Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er í sem skemmstu máli: „Já!“ Uppeldi hefur talsverð áhrif á framtíð barna, bæði til góðs og ills. Þegar umönnun og uppeldisskilyrði barns eru góð er þörfum þess sinnt fljótt og vel, tilfinningalegum, líkamlegum, hugrænum og félagslegum. Langtímarannsóknir á umönnun barna hafa sýnt að næmni foreldris á þarfir barns og hversu fljótt foreldri er að sinna þessum þörfum eykur mjög líkur á því að traust tilfinningatengsl skapist milli barns og foreldris.
Börn umhyggjusamra foreldra telja sig þess verðug að vera vel sinnt og bera til foreldra sinna mikið traust sem þau yfirfæra svo á aðra síðar á lífsleiðinni. Slík börn fara einnig fljótt að skoða umhverfi sitt. Þau upplifa tilfinningalegt öryggi og sjálfstæði því þau vita að foreldrið er til staðar til þess að sinna því ef eitthvað ber út af. Jafnframt hafa langtímarannsóknir sýnt að börn sem eiga foreldra sem eru næmir á þarfir þess og sinna þeim bæði fljótt og vel, eru mun líklegri til að fara eftir reglum foreldranna þegar þeir sjá ekki til.
Börn sem ekki er sinnt fljótt og vel eru hins vegar líklegri til að þróa ótraust tilfinningatengsl við foreldra. Þeim hættir til að líta á sig sem óverðug og þau vantreysta foreldrum sínum. Slíkt vantraust yfirfæra þau síðan ef til vill á aðra á fullorðinsárunum.
Tilfinningaleg hlýja er mjög mikilvæg á öllum stigum uppeldisins, frá barnæsku til fullorðinsára. Hún þróast frá mikilli snertingu og hlýlegri líkamlegri umönnun þegar barnið er yngra til meiri andlegrar hlýju með tilfinningalegum stuðningi við barnið. Margháttuð færni barna þróast smám saman og því er mikilvægt fyrir foreldri að örva hana með því að eiga jákvæð og uppbyggjandi samskipti við barnið og veita því mikla leiðsögn en ekki síður með því að gefa því góð færi á að umgangast jafnaldra, til dæmis í skóla- og tómstundastarfi.
Þegar misbrestur verður á umönnun og uppeldi barns flokkast það ýmist undir ofbeldi eða vanrækslu. Mun algengara er að börn verði fyrir vanrækslu en ofbeldi. Þegar ofbeldi á sér stað, gerir foreldrið barninu eitthvað sem getur verið skaðlegt. Hins vegar þegar vanræksla á sér stað er það skortur á viðeigandi umönnun sem getur valdið skaðanum.
Vanræksla getur verið með ýmsu móti, almenn, líkamleg, sálræn eða andleg og ekki síst tilfinningaleg. Hafa ber í huga að það telst að öllu jöfnu ekki vanræksla þegar þörfum barns er ekki sinnt nægilega í einstök skipti. Barnauppeldi er afar krefjandi og því eðlilegt að foreldrum verði einhvern tímann á að sinna ekki barninu eða passa það ekki sem skyldi. Til dæmis hendir það flesta foreldra að missa í skamman tíma sjónar á barni sínu sem er nýfarið að ganga, eða að klæða barnið einhvern tíma í of hlý eða ekki nógu hlý föt miðað við veður. Það telst á hinn bóginn vanræksla þegar umönnun barns er ábótavant og slíkt endurtekur sig aftur og aftur.
Þegar foreldri hefur ekki viðeigandi umsjón eða eftirlit með barni sínu og verndar það ekki fyrir hættum telst það almenn vanræksla eða eftirlitsleysi. Þetta á til dæmis við ef barnið er ekki sett í barnabílstól eða sett á það öryggisbelti eftir því sem við á miðað við aldur, hættuleg efni eða lyf eru iðulega á glámbekk svo barnið kemst í þau, eða barnið er skilið eftir eitt eða í umsjón einhvers sem ekki getur risið undir ábyrgðinni (t.d. vegna áfengisneyslu eða æsku).
Aftur á móti væri það líkamleg vanræksla ef barnið fengi ekki fæði við hæfi eða nægilegt fæði miðað við þroska, hreinlæti þess væri alvarlega ábótavant (það væri til að mynda baðað svo sjaldan að það lyktaði), húsnæðisaðstæður væru óviðeigandi (hreinlætisaðstöðu vantaði eða eitthvað slíkt), klæðnaður þess ófullnægjandi eða skaðlegur (of gisinn jakki eða þröngir skór), eða að þörf þess fyrir almenna heilbrigðisþjónustu væri ekki sinnt.
