Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mun fleiri tegundir beinfiska (Osteichthyes) en brjóskfiska (Chondrichithyes) eru þekktar í dag í ám, vötnum og heimshöfum jarðarinnar. Rúmlega 20.000 tegundum beinfiska hefur verið lýst en í kringum 800 tegundum brjóskfiska. Beinfiskar eru í raun langstærsti hópur hryggdýra, en næst koma fuglar með um 9.000 tegundir.
Talsverður munur er á mörgum þáttum í líffræði þessara tveggja hópa fiska, enda skildust þeir að þróunarlega fyrir hundruðum milljóna ára. Hér að neðan tel ég upp nokkra mikilvæga þætti sem eru ólíkir meðal hópanna.
Í fyrsta lagi samanstendur stoðgrind beinfiska að langmestu leyti úr beinvef. Stoðgrind brjóskfiska er hins vegar úr brjóski, þó að sumstaðar geti brjóskvefurinn kalkast og minnt mjög á bein. Hann er þó ekki upprunalega bein í þroskunarfræðilegum skilningi.
Í öðru lagi er hafa beinfiskar tálknlok sem þekja tálkngrindina. Þetta þekkist ekki meðal brjóskfiska.
Í þriðja lagi fer frjóvgun fram útvortis meðal beinfiska, með afar fáum undantekningum þó (meðal annars hjá karfanum). Raunin er önnur meðal brjóskfiska; þar verður frjóvgun eggfruma inni í kvið móðurinnar.
Í fjórða lagi hafa brjóskfiskar ekki sundmaga en hann er til staðar hjá beinfiskum með örfáum undantekningum, því það kemur fyrir að sundmaginn þróist úr tegundinni.
Í fimmta lagi er mikill munur á skinni þessara tveggja hópa. Brjóskfiskar, sérstaklega háfiskar, eru með skráp sem er mjög sérstök húðgerð. Hún er alsett litlum örðum sem eru úr tannglerungi. Hins vegar eru beinfiskar með skinn, eða roð eins og það nefnist á beinfiskum, sem alsett er litlum plötum sem nefnast hreistur. Hreistrið er svipað að vefjagerð og uppruna og neglur okkar mannfólksins.
Hér hefur aðeins verið imprað á nokkrum af helstu atriðunum sem ólík eru milli þessara meginhópa fiska. Það væri of langt mál að fjalla á tæmandi hátt um öll þau atriði sem eru ólík milli hópanna, bæði hvað snertir líffærafræðilega og lífeðlisfræðilega þætti, því fjöldi þeirra er umtalsverður.
Jón Már Halldórsson. „Hvort eru fleiri tegundir af fiskum með brjósk eða bein?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2044.
Jón Már Halldórsson. (2002, 15. janúar). Hvort eru fleiri tegundir af fiskum með brjósk eða bein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2044
Jón Már Halldórsson. „Hvort eru fleiri tegundir af fiskum með brjósk eða bein?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2044>.