Andmæli gegn hugmyndinni eru mörg. Sum þeirra eru byggð á misskilningi á borð við þann að sá einræktaði verði alveg eins og sá sem átti líkamsfrumuna. Það verður hann ekki, meðal annars vegna þess að hann yrði úr annarri eggfrumu. Erfðaefni er ekki bara í kjarna eggsins heldur eru líka svokölluð hvatberagen í umfryminu. Vegna þessa yrði erfðamengi þess einræktaða örlítið öðruvísi en þess sem átti líkamsfrumuna. Auk þess myndu þeir mótast á mismunandi hátt á meðgöngunni ef það er ekki sama kona sem gengur með báða. Önnur andmæli eru byggð á getgátum og framtíðarspám sem eru til að mynda tengdar sálarlífi þess einræktaða og áhrifum á erfðafræðilegan fjölbreytileika mannlífs í framtíðinni. Eitt er þó ljóst, að megingallinn er lágt árangurshlutfall (1-3%) úr dýratilraunum. Líkur á mistökum í formi vanskapnaðar og dauða einhvers staðar í ferlinu eru miklar og slíkur fórnarkostnaður er siðferðilega óviðunandi þegar verið er að fást við manneskjur. En það er líka mögulegt að nota einræktun í læknisfræðilegum tilgangi. Hugmyndin er sú að einrækta fósturvísi úr líkamsfrumu einstaklings sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi. Á fyrstu sólarhringunum eru frumur fósturvísis ósérhæfðar og geta tekið að sér hvaða hlutverk sem er í líkamanum, svokallaðar stofnfrumur. Þeim er síðan komið fyrir í skemmdum vef eða líffæri sjúklings þar sem þær taka að sér endurnýjunarhlutverk. Ástæða þess að æskilegt þykir að nota einræktaðar stofnfrumur úr sjúklingi sjálfum er að þær valda þá ekki höfnunareinkennum hjá honum eins og gæti gerst væri fósturvísirinn kynæxlaður. En með þessu skapast stórt siðferðilegt álitamál því hér er verið að mynda nýtt líf í öðrum tilgangi en sjálfs þess vegna. Þarna er hugmyndin að búa til fósturvísi til að lækna "eiganda" hans og deyða hann síðan. Margir telja þetta siðferðilega rangt en aðrir telja ávinninginn vega þyngra en fórnina í þessu tilliti.
Mynd: Úr kvikmyndinni Alien Resurrection