Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er bæði já og nei. Hægt er að haga flugi þannig að sólartími sé sá sami alla leið. Staðartími sem menn lesa af klukkum í flugvélinni eða á jörðinni fyrir neðan hana breytist samt um hálftíma til eða frá á leiðinni. Í raunverulegri flugvél er breytingin vafalaust meiri en svo enda er flugið þá ekki miðað eingöngu við þetta.
Jörðinni er skipt í tímabelti sem spanna yfirleitt 15° hvert í landfræðilegri lengd, það er að segja frá vestri til austurs. Þetta samsvarar um 1670 km við miðbaug en helmingi minni vegalengd á breiddarbaug 60° breiddar svo að dæmi sé tekið. Tímamunurinn milli tímabelta er yfirleitt ein klukkustund og sumar flugvélar nútímans geta vel flogið yfir eitt tímabelti á þeim tíma, meðal annars með því að vera nógu norðarlega þar sem tímabeltin eru mjó þegar reiknað er í kílómetrum.
Hugsum okkur flugvél sem leggur af stað klukkan 17:30 til vesturs frá stað sem er í miðju tímabelti og flýgur með þeim hraða að hún fer nákvæmlega yfir eitt tímabelti á hverri klukkustund. Gerum ráð fyrir að klukkan í þeim löndum sem farið er um fylgi tímabeltum og sumartími komi til að mynda ekki við sögu.
Klukkan tifar meðan flugvélin flýgur og er orðin 18:00 þegar hún kemur að vesturmörkum tímabeltisins. Þá er klukkan færð þannig að hún verður 17:00 og flugvélin flýgur yfir næsta tímabelti á einni klukkustund þannig að klukkan er 18:00 þegar hún kemur að því þar næsta. Þá er klukkan færð aftur á 17:00 og þannig gengur þetta koll af kolli þangað til flugvélin lendir á einhverjum stað í miðju tímabelti þar sem klukkan er þá 17:30.
Ef vélin hefur breytt landfræðilegri lengd sinni með jöfnum hraða er sóltími alla leiðina hinn sami. Þetta skilst betur ef við tökum annað dæmi þar sem flugvélin leggur af stað klukkan 12:00 þannig að sólin sé í hádegisstað. Sólin heldur þá áfram að vera í hádegisstað (suðri) alla ferðina ef flugvélin breytir lengdinni eins og áður var lýst.
Um raunverulegan ferðatíma flugvéla í áætlunarflugi má lesa nánar í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna er flugvél hálftíma lengur að fljúga frá Keflavík til Boston en öfugt?
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Ef flugvél leggur af stað til Ameríku kl. 17:30 og lendir kl.17:30 er þá klukkan alls staðar 17:30 þar sem flugvélin flýgur yfir?“ Vísindavefurinn, 25. október 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1923.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 25. október). Ef flugvél leggur af stað til Ameríku kl. 17:30 og lendir kl.17:30 er þá klukkan alls staðar 17:30 þar sem flugvélin flýgur yfir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1923
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Ef flugvél leggur af stað til Ameríku kl. 17:30 og lendir kl.17:30 er þá klukkan alls staðar 17:30 þar sem flugvélin flýgur yfir?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1923>.