Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Biblía er grískt orð og þýðir „bækur”. Biblían telur líka margar bækur eða alls 66, og raunar 77 ef apókrýfar-bækur Gamla testamentisins eru taldar með. Þessar bækur eru frá mörgum mismunandi tímum og eru mjög fjölbreyttar að innihaldi. Kristnir menn skipta Biblíunni í tvo hluta, Gamla testamentið annars vegar og Nýja testamentið hins vegar, en orðið testamenti er af latneskum uppruna og þýðir sáttmáli. Gamla testamentið er sameiginlegt Gyðingum og kristnum mönnum, en Nýja testamentið viðurkenna kristnir menn einir.
Kristnir menn nefna Gamla testamentið oft „hin spámannlegu rit”, því að það var skrifað á undan komu Krists og boðaði fyrirfram að frelsari mannkyns mundi koma. Nýja testamentið er þá nefnt "hin postullegu rit", því að það var ritað af postulum Jesú eða lærisveinum þeirra. Það var skrifað eftir komu Krists og boðar, að fyrirheit hinna spámannlegu rita hafi ræst og Jesús Kristur, frelsari heimsins, sé kominn fram.
Hugtakið orð Guðs merkir sköpunarmátt Guðs. Orð Guðs er það orð sem hann skapaði heiminn með. Þetta orð Guðs tók manndóm eða gerðist maður, manneskja, á jólunum fyrstu og fæddist sem barnið í jötunni, sem var gefið nafnið Jesús. Mennirnir afneituðu Jesú og deyddu hann á krossi. En Guð afneitaði ekki mönnunum heldur reisti Jesú upp frá dauðum. Því hélt saga Jesú áfram sem sagan af því, hvernig Guð játast okkur mönnunum í Jesú Kristi og gefur okkur möguleika til nýs lífs sem börn hans, vinir og samverkamenn. Boðskapur kristinnar trúar, fagnaðarerindið, hvetur okkur til að taka í Guðs útréttu sáttahönd og öðlast við það frið við Guð.
Orð Guðs merkir út frá þessu þrennt.
Í fyrsta lagi merkir orð Guðs hið holdi klædda orð Guðs, sem er Jesús Kristur.
Í öðru lagi merkir orð Guðs vitnisburðinn um Jesú í orðum spámanna og postula, það er að segja í Biblíunni.
Í þriðja lagi merkir orð Guðs vitnisburðinn um Jesú í boðun kirkjunnar bæði játningum hennar, lofsöng og prédikun gegnum aldirnar og allt til þessa dags.
Biblían hefur tvær víddir. Önnur vídd hennar er söguleg en hin er andleg. Þegar horft er á Biblíuna í sögulegri vídd sést að bækur hennar urðu til á löngum tíma og hver þeirra í ákveðnu sögulegu samhengi sem mótar hana. Það má sjá þróun og ferli innan Biblíunnar og einstakra rita hennar. Hún féll ekki niður af himnum, heldur á hún sér uppruna og þróun sem er hliðstæð öllum sögulegum og mannlegum fyrirbærum. Hún er að því leyti viðfangsefni í rannsóknum, að það er hægt að leita skýringa á uppruna hennar og einstakra hluta hennar og hægt er að fá innsýn í heim hinna fornu Hebrea og hinna fyrstu kristnu manna. Undanfarnar tvær aldir hefur hún verið rannsökuð á mjög gagnrýninn hátt. Biblíurannsóknirnar hafa leitt í ljós mikla fjölbreytni hennar og breytt mörgum hugmyndum okkar um Biblíuna og umhverfi hennar.
Andleg vídd Biblíunnar markast af því, að Biblían er frumheimildin um
kristna trú og geymir elsta vitnisburðinn um kristna kenningu. Samfélag kristinna manna, kirkjan, skuldbatt sig til þess að lúta vitnisburði hennar með því að safna ritum hennar saman og nefna þau heilög rit eða Heilaga ritningu. Andleg vídd Biblíunnar er vídd trúarinnar. Þegar Biblían er skoðuð í þeirri vídd, er hún meira en vitnisburður um liðna tíð og skilning genginna kynslóða á sjálfum sér, heldur er hún líka vitnisburður um sögu okkar. Í þeirri vídd boðar Biblían, að tíminn eða sagan er ekki aðeins safn einstakra atburða í láréttri tímarás, heldur líður tíminn eða ákvarðast sagan af ákveðnum atburðum sem skipta sköpum, og mestur þeirra er koma Jesú Krists í heiminn. Atburðir þeir sem Biblían greinir frá eru því ekki eingöngu atburðir sem eiga við þá tíma sem þeir eiga að hafa gerst á og snerta ekki heldur aðeins þær persónur sem greint er frá hverju sinni heldur líka okkur sem nálgumst efni hennar í bæn og trú.
Efni Biblíunnar var safnað til varðveislu í því skyni, að allar kynslóðir gætu átt aðgang að fyrirheitum Guðs fyrir munn spámanna og postula. Þegar við lesum Biblíuna þá eigum við því að gera það með það í huga að leita að ákveðnum boðskap í henni sem snertir okkur persónulega hvert og eitt. Og þessi ákveðni boðskapur hennar er þessi:
Það er hugur, sem stýrir heimi öllum. Sá hugur er persónubundinn og kærleiksríkur Guð, sem lætur sér annt um sérhverja manneskju og sendi son sinn til að vera frelsari mannanna.
Þessi boðskapur er lykillinn að túlkun á öllu því margvíslega efni sem
Biblían geymir. Það er þannig Jesús Kristur sem bindur allt hið fjölskrúðuga efni Biblíunnar saman. Jesús lýkur upp ritningunum svo að þær fá merkingu. Öll fyrirheit eða loforð sem Biblían talar um rætast í Jesú og Jesús greiðir allar kröfur sem Biblían geymir. Þess vegna er Biblían ekki handbók í náttúrufræði, lögfræði eða sagnfræði. En það er Jesús sem bendir okkur á hvernig við eigum að meta náttúruna eða umhverfi okkar, þjóðfélagið eða lögin og söguna eða stöðu mannanna. Hverja frásögu Biblíunnar, hvert boðorð eða loforð eigum við að skoða í ljósi Jesú og setja okkur hann fyrir hugskotssjónir. Þegar við höfum þetta í huga við lestur og íhugun Biblíunnar er Biblían Guðs orð.
Ábendingar um frekara lesefni:
Bo Giertz, Að ljúka upp Biblíunni.
Einar Sigurbjörnsson, Credo. Kristin trúfræði, bls. 79-103, 374-380, 442-444.
Einar Sigurbjörnsson, Ljós í heimi. Kristin trú og nútíminn, bls. 15-28.
Sigurbjörn Einarsson, Um lestur Biblíunnar.
William Barcley, Leiðsögn um Nýja testamentið.
Sjá líka heimasíðu Hins íslenska biblíufélags.
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Er biblían „orð Guðs” samkvæmt kenningum hinnar íslensku þjóðkirkju?“ Vísindavefurinn, 18. júlí 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1796.
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2001, 18. júlí). Er biblían „orð Guðs” samkvæmt kenningum hinnar íslensku þjóðkirkju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1796
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Er biblían „orð Guðs” samkvæmt kenningum hinnar íslensku þjóðkirkju?“ Vísindavefurinn. 18. júl. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1796>.