Gagnstætt sérhverju átaki er ávallt jafnstórt gagntak, eða gagnkvæmar verkanir tveggja hluta hvors á annan eru ávallt jafnstórar og í gagnstæða stefnu.Newton gefur eftirfarandi skýringu:
Hvert það sem togar eða ýtir á annað, togast sjálft eða ýtist jafnmikið af hinu. Ef maður ýtir á stein með fingrinum, þá ýtir steinninn einnig á fingurinn. Ef hestur dregur stein sem bundinn er í reipi, þá dregst hesturinn (ef ég má taka svo til orða) jafnmikið aftur á bak að steininum; því að sama tilhneiging hins teygða reipis til að slakna og rétta úr sér verður til þess að það togar jafnmikið í hestinn í átt að steininum og í steininn í átt að hestinum og hindrar hreyfingu annars í sama mæli og það ýtir undir hreyfingu hins. Ef hlutur skellur á öðrum og breytir hreyfingu hans á einhvern hátt með krafti sínum, þá mun fyrri hluturinn einnig (vegna þess að gagnkvæmur þrýstingur er jafnmikill) verða fyrir jafnmikilli breytingu á sinni hreyfingu, í gagnstæða átt. Breytingarnar sem hljótast af þessum verkunum verða jafnmiklar, ekki í hraða, heldur í hreyfingu [skriðþunga] hlutanna; það er að segja ef hlutirnir eru ekki heftir á annan hátt. Þar sem það eru hreyfingarnar sem breytast jafnmikið, þá eru hraðabreytingarnar, sem verða í gagnstæðar áttir, í öfugu hlutfalli við hlutina [massana]. Þetta lögmál á einnig við um aðdráttarkrafta svo sem sannað verður í næstu hjálparsetningu.Þriðja lögmál Newtons kann að virðast einfalt og gagnsætt, þannig að ekki þurfi að fjölyrða um það. Þó er viðbúið að mörgum komi þetta lögmál spánskt fyrir sjónir þegar á reynir, eins og í dæminu sem Newton tekur um steininn og hestinn. Eða hvernig stendur á því að hesturinn og steinninn hreyfast (vonandi) áfram, í þá átt sem hesturinn (reipið) togar í steininn, en ekki til dæmis aftur á bak í þá átt sem steinninn togar í hestinn? Svarið er að okkur ber að líta á kerfið í heild (hest, reipi og stein öll saman) og kraftana sem verka á það frá öðrum hlutum (hér jörðinni). Þeir stefna í þá átt sem hesturinn togar og því hreyfist kerfið áfram.
Hesturinn á þessari mynd hefur kynnt sér lögmál Newtons. Þegar eigandinn hvetur hann áfram segir hann að það þýði ekki neitt því að kerran togi í sig með jafnstórum krafti FHC og hann togi í kerruna (FCH). Eigandinn svarar með því að benda á að vegurinn verki á hestinn fram á við með kraftinum FHR. Ef hesturinn leggur sig fram er sá kraftur stærri en krafturinn FCR frá veginum á kerruna, aftur á bak. Rökstuðningur Newtons fyrir því að hestur og steinn verði fyrir jafnstórum kröftum frá reipinu, er einnig býsna snjall. Vænti ég að margir lesendur sjái þetta í hendi sér við nokkra umhugsun um einfalda hluti úr daglegu lífi. Eða skyldi ekki togkraftur reipis, sem teygt er um einhverja tiltekna lengd, vera jafnmikill í báðum endum? Í lok athugasemda sinna við þriðja lögmálið ýjar Newton að því sem við köllum nú á dögum lögmálið um varðveislu skriðþungans. Skriðþungi hlutar er einfaldlega margfeldið af massa hans og hraða (p = m v). Með varðveislu skriðþungans í kerfi hluta við nánar tiltekin skilyrði er átt við að breytingar á skriðþunga einstakra hluta vega hver aðra upp þannig að heildarskriðþunginn er varðveittur. Þess konar varðveislulögmál eru oft afar hentug til að átta sig á hegðun hluta og kerfa. Newton segir að breytingar á „hreyfingu” eða skriðþunga hlutanna verði jafnmiklar, en af því leiðir auðvitað að heildarskriðþunginn helst óbreyttur þegar „hlutur skellur á öðrum” eða með öðrum orðum þegar hlutir rekast á. Af athugasemdinni er ljóst að Newton hefur (réttilega) talið þetta lögmál nátengt þriðja lögmáli sínu. Nú á dögum er varðveisla skriðþungans stundum tekin til grundvallar aflfræðinni í stað þriðja lögmálsins, meðal annars vegna þess að þá fást betri tengsl við aflfræði afstæðiskenningarinnar. Í henni eru skriðþungi og orka mikilvæg hugtök en krafthugtakið hverfur hins vegar í skuggann. Lögmálin um varðveislu orku og skriðþunga hafa einnig hækkað smám saman í sessi frá því á dögum Newtons. Þau teljast nú til grundvallarlögmála náttúruvísindanna ásamt nokkrum öðrum varðveislulögmálum.