Sólin Sólin Rís 11:16 • sest 15:49 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:51 • Sest 21:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:36 • Síðdegis: 21:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:20 • Síðdegis: 15:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:16 • sest 15:49 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:51 • Sest 21:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:36 • Síðdegis: 21:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:20 • Síðdegis: 15:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi?

Valgerður G. Johnsen

Kartöflur eru upprunnar í Suður-Ameríku. Þær bárust til Evrópu um miðja 16. öld en kartöflurækt fór hægt af stað í Evrópu. Í þeim efnum voru Norðurlandabúar engin undantekning. Garðyrkja átti ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum sem byggðu afkomu sína á bústofni. Einhverjir kálgarðar voru í rækt á Íslandi á 17. öld en ekkert var ræktað að ráði fyrr en eftir miðja 18. öld.

Elsta heimildin fyrir áhuga Íslendings á kartöflurækt er komin frá Gísla Magnússyni, Vísa-Gísla, sem var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Hann var frumkvöðull á sviði garðræktunar á Íslandi á 17. öld og fyrstur manna á Íslandi til að rækta ýmsar tegundir mat- og nytjajurta.

Áhuga Vísa-Gísla á garðyrkju og kartöflurækt má áreiðanlega rekja til námsára hans erlendis. Vísi-Gísli gerði víðreist á yngri árum. Hann var við nám í Hollandi frá 1643 til 1646. Einnig dvaldist hann um skeið í Englandi árið 1644 og hafði viðkomu í Kaupmannahöfn um sama leyti.

Gísli hefur að öllum líkindum komist í kynni við nytsemi garðyrkju á erlendri grund. Hollendingar stóðu mjög framarlega í matjurtarækt á þessu tímabili, einnig Englendingar og Danir. Vísi-Gísli hafði því tækifæri til að kynnast ræktunaraðferðum þessara þjóða og gera má ráð fyrir að hann hafi bragðað á ýmsum nýstárlegum matjurtategundum, svo sem kartöflum, á ferðalagi sínu.



Að námi loknu bjó Vísi-Gísli á hinum fornfræga stað Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þar stundaði hann embættisstörf sín jafnframt náttúrurannsóknum og ræktunartilraunum fram á gamals aldur. Í september árið 1670 óskaði Gísli eftir því í bréfi til Björns sonar síns, sem þá var við nám í Danmörku, að hann sendi sér enskar kartöflur. Ekki fylgir sögunni hvort Björn varð við beiðninni en líkurnar á því eru hverfandi. Danir hófu ekki að rækta kartöflur fyrr en á 18. öld og Björn hefur þess vegna átt í erfiðleikum með að komast yfir útsæði.

Það var ekki fyrr en um 90 árum síðar að farið var að rækta kartöflur á Íslandi. Árið 1754 sendi Friðrik V boð til Íslands um að bændur ættu að láta sér annt um að útbúa kálgarða þar sem matjurtir gætu þrifist. Sýslumenn voru beðnir um að fylgja boði konungs eftir. Erfiðlega gekk þó að fá Íslendinga til ræktunarstarfa og konungur ítrekaði því bónina ári síðar og hafði greinilega mikinn áhuga á að efla matjurtarækt meðal þegna sinna á Íslandi. Áhugi konungs var ekki að ástæðulausu. Að meðaltali var fimmta hvert ár á Íslandi á 17. öld hungurfellisár og fjórða hvert á þeirri 18., en dreifingin var þó að sjálfsögðu misjöfn. Kartöflurækt hefði því komið sér vel fyrir hungraða Íslendinga.

Árið 1758 uppskar Hastfer barón á Bessastöðum fyrstu „íslensku“ kartöflurnar. Tveimur árum síðar ræktaði séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal í Barðastrandasýslu fyrstur Íslendinga jarðepli, eins og kartöflur nefndust þá. Í hvatningarskyni fékk Björn verðlaunapening frá konungi fyrir framtakið. Björn varð, líkt og forveri hans Vísi-Gísli, fyrirmynd Íslendinga á sviði matjurtaræktar á sinni tíð.

