Ein þekktasta vestræna sögnin um drekabardaga er miðaldasagan um heilagan Georg. Hana er meðal annars að finna í Hinum gullnu sögnum sem Jakob frá Voragine (um 1230 – um 1298) tók saman. Sagan segir frá því að eitt sinn í fjarlægu heiðnu landi hafi verið hræðilega ófreskja sem kölluð var dreki. Drekinn hafði risastóra vængi, hræðilegar klær og blés frá sér banvænum eldi. Árlega var ungri stúlku fórnað til drekans. Eitt árið kom það í hlut dóttur konungs. Riddarinn sem síðar varð heilagur Georg bjargaði henni og vann bug á drekanum með sverði sínu. Í kjölfarið snerust íbúar landsins til kristinnar trúar og tóku skírn. Allt útlit er fyrir að trúin á dreka hafi sprottið upp hjá mönnum án þess að þeir hefðu vitneskju um risaeðlurnar sem ríktu á jörðinni áður en maðurinn kom til sögunnar. Hins vegar gætu stór skriðdýr sem hafa verið uppi á sama tíma og frumstæðustu hellisbúarnir auðveldlega verið kveikjan að sögnum um ófreskjur á borð við dreka og minningar um þær varðveist kynslóð fram af kynslóð.
Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum
- Af hverju hafa risaeðlur verið til lengur en mannfólk og af hverju eru ekki ennþá til risaeðlur? (Þorsteinn Vilhjálmsson)
- Eru þjóðsögur byggðar á sönnum atburðum? (Rakel Pálsdóttir)
Mynd af dreka yfir kastala: The Art of Ciruelo Mynd af Georg og drekanum: CGFA - A Virtual Art Museum