Á ensku er talað um að flaggað sé í half mast eða í hálft mastur þegar fáni er dreginn í hálfa stöng. Þarna er vísað í upphaf hefðarinnar þegar segl voru felld í hálft mastur á skipum til þess að gefa til kynna að sorg ríkti um borð á skipinu til dæmis eftir sjóorrustu eða andlát skipstjóra. Sennilega kemur þessi hefð að flagga í hálfa stöng á sorgarstundum frá skipunum þó erfitt sé að segja til um það hvenær þessi siður færðist frá sjó til lands. Til þess að geta flaggað í hálfa stöng þarf fánastöngin að vera býsna löng. Fram undir miðaldir voru fánar yfirleitt á prikum sem fólk hélt á eða festir í hólka á þökum eða veggjum. Fánarnir voru einnig þannig gerðir að erfitt var að losa þá og fella. Fyrstu frásagnir um fána í hálfri stöng má lesa í frásögnum um enska landkönnuðinn William Hall í bókinni British Flags eftir W.G.Perrin. Þar segir frá Hall þar sem hann heldur af stað í landkönnunarleiðangur árið 1612 til þess svæðis sem nú er Kanada. Ekki fór nú betur fyrir Hall en svo að hann var myrtur af Ínúítum í ferðinni en þegar skip hans snéri aftur til Englands var fáni felldur í virðingaskyni. Ekki er annað að skilja á Perrin en að fólkið í landi hafi skilið merkinguna sem í því fólst. Síðan þá hefur siðurinn breiðst út um heiminn. Heimildir Forsætisráðuneytið
Flags of the World
Myndin er á vefsetri Morgunblaðsins