Smellið hér til að heyra hljóðið í ísbirni.
Ísbjörninn, Ursus maritimus er að jafnaði stærri en náfrændi hans brúnbjörninn Ursus arctos. Nokkrar deilitegundir brúnbjarna geta þó orðið stærri og má þar helst nefna þær sem lifa á Kamtsjatka-skaganum í Síberíu og í Alaska. Að jafnaði er fullorðinn ísbjörn um 400 kg en til eru dæmi þar sem ísbirnir geta orðið um 900 kg. Þetta eru yfirleitt karldýr sem hafa fitað sig verulega að haustlagi fyrir komandi vetur. Eitt tilvik sker sig þó úr. Árið 1960 skaut bandarískur veiðimaður, Arthur Dubs að nafni, risavaxinn hvitabjörn við innsiglinguna í Kotzebue-sund í norðvesturhluta Alaska. Skepnan vó 1002 kg. Dýrið var stoppað upp og mældist það 338 cm á hæð. Það var meðal annars til sýnis á heimssýningunni í Seattle í Bandaríkjunum. Lesefni: Páll Hersteinsson, 1998. "Spendýr á norðurslóðum". Hjá Þorsteini Vilhjálmssyni (ritstj.), Undur veraldar. Reykjavík: Mál og menning. Bls. 89-106.
Mynd: Polar Bears Alive
Hljóð: Zoo society