Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?

Kristján Árnason bókmenntafræðingur

Þó að hugtakið súrrealismi nái yfir vítt svið og hann hafi látið að sér kveða í ýmsum greinum bókmennta og lista, svo sem ljóðum, skáldsögum og kvikmyndum, og haft áhrif einnig út fyrir þær, þar sem hann hefur meðal annars bæði þjóðfélagslega og siðferðilega skírskotun, þá er að sumu leyti auðveldara að festa á honum hendur og marka honum bás en ýmsum öðrum stefnum og straumum. Þetta kemur til af því að líta má á hann sem ákveðna hreyfingu sem á sér upphaf og endalok, stofnanda og forystu og síðast en ekki síst stefnuskrá – reyndar urðu þær tvær - þar sem markmið og aðferðir eru rækilega tíundaðar.

Orðið „súrrealismi” mun fyrst hafa komið fram hjá skáldinu Apollinaire í undirtitli leikrits árið 1917, en formlega og opinberlega telst hann vera stofnaður á því Herrans ári 1924 er fyrri stefnuskráin birtist og tímaritið La révolution surréaliste hóf göngu sína. Höfundur stefnuskrárinnar og stofnandi hreyfingarinnar var franski rithöfundurinn og skáldið André Breton sem stýrði henni með rögg sem bar keim af flokksaga, enda litu súrrealistar á sig öðrum þræði sem pólitíska hreyfingu. Sem byltingarsinnar töldu þeir sig lengstum eiga samleið með kommúnistaflokknum sem Breton var félagi í, en í rauninni bar of mikið á milli hinna harðsoðnu marxista og þeirra, þannig að menn urðu á endanum að velja á milli. Þegar svo hinar pólitísku línur tóku að skýrast og harðna á fjórða og fimmta áratugnum, leystist hreyfingin upp sem slík heima fyrir, en þá höfðu áhrif hennar borist til margra landa og gætir þeirra víða enn.

Enginn skyldi halda að stefnan hafi sprottið alsköpuð út úr höfði Bretons, því að hún átti sér nokkurn aðdraganda. Í sjálfu sér má líta á hana sem framhald af dadaismanum skammlífa, sem skaut upp kollinum í miðri fyrri heimstyrjöld árið 1915. Eins og hann felur súrrealisminn í sér mótmæli og andsvar við því skipbroti vestrænnar borgarmenningar sem þar átti sér stað, en ólíkt hinum fyrrnefnda vildu súrrealistar ekki láta sitja við afneitun og niðurrif og snúast í hring, eins og Breton sakaði dadaista um að gera, heldur heldur vildu þeir leita leiða út úr ógöngunum sem stefndu til gagngerrar endurnýjunar menningar og mannlífs.

Þetta markmið er nánar útlistað í stefnuskránni og felst í því að létta af bælingu vitsmunalífsins á hvötum og kenndum og afmá mörkin milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika, hlutlægs og huglægs og koma þannig á svonefndum „ofurveruleika”. Hér má auðvitað sjá áhrif frá sálkönnun Freuds og Jungs og kenningum þeirra um dulvitund sem birtist einkum í draumum og goðsögum. En hér kom einnig til kasta skáldskaparins, og í þeim efnum fann hann sér fyrirmyndir einkum hjá tveim skáldum á seinni hluta nítjándu aldar, þeim Lautréamont og Rimbaud, þar sem hinn fyrrnefndi hafði skilgreint fegurðina sem mót saumavélar og regnhlífar á skurðarborði og hinn síðarnefndi skáldskapinn sem leitina að hinu ókunna og boðað brenglun skilningarvitanna í þjónustu hans.

En meginaðferð súrrealista felst í hinni svonefndu „automation” þar sem flæði hugsana og orða er veitt framrás án inngrips vitsmunanna. Þannig stefndu súrrealistar að því að víkka skynheim manna og sjóndeildarhring og losa þá úr viðjum vanabundins hugsunarháttar og niðurkoðnaðs sálarlífs.