Þrátt fyrir boð yfirvalda var það ekki fyrr en í upphafi 19. aldar að garðyrkja, og þar með talin kartöflurækt, varð almenn í landinu. Íslenskum bændum var illa við að stinga upp tún sín til að rýma fyrir matjurtagörðum. Á dögum Napóleonstyrjalda varð breyting á þessu viðhorfi. Þá komu fá kaupskip til Íslands og innflutningur dróst saman. Íslendingar voru enn á ný hvattir til þess að færa sér matjurtaræktina í nyt.

Á tíu ára tímabili, frá árinu 1801 til 1810, fjölgaði matjurtagörðum í landinu úr 270 í 1.194. Árið 1813 voru garðarnir orðnir 1.659 og árið 1817 voru þeir 3.466 talsins. Görðunum fór fjölgandi alla 19. öldina. Helsta hvatning íbúa landsins var án efa skorturinn sem fylgdi í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Þá þurftu Íslendingar að nýta sér öll tiltæk ráð til þess að komast lífs af.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir
  • Eggert Ólafsson, Ferðabók, I. og II. bindi, (Reykjavík, 1943).
  • Gyða Thorlacius, Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-15, útg. Sigurjón Jónsson, (Reykjavík, 1947).
  • Hagskinna: Sögulegar hagtölur um Ísland, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, Hagstofa Íslands, (Reykjavík, 1997).
  • Jakob Benediktsson, „Gísli Magnússon (Vísi-Gísli)“, Merkir Íslendingar, V. bindi, (Reykjavík, 1966), bls. 29–74.
  • Lovsamling for Island, VI-VIII, (Kaupmannahöfn, 1856-1858).
  • Nanna Rögnvaldsdóttir, Matarást: Alfræðibók um mat og matargerð, (Reykjavík, 1998).
  • Páll Eggert Ólason og Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga, VI. bindi, (Reykjavík, 1943).
  • Sigurjón Jónsson, Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi, (Reykjavík, 1944).

Mynd:

Höfundur

sagnfræðingur

Útgáfudagur

20.3.2002

Spyrjandi

Jón Sæmundsson

Tilvísun

Valgerður G. Johnsen. „Hvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2002, sótt 3. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=2216.

Valgerður G. Johnsen. (2002, 20. mars). Hvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2216

Valgerður G. Johnsen. „Hvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2002. Vefsíða. 3. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2216>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi?
Kartöflur eru upprunnar í Suður-Ameríku. Þær bárust til Evrópu um miðja 16. öld en kartöflurækt fór hægt af stað í Evrópu. Í þeim efnum voru Norðurlandabúar engin undantekning. Garðyrkja átti ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum sem byggðu afkomu sína á bústofni. Einhverjir kálgarðar voru í rækt á Íslandi á 17. öld en ekkert var ræktað að ráði fyrr en eftir miðja 18. öld.

Elsta heimildin fyrir áhuga Íslendings á kartöflurækt er komin frá Gísla Magnússyni, Vísa-Gísla, sem var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Hann var frumkvöðull á sviði garðræktunar á Íslandi á 17. öld og fyrstur manna á Íslandi til að rækta ýmsar tegundir mat- og nytjajurta.

Áhuga Vísa-Gísla á garðyrkju og kartöflurækt má áreiðanlega rekja til námsára hans erlendis. Vísi-Gísli gerði víðreist á yngri árum. Hann var við nám í Hollandi frá 1643 til 1646. Einnig dvaldist hann um skeið í Englandi árið 1644 og hafði viðkomu í Kaupmannahöfn um sama leyti.

Gísli hefur að öllum líkindum komist í kynni við nytsemi garðyrkju á erlendri grund. Hollendingar stóðu mjög framarlega í matjurtarækt á þessu tímabili, einnig Englendingar og Danir. Vísi-Gísli hafði því tækifæri til að kynnast ræktunaraðferðum þessara þjóða og gera má ráð fyrir að hann hafi bragðað á ýmsum nýstárlegum matjurtategundum, svo sem kartöflum, á ferðalagi sínu.