Það telst sálræn eða andleg vanræksla ef barnið þarfnast tiltekinnar geðheilbrigðþjónustu eða ráðgjafar sem foreldrar reyna ekki að tryggja því en hins vegar tilfinningaleg vanræksla ef ekki er fullnægt þeim hjartans þörfum barnsins sem nauðsynlegt er til að það geti þroskast eðlilega, til dæmis ef foreldri á ekki samskipti við barnið á uppbyggilegan og nærandi hátt eða ef skortur er á eðlilegum tilfinningatengslum milli foreldris og barns.
Tilfinningaleg vanræksla getur meðal annars komið fram í því að foreldri sniðgengur barn sitt dags daglega. Til dæmis gæti foreldrið verið of upptekið af eigin vanlíðan eða vandamálum til að veita barninu athygli og hlusta þegar það vill segja frá einhverju. Það er með tilfinningalega vanrækslu eins og aðra að hún telst ekki eiginleg vanræksla nema um endurtekið mynstur sé að ræða. Mjög líklegt er að allir foreldrar lendi einhvern tíma í þeirri aðstöðu að geta ekki hlustað á barnið sitt á tiltekinni stundu, vegna þess að foreldrið er í símanum eða að horfa á fréttir, svo dæmi séu tekin. Slíkt flokkast ekki undir vanrækslu. Ef það er hins vegar orðið vani og hegðunarmynstur að foreldri veiti því ekki athygli sem barnið segir og svari því ekki, er um vanrækslu að ræða.
Ofbeldi getur líka verið margháttað, svo sem andlegt , líkamlegt eða kynferðislegt. Til dæmis myndu sífelldar skammir og svívirðingar teljast andlegt ofbeldi. Slíkt á sér stað, þegar foreldri gerir það af vana að móðga barn sitt, kalla það ónefnum, eða koma fram við það dags daglega á niðurlægjandi eða ómanneskjulegan hátt. Það væri dæmi um þetta að foreldri væri sí og æ að setja út á eiginleika barnsins, svo sem útlit þess eða skap, eða sífellt að finna að því sem barnið gerir. Allir foreldrar þurfa einhvern tíma að skamma börn sín og setja þeim mörk. Slíkt er nauðsynlegur þáttur í barnauppeldi, en mikilvægt er að það sé gert á þann hátt að það valdi barninu ekki skaða.
Afleiðingar ofbeldis og vanrækslu á börn geta verið margvíslegar. Þeim hefur verið skipt í tvo meginflokka, innhverf vandamál og úthverf vandamál. Dæmi um innhverf vandamál eru þunglyndi og kvíði, en dæmi um úthverf vandamál eru hegðunarvandamál. Algengara er að úthverf vandamál komi fram hjá drengjum en innhverf hjá stúlkum. Jafnframt er algengara að drengir fái aðstoð en stúlkur, þar sem vandamál þeirra eru sýnilegri en vandamál stúlkna.
Langtímaáhrif ofbeldis og vanrækslu geta komið fram á ýmsan máta, til dæmis í langvarandi þunglyndi eða kvíða, áfengis- og fíkniefnaneyslu og persónuleikatruflunum. Auk þess eru kynlífsvandamál afar algeng á fullorðinsárum hjá börnum sem hafa verið áreitt kynferðislega eða verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í barnæsku, líklegra til að vanrækja eða beita börn sín ofbeldi en aðrir foreldrar.
Bandarískar rannsóknir sýna að í um 30% tilfella endurtaka foreldrar ofbeldi eða vanrækslu á eigin börnum, þó það birtist ekki endilega í sömu mynd og þeirra eigin reynsla. Á hinn bóginn eru það um 5% foreldra sem hafa hlotið uppeldi án ofbeldis eða vanrækslu en vanrækja samt eigin börn eða beita þau ofbeldi . Á móti kemur að foreldrar sem hafa verið beittir ofbeldi eða orðið fyrir vanrækslu í æsku, eru ekki eins líklegir til að endurtaka það með eigin börn, ef þeir gagnrýna eigið uppeldi og eru ósáttir við gildi foreldra sinna, hafa verið í sálrænni meðferð, gengið vel í skóla, bæði í námi og félagslega, og hafa skipulagt líf sitt með tilliti til makavals og atvinnu.