Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Úlfar eru félagsverur og lifa venjulega í hópum. Kjarni hópsins er yfirleitt eitt par og afkvæmi þess. Afkvæmin staldra misjafnlega lengi við hjá foreldrum sínum. Sum fara að heiman á fyrsta vetri, önnur á öðrum vetri eða seinna, en úlfar verða kynþroska á öðrum vetri. Því eru yfirleitt nokkur fullvaxin afkvæmi með foreldrunum og aðstoða við uppeldi yngri systkina. Sum afkvæmi halda sig með foreldrunum í mörg ár og þá geta hóparnir orðið afar stórir. Þó er mjög sjaldgæft að 20 úlfar eða fleiri séu saman í hópi og algengast er að þeir séu færri en átta. Meðalfjöldi ylfinga í hverju goti er um það bil sex, og því eru úlfahópar að vetrarlagi oftast parið, ylfingar á fyrsta vetri og fáein eldri afkvæmi parsins.
Úlfar veiða gjarnan í hópum. Hjartardýr, til dæmis hreindýr og elgir, eru aðalfæða þeirra á norðurslóðum. Úlfar stunda veiðar fyrst og fremst á nóttunni og nota mest þefskyn til að finna bráðina. Þeir veiða þegjandi en þegar bráðin er fallin er algengt að þeir taki að spangóla. Þar sem oft kemur fyrir að úlfarnir verði viðskila hver við annan í hita eltingarleiks við bráð, virðist þetta vera aðferð til þess að kalla hópinn saman.
Úlfar spangóla á öllum tímum sólarhrings en þó gera þeir mest af því í ljósaskiptunum á kvöldin, um það bil sem þeir fara af stað í veiðiferð. Þeir spangóla á öllum tímum árs nema á vorin þegar þeir halda sig við greni með mjög ungum ylfingum.
Áður en lagt er í veiðiferð er algengt að úlfarnir spangóli um stund. Sá úlfurinn sem er æstastur í að fara af stað fer á milli annarra úlfa í hópnum, sem eru að vakna eftir góðan eftirmiðdagsblund, sleikir á þeim trýnið og vælir lítils háttar. Smám saman hækkar hann róminn og þar kemur að hann lyftir trýni til himins og tekur að spangóla. Áður en langt um líður taka hinir úlfarnir undir. Í kjölfarið fylgja mikil félagsleg samskipti, úlfarnir "heilsast", yngri og lægra settir úlfar sýni hinum undirgefni og svo framvegis. Loks fer öll hersingin af stað.
Hlutverk spangóls er sennilega margþætt. Það er félagslegt atferli og virðist auka samstöðu í hópnum, það gefur upplýsingar um staðsetningu þess eða þeirra sem spangóla, hverjir þar séu á ferð, hve margir og vafalaust fleira. Úlfar bregðast við spangóli úlfs í sama hópi með því að nálgast hann og taka undir spangólið. Þeir bregðast við spangóli nágrannahópa með því að spangóla á móti, þannig að það hefur sennilega líka eitthvað með varnir heimasvæðis að gera.
Af ofangreindu má vera ljóst að spangól er mikilvægur þáttur í lífi úlfa en það hefur ekkert með tunglið að gera. Ef til vill hefur sú þjóðtrú að úlfar góli mót tungli komist á kreik vegna þess að á köldum, kyrrum kvöldum þegar tunglskin er, berst spangólið mun víðar en við annars konar veðurskilyrði.
Páll Hersteinsson (1951-2011). „Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=254.
Páll Hersteinsson (1951-2011). (2000, 19. mars). Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=254
Páll Hersteinsson (1951-2011). „Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=254>.