Ef sólin hyrfi skyndilega eða þyngdarkrafturinn frá henni þá mundu reikistjörnurnar hreyfast þaðan í frá eftir beinum línum með jöfnum hraða. Þessi tilhneiging þeirra kallast tregða og þær deila henni með öllum öðrum hlutum sem hafa massa. Ástæðan til þess að þessi tregðuhreyfing eftir beinni línu gerist ekki er einmitt sú að reikistjörnurnar dragast að sólinni. Sporbaugshreyfing þeirra verður til í samspili tregðunnar og þyngdarkraftsins frá sól sem breytir í sífellu hraðanum, einkum þó stefnu hans. Þessi hraðabreyting nefnist miðsóknarhröðun. En ef einhver himinhnöttur í sólkerfinu missti skyndilega hraða sinn af einhverjum ástæðum, þá mundi hann eftir það falla beint inn að sól. Hraði reikistjarnanna hornrétt á stefnuna til sólar á rætur að rekja allar götur til þess er sólkerfið var að verða til í öndverðu. Gasskýið sem það varð til úr fól í sér snúning eða hverfiþunga sem svo er kallaður í eðlisfræði. Þessi hverfiþungi varðveittist í myndun reikistjarnanna með því að þær fengu umræddan umferðarhraða. Lesa má nánar um eðlisfræðina í þessu í svörum okkar um lögmál Newtons sem má finna með leitarvél Vísindavefsins. Sérstaklega bendum við á mynd sem fylgir þessu svari og sýnir hvernig hreyfing kasthluta við yfirborð jarðar er sett saman úr tregðuhreyfingu með jöfnum hraða eftir beinni línu annars vegar og hins vegar frjálsu lóðréttu falli. Sú mynd er algerlega hliðstæð samsettri hreyfingu reikistjarnanna.
Mynd: NASA: NSSDC Photo Gallery Sun