að hafa apa til sýnis í dýragörðum þar sem ferðafrelsi þeirra er mjög takmarkað svo fremi að vel sé búið að þeim að öðru leyti. Skyldi þessi afstaða okkar breytast ef apar fengju mál? Aftur veltur það á því hvað í því fælist fyrir apana að hafa mál. Ef málinu fylgdi ekki annað en hæfileiki til að segja hver öðrum hvenær væri matmálstími, hvenær það væri fyndinn ferðamaður við búrið og þar fram eftir götunum, þyrfti málhæfileikinn ekki að breyta neinu um það hvort rétt eða rangt væri að loka þá inni í búri. Slíkt mál þyrfti ekki að breyta neinu um það hvort þeir upplifðu dýragarðsvistina sem frelsissviptingu af þeirri einföldu ástæðu að þeir hefðu mjög takmarkaðan skilning á því hvað það er að vera frjáls. En svo gætum við ímyndað okkur að með málinu fengju apar nýjan sjálfskilning, kannski myndu þeir líta á sig sem frjálsar verur, eða að minnsta kosti verur sem hefðu hæfileika til að vera frjálsar og taka sjálfstæðar ákvarðanir, og þá horfir málið allt öðruvísi við. Þá gæti dýragarðsvistin orðið þeim óbærileg hversu góður sem aðbúnaðurinn annars væri.

En jafnvel þótt apar hefðu mál, og jafnvel þótt öll rök hnigu að því að þeir skyldu hafa réttindi sambærileg við þau sem við köllum mannréttindi, þá væri auðvitað ekki þar með sagt að þeir nytu þessara réttinda. Blóðug sagan og samtíðin sýna svo glögglega að jafnvel sjálfsögð réttindi koma ekki af sjálfu sér.

...