Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er væntanlega vísað til þess að massi atóms er nær allur í kjarna þess, en hann er aðeins mjög lítill hluti af stærð þess. Því finnst okkur við fyrstu sýn að atómin séu næstum tóm (sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvað er milli atóma fyrir utan efnatengi? Er til algert tómarúm?) og þau ættu að geta runnið gegnum hvert annað án fyrirstöðu, nema svo ólíklega vilji til að kjarnar eða rafeindir skelli beint saman. En málið er flóknara.
Byrjum á okkar stærðarsviði. Þegar fólk er spurt um það hvaða kraft náttúrunnar það verði mest vart við er svarið venjulega þyngdarkrafturinn. Þetta er hins vegar ekki alls kostar rétt. Ef ég snerti aðra mannveru eða lyklana á tölvunni fyrir framan mig efumst við ekki um að atóm mín í fingrunum hafi snert atóm lyklaborðsins, eða þess sem ég kom við. En svo er ekki. Það sem ég finn sem snertingu eru aðeins rafkraftar milli atóma minna og atóma lyklaborðins. Þegar ég ber í borðið fyrir framan mig koma sterkir rafkraftar milli atómanna og rafeindanna í þeim í veg fyrir að hnefinn fari inn í borðplötuna. Þegar ég stend berfættur á gólfinu og þyngd jarðar togar í mig eru það rafkraftar milli atómanna í iljunum og gólfinu sem koma í veg fyrir að ég sökkvi niður í gólfið.
Það eru í raun rafkraftarnir sem við verðum mest vör við í kringum okkur. Styrk líkama okkar og öll ferli innan hans má rekja til rafkrafta. Það má jafnvel tengja tilfinningar okkar við efnaferli sem stjórnast af rafkröftum!
Tveir menn hlaupa ekki hvor gegnum annan vegna þess að rafkraftarnir sem hindra slíka ferð eru svo sterkir. Rafkrafturinn milli tveggja rafeinda er 44 tugaþrepum sterkari en þyngdarkrafturinn milli þeirra. Hvert tugaþrep felur í sér margföldun með 10 svo að þetta er mjög stór tala, í rauninni nær óskiljanleg.
En hér skiptir sköpum að til eru tvenns konar hleðslur, jákvæð og neikvæð. Vegna styrks rafkraftanna verða stór kerfi margra einda oftast óhlaðin í heild. Á hinn bóginn er aðeins til ein tegund massa. Þess vegna eru þyngdarkraftar milli reikistjarna miklu sterkari en rafkraftar milli þeirra. En þegar hlutir „snertast” sem kallað er, til dæmis þegar við göngum eftir gólfi, kemur einmitt fram rafkraftur milli rafhleðslna innan hlutanna.
Viðar Guðmundsson. „Sé bil á milli róteindar og rafeindar, er þá ekki fræðilegur möguleiki að tveir einstaklingar fari í gegn þegar þeir hlaupa hvor á annan?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2001, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1549.
Viðar Guðmundsson. (2001, 30. apríl). Sé bil á milli róteindar og rafeindar, er þá ekki fræðilegur möguleiki að tveir einstaklingar fari í gegn þegar þeir hlaupa hvor á annan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1549
Viðar Guðmundsson. „Sé bil á milli róteindar og rafeindar, er þá ekki fræðilegur möguleiki að tveir einstaklingar fari í gegn þegar þeir hlaupa hvor á annan?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2001. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1549>.