Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Klukkan hvað er sólarupprás og sólsetur 1. júni 2001? (Höskuldur Lárusson)
Hver er munurinn á sólargangi í Reykjavík og á Ísafirði, a) þegar sólargangur er lengstur og b) þegar sólargangur er stystur? (Anna Sigurðardóttir)
Er einhver rauntímamismunur milli vestasta og austasta hluta Íslands þótt sami tími sé látinn gilda á öllu landinu? (Atli Guðmundsson)
Hvar á Íslandi sést sólin fyrst þegar hún kemur upp á vorjafndægrum og er það breytilegt eftir árstíðum hvenær hún kemur upp? (Þorkell Marvin Halldórsson)
Hvernær eru jafndægur á hausti? (Kristján Jóhann Bjarnason)
Á vefsetri Almanaks Háskóla Íslands er að finna fróðlega töflu um sólarhæð og sólarátt (stefnu til sólar) í Reykjavík á tíu daga fresti yfir árið. Taflan sýnir umsvifalaust á hvaða klukkutíma sólin kemur upp en til að fá meiri nákvæmni þarf að beita svokallaðri brúun (interpolation). Í töflunni kemur glöggt fram að tímasetning sólaruppkomu breytist mikið yfir árið hér á norðurslóð, en einn spyrjandinn spyr meðal annars um það.
Í hinni prentuðu útgáfu Almanaksins eru sýnd birting, sólris, hádegi, sólarlag og myrkur í Reykjavík fyrir hvern dag ársins. Þar sést að sól kemur upp kl. 3:22 og sest kl. 23:31 þann 1. júní í ár sem einn af spyrjendum ber fyrir brjósti. Báðar þessar tímasetningar færast um um það bil 2-3 mínútur á dag á þessum árstíma.
Sérstakar töflur í Almanakinu sýna einnig dögun, birtingu, sólris, hádegi, sólarlag, myrkur og dagsetur á sjö daga fresti fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri, Grímsey, Norðfjörð og Vestmannaeyjar. Þar kemur fram að tíminn frá sólaruppkomu til sólarlags í Reykjavík er 21 klst. og 11 mínútur á sumarsólstöðum (21. júní) og 4 klst. og 8 mínútur á vetrarsólhvörfum (21. desember). Samsvarandi tölur fyrir Ísafjörð eru 24 klst. annars vegar og hins vegar 2 klst. og 45 mínútur. Þetta svarar vonandi spurningunni um muninn á Reykjavík og Ísafirði.
Sólris og sólsetur eru hér miðuð við að efri rönd sólar sé við sjónbaug og auk þess er reiknað með ljósbroti í andrúmsloftinu nemi 0,6°. Það skýrir meðal annars að miðnætursólin nær til Ísafjarðar þó að hann sé tæplega hálfri gráðu fyrir sunnan heimskautsbaug. Svo er ekki heldur tekið tillit til landslags enda þyrfti þá að tiltaka nákvæmlega hvar athugandi er staddur. Tímasetning hins svonefnda sólarkaffis Ísfirðinga tekur væntanlega meðal annars mið af landslagi.
Samkvæmt töflum Almanaksins voru vorjafndægur í ár þann 20. mars kl. 13:31. Það merkir að þá var sólin í vorpunkti á festingunni. Þessi tímasetning færist fram á við um tæpar 6 klukkustundir árið 2002 og aftur árið 2003 og fellur því þá á 21. mars. Árið 2004 er hins vegar hlaupár og þá færist tímasetningin tæpan sólarhring aftur á bak. Þetta endurtekur sig síðan á fjögurra ára fresti. Haustjafndægur, sumarsólstöður og vetrarsólstöður færast til á sama hátt milli ára. Haustjafndægur eru í ár 22. september kl. 23:04 og falla því á 23. september næstu tvö ár, 2002 og 2003, en verða aftur 22. september árin 2004 og 2005, og síðan áfram á víxl. Spurningunni um haustjafndægur er þar með svarað.
Gerpir er sem kunnugt er austasti tangi landsins og þar kemur sólin fyrst upp. Vestlæg lengd hans er 13°29,6' en Reykjavík er á 21°55,8'. Þarna munar 8°26,2' en hver gráða samsvarar 4 mínútna mun á sólartíma. Tímamunurinn er því 33 mínútur. Sólin kom upp á vorjafndægrum í Reykjavík í ár klukkan 7:28 en á Gerpi klukkan 6:55. Vestasti tangi landsins, Bjargtangar, er hins vegar 2°36,3' vestar en Reykjavík og sólin kom því upp þar 10 mínútum seinna en í Reykjavík eða klukkan 7:38. Heildarmunurinn á sólristímanum yfir landið er því 43 mínútur og sami munur á við um tímasetningu sólseturs á jafndægrum. Munur á tímasetningu hádegis er einnig sama tala og það á við allt árið. Þetta svarar vonandi spurningunni um tímamun í sólargangi yfir landið.
Athugið að munurinn á landfræðilegri lengd segir að vísu alltaf til um muninn á sólartíma á þennan einfalda hátt en það á ekki almennt við um muninn á tímasetningum sólaruppkomu eða sólarlags. Til þess að hann sé í beinu hlutfalli við lengdarmuninn þurfa staðirnir annaðhvort að hafa sömu breidd eða við þurfum að vera á jafndægrum eins og hér á undan.
Í Almanakinu kemur einnig fram hvenær tungl kemur upp og sest og hvenær það er í suðri, og sömuleiðis hvenær er flóð og fjara; allt fyrir hvern dag ársins.
Margvíslegar aðrar upplýsingar af þessu tagi er að finna í Almanakinu og eru lesendur eindregið hvattir til að kynna sér þær.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig má fá upplýsingar um sólargang og slíkt eftir árstímum og stöðum á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1625.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 22. maí). Hvernig má fá upplýsingar um sólargang og slíkt eftir árstímum og stöðum á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1625
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig má fá upplýsingar um sólargang og slíkt eftir árstímum og stöðum á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1625>.