En þess var vart að vænta að kenningar af þessu tagi, sprottnar upp úr jarðvegi borgarmenningar Vestur-Evrópu í skugga heimstyrjaldarinnar fyrri, ættu mikið erindi til nýfullvalda eyþjóðar sem fram að þessu hafði ekki verið tröllriðin af borgaralegum lífsháttum eða skynsemisdýrkun eins og landar Bretons, heldur lifði enn í góðu samneyti við fornar vættir og náttúrleg goðmögn. Engu að síður vildi svo til að einmitt á því merkisári 1924, í sama mund og André Breton sat suðrí Parísarborg við að sjóða saman stefnuskrá súrrealismans, var ungur Mosfellingur, Halldór frá Laxnesi, í óða önn að berja saman kvæði í anda þeirra nýstefna er hann hafði fengið pata af, meðan hann beið fleys og farareyris til að komast í andlega víkingu sunnar í álfunni. Eftir vetrarlanga vinnu ungskáldsins við skriftir og endurskriftir varð að lokum til kvæðið „Unglingurinn í skóginum” sem löngum hefur verið tekið sem dæmi um súrrealískt kvæði á íslensku.

Reyndar vildi höfundurinn sjálfur fyrst kenna það við expressíonisma, sem líta má á sem forboða súrrealismans, á þeim forsendum að expressíonskum skáldskap „sé fremur ætlað að valda hughrifum fyrir hreims sakir og hljómrænnar notkunar orða en hins, að gefa einhverja eina efnislausn”. Þessi nafngift og skilgreining orkar nokkuð tvímælis í ljósi þess að expressíonismi felst fremur í því að tjá á áleitinn hátt sterk geðhrif andspænis hráum veruleika en að seiða fram á kliðmjúkan og hljómrænan hátt goðsögulega síðsumarsúð eins og gert er í kvæðinu. Slíkt leiðir fremur hugann að impressíonisma eða symbólisma og kallar fram tengsl við hið fræga kvæði Mallarmés, „Síðdegi skógargoðsins”.

En Halldór gerir reyndar bragarbót við skilgreiningu sína síðar, er hann kennir þennan samsetning sinn við súrrealisma í eftirmála Kvæðakversins frá 1949, enda hafi hann verið „snortinn af þessari stefnu”. Vissulega er það ekki út í hött, enda byrjar kvæðið á orðunum „Mig dreymdi...” og endar á „...þá vaknaði ég”, og munu þá margir telja að ekki þurfi frekar vitnanna við um að súrrealismi sé þar á ferðinni, en kannski má líta á kvæðið, með öllum orðaleikjum sínum og málskrúðsbrellum, sem skopstælingu og þarf vitaskuld ekki að vera verra fyrir það.

En hvort sem „Unglingurinn í skóginum” telst skopstæling eða alvörukvæði eða flokkast undir súrrealisma, expressíonisma, impressíonisma eða symbólisma, er eitt víst að ljóðið varð höfundi til lítils framdráttar og jafnvel dýrkeypt, þar sem hann var af hinu háa Alþingi sviptur styrk fyrir þessa afurð erfiðis síns, svo sem frægt er orðið. En kannski má nú gráta þessa styrksviptingu þurrum tárum ef hún hefur stuðlað að því að skáldið sneri sér að öðrum verkefnum og trúlega þarfari landi og þjóð.



Súrrealismi og aðrar hliðstæðar kenningar urðu því að liggja óbættar hjá garði og náðu ekki landi á eyjunni hvítu fyrr en hér höfðu skapast til þess forsendur um miðja síðustu öld, en þá við lítinn fögnuð margra eyjarskeggja. Og þegar Sigfús Daðason segir í grein sinni „Til varnar skáldskapnum” árið 1952 að „surrealista höfum við engan átt nema Halldór Kiljan Laxness”, hefði sá skarpskyggni maður mátt líta sér nær, því að þá hafði einn skáldbróðir hans, Hannes Sigfússon, þegar gefið út tvær ljóðabækur, Dymbilvöku 1949 og Imbrudaga 1951, sem hafa að geyma þann hreinræktaðasta súrrealisma sem hér hefur sést og þar sem lesandinn er staddur ýmist í kynjaskógi með kvikum trjám innan um þófamjúk rándýr sem læðast eða undir flögrandi maurildahjúpi hrapaðra glerstjarna og þar fram eftir götunum. Enda lýsir höfundurinn sig sjálfur súrrealista og kveðst hafa beitt þeirri aðferð að „fanga það sem í hugann kom án þess að hafa of mikil áhrif á hvað úr því yrði”. Og viðbrögð landans létu ekki á sér standa fremur en fyrri daginn þar sem ljóðabókin Dymbilvaka var af þá nafntoguðum rithöfundi nefnd í Morgunblaðinu „súrrealistísk leirsúpa”.

