Er hægt og hvernig þá, að spila í nokkurn tíma í venjulegri rúllettu í spilavíti og vera 99-100% öruggur um að græða?Svarið við þessari spurningu er nei og einfaldast er að rökstyðja það og útskýra með því að vísa í sjálft eðli spilavítisins og líkindafræðinnar. Ef þetta væri hægt mundu margir nota sér það og spilavíti væru ekki til í núverandi mynd. Líkindafræði nútímans gerir fullnægjandi grein fyrir þessu, ekki síst þegar tilraunir með rúllettuna verða mjög margar. Svarið við spurningunni í einstökum tilvikum er háð því í hve „langan tíma” er spilað (eða öllu heldur hversu oft er lagt undir) og útfærslu þess kerfis sem notast er við. En tvennt er víst; það er ekki til neitt kerfi sem gefur örugglega vinning og ekkert kerfi skilar gróða ef spilað er „nógu lengi”. Þetta viðfangsefni er ekki nýtt af nálinni því að stærðfræðileg kerfi hafa verið notuð um aldir í fjárhættuspilum. Þau þekktustu eru kenndi við Martingale, Labouchere, Fibonacci, og d'Alembert. Þessi kerfi eiga það sameiginlegt að gefa marga litla vinninga en samt með líkum á tapi sem er margfalt stærra en sérhver litlu vinninganna. Það er einmitt vegna þessa taps sem kerfin gefa ekki af sér gróða þegar á heildina er litið og er þá sama hvort menn sitja lengi við rúllettuna í einu eða gera fáar tilraunir í hverri lotu. Reynum að skýra aðeins hvað átt er við með „kerfi“. Með kerfi er átt við að það sem lagt er undir næst veltur á fyrra gengi. Til dæmis má hafa þá reglu að tvöfalda upphæðina eftir tap eða lækka í einhverja lágmarksupphæð eftir vinning. Skoðum Martingale-kerfið sem dæmi. Martingale-kerfið er sennilega vinsælast og líklega jafngamalt fjárhættuspilum. Það verkar þannig að lagt er meira undir næst ef tapað er (til dæmis helmingi meira) og eftir vinning er byrjað á nýrri umferð. Takmarkið er venjulega að vinna upphæðina sem lögð er undir í upphafi hverrar umferðar. Segjum til dæmis að þú sért að spila við borð sem hefur engin núll þannig að „banki tekur allt“ kemur aldrei fyrir. Þú tekur eftir að „svört tala“ hafi komið upp nokkrum sinnum í röð og þú ákveður að veðja á „rauðan lit“ þangað til að þú vinnur en þó án þess að veðja oftar en fimm sinnum í sömu umferð. Ef þú ákveður að byrja á því að leggja undir 1000 kr. þá yrði framvindan nokkurn veginn svona:
- Veðjaðu 1000 kr. á rauðan. Ef þú vinnur, endurtaktu skref (1). Ef þú tapar, taktu næsta skref. Þú tapar í 50% umferða.
- Veðjaðu núna 2000 kr. á rauðan. Ef þú vinnur, farðu aftur í skref (1). Ef þú tapar, taktu næsta skref. Þú tapar í 25% umferða.
- Veðjaðu 4000 kr. á rauðan. Ef þú vinnur, farðu aftur í skref (1). Ef þú tapar, taktu næsta skref. Þú tapar í 12.5% umferða.
- Veðjaðu 8000 kr. á rauðan. Ef þú vinnur, farðu aftur í skref 1). Ef þú tapar, taktu næsta skref. Þú tapar í 6.25% umferða.
- Veðjaðu 16000 kr á rauðan. Hvort sem þú vinnur eða tapar farðu aftur í skref 1). Þú tapar í 3.125% umferða.
Mynd: HB