Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Framhaldsmenntun heyrnarlausra hefur aukist verulega síðan táknmál varð sýnilegra hér á Íslandi sumarið 1986. Það sumar var menningarhátíð fyrir heyrnarlausa á Norðurlöndunum haldin hér á Íslandi. Leikrit á táknmáli var flutt í Þjóðleikhúsinu og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, talaði táknmál fyrir fullum sal af fólki. Allir voru hrifnir og sýndu áhuga. Á hátíðinni túlkuðu menntaðir túlkar frá hinum Norðurlöndunum en frá Íslandi voru túlkar sem ekki höfðu formlega menntun í táknmálstúlkun. Vegna þess að táknmál er ekki alþjóðlegt þurftum við að finna góða heyrandi táknmálstalandi til að túlka eftir megni. Flestir þeirra voru heyrnleysingjakennarar, systkin heyrnarlausra eða foreldrar heyrnarlausra barna.
Þessi menningarhátíð braut blað í sögu heyrnarlausra á Íslandi því að opinberir atburðir voru þá túlkaðir á táknmál í fyrsta skipti. Haustið 1986 notuðu heyrnarlausir einstaklingar táknmálstúlkun í fyrsta sinn í framhaldsnámi í Þroskaþjálfaskóla Íslands og Iðnskólanum. Heyrnarlausir nemendur gátu þá fylgst með í skóla eins og heyrandi nemendur.
Fyrsti hópur menntaðra táknmálstúlka útskrifaðist frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 1997 eftir þrigja og hálfs árs nám. Hlutverk táknmálstúlka er að túlka á hlutlausan hátt, það er að þýða yfir á táknmál það sem sagt er á íslensku eða að þýða yfir á íslensku af táknmáli. Hlutverk þeirra er að vera rödd heyrnarlausra, en ekki að hjálpa þeim. Nú er staðan sú að táknmálstalandi fólk getur pantað táknmálstúlk í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir allskonar námskeið, skólastarf, fundi og kirkjulegar athafnir eins og jarðarfarir, skírnir eða brúðkaup og margt fleira.
Fyrir árið 1986 voru ekki til Íslenskir táknmálstúlkar svo að flestir táknmálstalandi lærðu með aðstoð heyrnleysingjakennara í Heyrnleysingjaskólanum. Hlutverk þeirra var þá að aðstoða nemendur við að skrifa glósur, útskýra aðalatriði í því sem kennarinn segir og benda á í bókinni það sem kennarinn er að tala um. Heyrnleysingjakennararnir báru þá ábyrgð á að hjálpa nemendum með námið.
Samskipti nemendanna við kennarana fór fram annað hvort á talaðri íslensku eða táknaðri íslensku þar sem íslensku og táknmáli er blandað saman en bæði málin einfölduð umtalsvert. Með þessari samskiptaleið verða samskiptin einfölduð og yfirborðsleg enda fara þau ekki fram á íslensku táknmáli sem heyrnarlausir skilja án vandkvæða heldur á samblandi tveggja mjög ólíkra mála, íslensku táknmáli og íslensku. Íslenskt táknmál er sjálfstætt og fullgilt mál og mjög ólíkt íslensku.
Táknmál var bannað í um það bil 100 ár en þennan tíma kalla heyrnarlausir einangrunartímabilið. Þessi ákvörðun var tekin í Mílanó árið 1880 á ráðstefnu heyrnleysingjakennara víðs vegar að úr heiminum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að samþykkja að beita svokallaðri óral-stefnu eða raddmálsaðferð við menntun heyrnarlausra. Óral-stefnan felst í því að heyrnarlausir og heyrnarskertir læra að lesa af vörum og læra að tala með hjálp kennara án þess að nota táknmál.
Þessi stefna breiddist út um allan heim og heyrnarlausir kennarar voru reknir frá skólunum. Verulega dró úr menntun heyrnarlausra, störf þeirra urðu einfaldari og samfélag heyrnarlausa einangraðist frá heyrandi heimi. Heyrnarlausir voru í felum til þess að geta talað saman á því máli sem var þeim eðlilegast, táknmálinu. Þetta ástand varði í 100 ár.
Árið 1960 uppgötvaði bandaríski málvísindamaðurinn William Stokoe að táknmál eru mál eins og hver önnur mál. Þessi vitneskja breiddist út um allan heim og þeir málvísindamenn sem hafa fjallað um táknmál sjá að táknmál eru fullkomin og flókin mál. Heyrnarlausir brutust smám saman gegnum múrinn eftir að uppalendur og skólar tóku að viðurkenna mál þeirra. Á Norðurlöndunum var táknmál viðurkennt á tímabilinu 1975-1980 en verður sýnilegt á Íslandi um 1986 eins og áður segir.
Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn ... en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum, vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.
Terje Basilier
Júlía G. Hreinsdóttir. „Hvernig hefur táknmálsmenntun heyrnarlausra verið háttað?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2002, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2249.
Júlía G. Hreinsdóttir. (2002, 30. mars). Hvernig hefur táknmálsmenntun heyrnarlausra verið háttað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2249
Júlía G. Hreinsdóttir. „Hvernig hefur táknmálsmenntun heyrnarlausra verið háttað?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2002. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2249>.