Það átti sem sagt ekki af súrrealismanum að ganga, en engu að síður hafa ýmsir höfundar á seinni hluta síðustu aldar haldið uppi merki hans á einn eða annan hátt, allt frá Thor Vilhjálmssyni, Jóni Óskari og Jóhanni Hjálmarssyni til Sjóns, svo einhverjir séu nefndir. Hinu ber þó ekki að leyna að ýmsir straumar hafa beint skáldskapnum í aðra átt og burt frá draumaheimi og orðaflæði súrrealismans, ýmist út á hinn pólitíska vettvang dagsins, þar sem gildir að taka afstöðu og „vera skorinorður” eða inn í skel agaðrar naumhyggju, þar sem gildir að segja alltaf „færri og færri orð”. Og í hinni postmódernísku fjölhygð þúsaldamótanna verður súrrealisminn vitaskuld að láta sér lynda að vera ein stefna af mörgum án forræðis yfir öðrum í þeirri flóru eða fánu stefna og ó-stefna sem nú leika lausum hala og við hvern sinn fingur.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?



Myndir:

Apollinaire: universitas pataphysica ubuquitaris

Halldór Kiljan Laxness: Nobel e-museum

Salvador Dali: Symbolism within Dali's Surrealism

Höfundur

dósent í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

17.5.2001

Spyrjandi

Helga Einarsdóttir

Tilvísun

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2001, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1616.

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. (2001, 17. maí). Eru eða voru til íslenskir súrrealistar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1616

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2001. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1616>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?
Þó að hugtakið súrrealismi nái yfir vítt svið og hann hafi látið að sér kveða í ýmsum greinum bókmennta og lista, svo sem ljóðum, skáldsögum og kvikmyndum, og haft áhrif einnig út fyrir þær, þar sem hann hefur meðal annars bæði þjóðfélagslega og siðferðilega skírskotun, þá er að sumu leyti auðveldara að festa á honum hendur og marka honum bás en ýmsum öðrum stefnum og straumum. Þetta kemur til af því að líta má á hann sem ákveðna hreyfingu sem á sér upphaf og endalok, stofnanda og forystu og síðast en ekki síst stefnuskrá – reyndar urðu þær tvær - þar sem markmið og aðferðir eru rækilega tíundaðar.

Orðið „súrrealismi” mun fyrst hafa komið fram hjá skáldinu Apollinaire í undirtitli leikrits árið 1917, en formlega og opinberlega telst hann vera stofnaður á því Herrans ári 1924 er fyrri stefnuskráin birtist og tímaritið La révolution surréaliste hóf göngu sína. Höfundur stefnuskrárinnar og stofnandi hreyfingarinnar var franski rithöfundurinn og skáldið André Breton sem stýrði henni með rögg sem bar keim af flokksaga, enda litu súrrealistar á sig öðrum þræði sem pólitíska hreyfingu. Sem byltingarsinnar töldu þeir sig lengstum eiga samleið með kommúnistaflokknum sem Breton var félagi í, en í rauninni bar of mikið á milli hinna harðsoðnu marxista og þeirra, þannig að menn urðu á endanum að velja á milli. Þegar svo hinar pólitísku línur tóku að skýrast og harðna á fjórða og fimmta áratugnum, leystist hreyfingin upp sem slík heima fyrir, en þá höfðu áhrif hennar borist til margra landa og gætir þeirra víða enn.

