Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sjónskekkja er ein af þremur megintegundum sjónlagsgalla, ásamt nærsýni og fjarsýni. Sjónlagsgalli er ástand þar sem viðkomandi þarf á hjálpartæki að halda, svo sem gleraugum eða snertilinsum, til að sjá skýrt. Nærsýni og fjarsýni orsakast oftast af lögun augans, hvort það er of stutt sem leiðir af sér fjarsýni eða of langt sem leiðir af sér nærsýni. Sjónskekkja kallast það hins vegar þegar lögun eða kúpa hornhimnunnar er ekki kúlulaga, líkt og fótbolti, heldur eins og amerískur fótbolti, miskúpt eftir því hvar er horft á hana. Ljósið sem kemur inn í augað frá tilteknum punkti kemur þá ekki saman í einum punkti á sjónhimnunni og sjónin verður óskýr svipað og hjá nærsýnu eða fjarsýnu fólki.
Hornhimna er nafnið á gegnsæi himnu sem liggur framan á auganu líkt og hvolfþakið á Perlunni. Þar sem eitt af meginhlutverkum hornhimnunnar er að brjóta ljós á leið þess inn í augað, valda allar skekkjur í byggingu hennar einnig skökku ljósbroti inni í auganu, og það er kallað sjónskekkja.
Sjónskekkja er metin í einingum sem nefnast díoptríur, líkt og aðrir sjónlagsgallar, en hefur þá sérstöðu að tilgreina þarf öxul hennar eða stefnu sem getur verið 0-180 gráður. Við getum þá líkt lögun hornhimnunnar við fjall eins og Heklu sem er breið og með ávalan topp þegar við horfum á hana frá norðvestri eða suðaustri, en er líkari keilu og með krappan topp þegar við horfum á hana frá suðvestri. Við getum skilgreint öxul í stefnuna þar sem toppurinn er krappastur og hann er þá einmitt öxull "sjónskekkju" fjallsins!
Einkenni sjónskekkju er sjóndepra, stundum svo mikil að viðkomandi getur illa bjargað sér án hjálpartækja. Stundum sér viðkomandi tvöfalt án gleraugna eða snertilinsa. Höfuðverkur er ekki óalgengur ef sjónskekkja er illa eða ekki leiðrétt.
Sjónskekkja sem hér hefur verið lýst er kölluð "regluleg sjónskekkja". Öllu óalgengari er "óregluleg sjónskekkja", sem ekki er hægt að leiðrétta með gleraugum, en í sumum tilvikum með harðri snertilinsu. Í óreglulegri sjónskekkju er ekki öxull í hornhimnunni og í raun er þá yfirborð hornhimnunnar einfaldlega óreglulegt.
Unnt er að laga sjónskekkju með skurðaðgerð, sem byggist á því að búnir eru til skurðir í jaðra hornhimnunnar í þeim öxli sem hornhimnan er kröppust. Þetta fletur út hornhimnuna og getur lagað sjónskekkju upp að um það bil 3 díoptríum. Nýjasta aðgerðin við sjónskekkju er svo laseraugnlækningar, eða LASIK, þar sem laga má enn meiri sjónskekkju.
Mynd: HB
Jóhannes Kári Kristinsson. „Hvað er sjónskekkja og hvað veldur henni? Hvernig sjá þeir sem eru með sjónskekkju?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1959.
Jóhannes Kári Kristinsson. (2001, 20. nóvember). Hvað er sjónskekkja og hvað veldur henni? Hvernig sjá þeir sem eru með sjónskekkju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1959
Jóhannes Kári Kristinsson. „Hvað er sjónskekkja og hvað veldur henni? Hvernig sjá þeir sem eru með sjónskekkju?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1959>.