Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Reglur og hefðir um tilvitnanir í efni á Veraldarvefnum hafa verið í mótun. Þegar vísað er frá efni á vefnum í aðra staði á honum er það að sjálfsögðu gert með tenglum eins og notendur vefsins þekkja; engin önnur aðferð er fljótvirkari eða þægilegri fyrir notandann. En hins vegar er það almenn kurteisi að hafa kringum tengilinn texta sem segir eftir atvikum nánari deili á efninu sem vísað er í. Dæmi um þetta má sjá allvíða í svörum okkar hér á Vísindavefnum, til að mynda hér:
Síðan verður að ráðast hvort efnið sem vísað er í er enn til staðar þegar notandi ætlar að skoða það, en margir kannast sjálfsagt við að oft er misbrestur á því. Við vonum þó að slíkt gerist ekki hér hjá okkur á Vísindavefnum!
Þegar vísað er á prenti í efni á vefnum koma ný viðhorf upp. Með tenglinum sjálfum kemur hvorki fram höfundarnafn, heiti né birtingartími sem venja er að hafa í vísunum í prentuðu máli. Þegar um er að ræða vefsetur með eigin leitarvél eins og Vísindavefinn er tengill á blaði ef til vill heldur ekki hagkvæmasta leiðin til að hjálpa lesanda að finna svarið.
Þá er þess að gæta að Veraldarvefurinn er ekki eins fastur fyrir gagnvart tímans tönn og prentað efni á pappír. Tenglar geta breyst og efnið færst til eða horfið. Þess vegna hafa margir þann hátt á að tilgreina í vísunum hvenær efnið var (síðast) skoðað á vefnum.
Um tilvitnanir og slíkt eru til allmargir staðlar. Tveir af þeim
mikilvægustu eru MLA Citation Style (MLA Handbook for Writers of Research Papers) og Chicago Manual of Style.
Með hliðsjón af slíkum stöðlum leggjum við til að þeir sem vitna í Vísindavefinn á pappír eða vilja miða við slíkan staðal fylgi í aðalatriðum eftirfarandi forskrift:
Höfundur svars. "Texti spurningar." Heiti vefs. Gerð eða númer [ef við á]. Dagsetning svars eða síðustu dagréttingar. Vefslóð. (Skoðað ).
Haraldur Ólafsson. Hvenær byrjuðu menn að trúa á guð?Vísindavefurinn. 31. október 2000. http://visindavefur.hi.is/?id=1058 (Skoðað 10. ágúst 2001).
Takið eftir að við gerum ráð fyrir virkum tengli til svarsins bak við texta spurningarinnar.
Þegar tilvitnanir eru vísindalegs eðlis er oftast notaður staðall kenndur við APA (Publication Manual of the American Psychological Association) eða CBE (Scientific Style and Format: The CBE Manual for Authors, Editors, and Publishers). Þá yrði tilvísunin hér á undan sem hér segir:
Haraldur Ólafsson. (31. október 2000). Hvenær byrjuðu menn að trúa á guð?Vísindavefurinn. http://visindavefur.hi.is/?id=1058
(Skoðað 10. ágúst 2001).
Þörf fyrir tilvísanir hefur fram að þessu ekki verið tekin sérstaklega til greina í hönnun Vísindavefsins. Á síðunni þar sem spurningar og svör birtast kemur þó fram bæði höfundarnafn og texti spurningar, auk dagsetningar svars en hún er einnig aðgengileg í listum um spurningar. Til dæmis má finna þetta með því að setja mikilvægt orð úr spurningunni inn í leitarvél vefsins. Númer svars má finna með því að biðja um “view source”, “properties” eða eitthvað slíkt þegar svarið er á skjánum. (Ef smellt er með hægri hnappi á PC-tölvum á svarstextann og síðan á “view source”, þá birtist númerið í heiti skrárinnar sem kemur upp).
Ljóst er að efni Vísindavefsins hentar nú orðið afar vel til uppflettinga. Jafnframt er líklegt að efnið verði áfram á vefnum um alllanga hríð. Næst þegar útlit vefsins verður endurskoðað reynum við því að hafa í huga að birta dagsetningu og ef til vill númer svars í skjámyndinni sem notandinn sér.
Anna Sveinsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er best að vísa í efni á Veraldarvefnum?“ Vísindavefurinn, 4. september 2001, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1860.
Anna Sveinsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 4. september). Hvernig er best að vísa í efni á Veraldarvefnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1860
Anna Sveinsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er best að vísa í efni á Veraldarvefnum?“ Vísindavefurinn. 4. sep. 2001. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1860>.