Enginn skyldi halda að stefnan hafi sprottið alsköpuð út úr höfði Bretons, því að hún átti sér nokkurn aðdraganda. Í sjálfu sér má líta á hana sem framhald af dadaismanum skammlífa, sem skaut upp kollinum í miðri fyrri heimstyrjöld árið 1915. Eins og hann felur súrrealisminn í sér mótmæli og andsvar við því skipbroti vestrænnar borgarmenningar sem þar átti sér stað, en ólíkt hinum fyrrnefnda vildu súrrealistar ekki láta sitja við afneitun og niðurrif og snúast í hring, eins og Breton sakaði dadaista um að gera, heldur heldur vildu þeir leita leiða út úr ógöngunum sem stefndu til gagngerrar endurnýjunar menningar og mannlífs.

Þetta markmið er nánar útlistað í stefnuskránni og felst í því að létta af bælingu vitsmunalífsins á hvötum og kenndum og afmá mörkin milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika, hlutlægs og huglægs og koma þannig á svonefndum „ofurveruleika”. Hér má auðvitað sjá áhrif frá sálkönnun Freuds og Jungs og kenningum þeirra um dulvitund sem birtist einkum í draumum og goðsögum. En hér kom einnig til kasta skáldskaparins, og í þeim efnum fann hann sér fyrirmyndir einkum hjá tveim skáldum á seinni hluta nítjándu aldar, þeim Lautréamont og Rimbaud, þar sem hinn fyrrnefndi hafði skilgreint fegurðina sem mót saumavélar og regnhlífar á skurðarborði og hinn síðarnefndi skáldskapinn sem leitina að hinu ókunna og boðað brenglun skilningarvitanna í þjónustu hans.

En meginaðferð súrrealista felst í hinni svonefndu „automation” þar sem flæði hugsana og orða er veitt framrás án inngrips vitsmunanna. Þannig stefndu súrrealistar að því að víkka skynheim manna og sjóndeildarhring og losa þá úr viðjum vanabundins hugsunarháttar og niðurkoðnaðs sálarlífs.

En þess var vart að vænta að kenningar af þessu tagi, sprottnar upp úr jarðvegi borgarmenningar Vestur-Evrópu í skugga heimstyrjaldarinnar fyrri, ættu mikið erindi til nýfullvalda eyþjóðar sem fram að þessu hafði ekki verið tröllriðin af borgaralegum lífsháttum eða skynsemisdýrkun eins og landar Bretons, heldur lifði enn í góðu samneyti við fornar vættir og náttúrleg goðmögn. Engu að síður vildi svo til að einmitt á því merkisári 1924, í sama mund og André Breton sat suðrí Parísarborg við að sjóða saman stefnuskrá súrrealismans, var ungur Mosfellingur, Halldór frá Laxnesi, í óða önn að berja saman kvæði í anda þeirra nýstefna er hann hafði fengið pata af, meðan hann beið fleys og farareyris til að komast í andlega víkingu sunnar í álfunni. Eftir vetrarlanga vinnu ungskáldsins við skriftir og endurskriftir varð að lokum til kvæðið „Unglingurinn í skóginum” sem löngum hefur verið tekið sem dæmi um súrrealískt kvæði á íslensku.

Reyndar vildi höfundurinn sjálfur fyrst kenna það við expressíonisma, sem líta má á sem forboða súrrealismans, á þeim forsendum að expressíonskum skáldskap „sé fremur ætlað að valda hughrifum fyrir hreims sakir og hljómrænnar notkunar orða en hins, að gefa einhverja eina efnislausn”. Þessi nafngift og skilgreining orkar nokkuð tvímælis í ljósi þess að expressíonismi felst fremur í því að tjá á áleitinn hátt sterk geðhrif andspænis hráum veruleika en að seiða fram á kliðmjúkan og hljómrænan hátt goðsögulega síðsumarsúð eins og gert er í kvæðinu. Slíkt leiðir fremur hugann að impressíonisma eða symbólisma og kallar fram tengsl við hið fræga kvæði Mallarmés, „Síðdegi skógargoðsins”.