Að námi loknu bjó Vísi-Gísli á hinum fornfræga stað Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þar stundaði hann embættisstörf sín jafnframt náttúrurannsóknum og ræktunartilraunum fram á gamals aldur. Í september árið 1670 óskaði Gísli eftir því í bréfi til Björns sonar síns, sem þá var við nám í Danmörku, að hann sendi sér enskar kartöflur. Ekki fylgir sögunni hvort Björn varð við beiðninni en líkurnar á því eru hverfandi. Danir hófu ekki að rækta kartöflur fyrr en á 18. öld og Björn hefur þess vegna átt í erfiðleikum með að komast yfir útsæði.

Það var ekki fyrr en um 90 árum síðar að farið var að rækta kartöflur á Íslandi. Árið 1754 sendi Friðrik V boð til Íslands um að bændur ættu að láta sér annt um að útbúa kálgarða þar sem matjurtir gætu þrifist. Sýslumenn voru beðnir um að fylgja boði konungs eftir. Erfiðlega gekk þó að fá Íslendinga til ræktunarstarfa og konungur ítrekaði því bónina ári síðar og hafði greinilega mikinn áhuga á að efla matjurtarækt meðal þegna sinna á Íslandi. Áhugi konungs var ekki að ástæðulausu. Að meðaltali var fimmta hvert ár á Íslandi á 17. öld hungurfellisár og fjórða hvert á þeirri 18., en dreifingin var þó að sjálfsögðu misjöfn. Kartöflurækt hefði því komið sér vel fyrir hungraða Íslendinga.

Árið 1758 uppskar Hastfer barón á Bessastöðum fyrstu „íslensku“ kartöflurnar. Tveimur árum síðar ræktaði séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal í Barðastrandasýslu fyrstur Íslendinga jarðepli, eins og kartöflur nefndust þá. Í hvatningarskyni fékk Björn verðlaunapening frá konungi fyrir framtakið. Björn varð, líkt og forveri hans Vísi-Gísli, fyrirmynd Íslendinga á sviði matjurtaræktar á sinni tíð.

Þrátt fyrir boð yfirvalda var það ekki fyrr en í upphafi 19. aldar að garðyrkja, og þar með talin kartöflurækt, varð almenn í landinu. Íslenskum bændum var illa við að stinga upp tún sín til að rýma fyrir matjurtagörðum. Á dögum Napóleonstyrjalda varð breyting á þessu viðhorfi. Þá komu fá kaupskip til Íslands og innflutningur dróst saman. Íslendingar voru enn á ný hvattir til þess að færa sér matjurtaræktina í nyt.

Á tíu ára tímabili, frá árinu 1801 til 1810, fjölgaði matjurtagörðum í landinu úr 270 í 1.194. Árið 1813 voru garðarnir orðnir 1.659 og árið 1817 voru þeir 3.466 talsins. Görðunum fór fjölgandi alla 19. öldina. Helsta hvatning íbúa landsins var án efa skorturinn sem fylgdi í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Þá þurftu Íslendingar að nýta sér öll tiltæk ráð til þess að komast lífs af.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir
  • Eggert Ólafsson, Ferðabók, I. og II. bindi, (Reykjavík, 1943).
  • Gyða Thorlacius, Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-15, útg. Sigurjón Jónsson, (Reykjavík, 1947).
  • Hagskinna: Sögulegar hagtölur um Ísland, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, Hagstofa Íslands, (Reykjavík, 1997).
  • Jakob Benediktsson, „Gísli Magnússon (Vísi-Gísli)“, Merkir Íslendingar, V. bindi, (Reykjavík, 1966), bls. 29–74.
  • Lovsamling for Island, VI-VIII, (Kaupmannahöfn, 1856-1858).
  • Nanna Rögnvaldsdóttir, Matarást: Alfræðibók um mat og matargerð, (Reykjavík, 1998).
  • Páll Eggert Ólason og Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga, VI. bindi, (Reykjavík, 1943).
  • Sigurjón Jónsson, Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi, (Reykjavík, 1944).

Mynd:...