En Halldór gerir reyndar bragarbót við skilgreiningu sína síðar, er hann kennir þennan samsetning sinn við súrrealisma í eftirmála Kvæðakversins frá 1949, enda hafi hann verið „snortinn af þessari stefnu”. Vissulega er það ekki út í hött, enda byrjar kvæðið á orðunum „Mig dreymdi...” og endar á „...þá vaknaði ég”, og munu þá margir telja að ekki þurfi frekar vitnanna við um að súrrealismi sé þar á ferðinni, en kannski má líta á kvæðið, með öllum orðaleikjum sínum og málskrúðsbrellum, sem skopstælingu og þarf vitaskuld ekki að vera verra fyrir það.

En hvort sem „Unglingurinn í skóginum” telst skopstæling eða alvörukvæði eða flokkast undir súrrealisma, expressíonisma, impressíonisma eða symbólisma, er eitt víst að ljóðið varð höfundi til lítils framdráttar og jafnvel dýrkeypt, þar sem hann var af hinu háa Alþingi sviptur styrk fyrir þessa afurð erfiðis síns, svo sem frægt er orðið. En kannski má nú gráta þessa styrksviptingu þurrum tárum ef hún hefur stuðlað að því að skáldið sneri sér að öðrum verkefnum og trúlega þarfari landi og þjóð.



Súrrealismi og aðrar hliðstæðar kenningar urðu því að liggja óbættar hjá garði og náðu ekki landi á eyjunni hvítu fyrr en hér höfðu skapast til þess forsendur um miðja síðustu öld, en þá við lítinn fögnuð margra eyjarskeggja. Og þegar Sigfús Daðason segir í grein sinni „Til varnar skáldskapnum” árið 1952 að „surrealista höfum við engan átt nema Halldór Kiljan Laxness”, hefði sá skarpskyggni maður mátt líta sér nær, því að þá hafði einn skáldbróðir hans, Hannes Sigfússon, þegar gefið út tvær ljóðabækur, Dymbilvöku 1949 og Imbrudaga 1951, sem hafa að geyma þann hreinræktaðasta súrrealisma sem hér hefur sést og þar sem lesandinn er staddur ýmist í kynjaskógi með kvikum trjám innan um þófamjúk rándýr sem læðast eða undir flögrandi maurildahjúpi hrapaðra glerstjarna og þar fram eftir götunum. Enda lýsir höfundurinn sig sjálfur súrrealista og kveðst hafa beitt þeirri aðferð að „fanga það sem í hugann kom án þess að hafa of mikil áhrif á hvað úr því yrði”. Og viðbrögð landans létu ekki á sér standa fremur en fyrri daginn þar sem ljóðabókin Dymbilvaka var af þá nafntoguðum rithöfundi nefnd í Morgunblaðinu „súrrealistísk leirsúpa”.

Það átti sem sagt ekki af súrrealismanum að ganga, en engu að síður hafa ýmsir höfundar á seinni hluta síðustu aldar haldið uppi merki hans á einn eða annan hátt, allt frá Thor Vilhjálmssyni, Jóni Óskari og Jóhanni Hjálmarssyni til Sjóns, svo einhverjir séu nefndir. Hinu ber þó ekki að leyna að ýmsir straumar hafa beint skáldskapnum í aðra átt og burt frá draumaheimi og orðaflæði súrrealismans, ýmist út á hinn pólitíska vettvang dagsins, þar sem gildir að taka afstöðu og „vera skorinorður” eða inn í skel agaðrar naumhyggju, þar sem gildir að segja alltaf „færri og færri orð”. Og í hinni postmódernísku fjölhygð þúsaldamótanna verður súrrealisminn vitaskuld að láta sér lynda að vera ein stefna af mörgum án forræðis yfir öðrum í þeirri flóru eða fánu stefna og ó-stefna sem nú leika lausum hala og við hvern sinn fingur.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?



Myndir:

Apollinaire: universitas pataphysica ubuquitaris

Halldór Kiljan Laxness: Nobel e-museum

Salvador Dali: Symbolism within Dali's Surrealism

...