Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á síðustu árum hefur mikill og þrálátur halli verið á viðskiptum Íslendinga við útlönd og um þennan viðskiptahalla hefur verið mikil opinber umræða. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fjallar um helstu kenningar hagfræðinnar um eðli og orsakir viðskiptahalla í ársskýrslu sinni fyrir árið 2000 og verður hér stiklað á nokkrum helstu niðurstöðum skýrslunnar.
Þjóðir hafa hag af viðskiptum, bæði viðskiptum sem eiga sér stað á tilteknum tíma og viðskiptum á milli tímabila. Þegar halli er á viðskiptum við útlönd er neysla dagsins í dag keypt því verði að neysla verður minni í framtíðinni. Þetta getur undir vissum kringumstæðum aukið velferð þjóðar, bæði í lengd og bráð. Ef viðskiptakjör versna til dæmis tímabundið eða aflabrestur verður er unnt að lina skellinn með því að kaupa neyslu frá öðrum þjóðum í skiptum fyrir loforð um útflutta neyslu í framtíð. Við þetta verður innflutningur meiri en útflutningur um tíma og hallann verður að fjármagna með erlendum lántökum, sölu eigna sem þjóðin á í útlöndum eða sölu innlendra eigna til erlendra aðila.
Fyrsti liðurinn, erlend lán, skiptir hér mestu. Þegar að skuldadögum kemur verður hins vegar að draga úr neyslu og greiða upp lánin, en það gerir öðrum þjóðum kleift að auka neyslu sína. Á sama hátt má bregðast við aflahrotu og tímabundnu góðæri með því að selja útlendingum neyslu í nútíð í skiptum fyrir aukna neyslu í framtíð en þá verður viðskiptaafgangur nú en halli síðar meir. Vegna þess hve mikill hagur er af því að versla með neyslu á milli tímabila á alþjóðlegum fjármálamörkuðum getur afgangur og halli á viðskiptum við útlönd aukið velferð þjóða.
Viðskiptahalli getur hvort sem er verið merki um styrkleika eða veikleika efnahagslífsins. Ef kreppir að í framleiðslu og atvinnu tímabundið getur viðskiptahalli verið leið til þess að jafna lífskjör á milli tímabila. En viðskiptahalli getur einnig endurspeglað bjarta framtíð. Þegar arðsemi fjármagns er hærri innan lands en utan streymir erlent fjármagn inn í landið, gengi krónunnar hækkar og viðskiptahalli myndast. Viðskiptahallann má þá rekja til öflugs efnahagslífs sem laðar til sín fjármagn.
Viðskiptahalli er því í grundvallaratriðum hvorki slæmur né góður. Hann endurspeglar aðeins viðskipti með neyslu milli tímabila og þær erlendu lántökur sem af þeim leiðir. Ekki er unnt að draga þá ályktun að viðskiptahalli sé einkenni efnahagsörðugleika. Viðskiptahalli getur verið styrkleikamerki ekki síður en veikleikamerki.
Brestir í rekstri fyrirtækja og heimila og í starfsemi fjármagnsmarkaða geta þó valdið því að viðskiptahalli verði meiri en svo að hann skýrist af hagkvæmum viðskiptum með neyslu á milli tímabila. Ef útlánaþensla bankakerfisins gerir einstaklingum og fyrirtækjum, sem ekki hefðu fengið lán við eðlilegar aðstæður, kleift að fjárfesta þá myndast aukin eftirspurn og viðskiptahalli. Tímabundnar og snöggar breytingar á framboði fjármagns geta þá valdið breytingum á viðskiptajöfnuði sem ekki er unnt að réttlæta með þeim hagkvæmnissjónarmiðum sem hér hefur verið lýst.
Væntingar um gengislækkun við fast gengi geta valdið aukningu einkaneyslu og innflutnings þegar einstaklingar nýta sér tímabundið tækifæri til þess að kaupa varanlegar neysluvörur. Mikil eftirspurn eftir bifreiðum í aðdraganda gengisfellinga hér á landi er til dæmis alþekkt. Viðskiptahalli sem stafar af slíkum væntingum er ekki réttlætanlegur frá hagkvæmnissjónarmiði.
Ef markaðsbrestir valda óhagkvæmri fjárfestingu innanlands, til dæmis vegna niðurgreidds fjármagns eða vegna þess að opinberir fjárfestingalánasjóðir og ríkisbankar styðja slíkar framkvæmdir með beinum eða óbeinum hætti, er ekki unnt að vísa til hagkvæmnissjónarmiða þegar viðskiptahalli er réttlættur. Mikil fjárfesting kallar þá á erlendar lántökur sem eykur á viðskiptahalla. Keyptar eru vörur til þess að halda uppi fjárfestingu og neyslu í dag í skiptum fyrir neyslu í framtíð. Skili fjárfesting arði eykst framleiðslan meira en ella og hægt er að greiða af lánum með hagsaukanum. Ef fjárfestingin eykur hins vegar ekki framleiðslu versna lífskjör þegar að skuldadögum kemur. Óhagkvæm og óarðbær fjárfesting veldur þá lífskjaraskerðingu þegar viðskiptahallinn er gerður upp.
Hið sama á við um ríkisútgjöld. Ef útgjöldin eru aukin til þess að fjármagna óarðbæra opinbera fjárfestingu án þess að skattar séu hækkaðir samhliða aukast þjóðarútgjöld og þar með viðskiptahallinn. Erlendar skuldir aukast en það veldur lakari lífskjörum þegar að skuldadögum kemur. Hið sama á við ef samneysla er aukin án þess að skattar séu hækkaðir. Lántökur ríkissjóðs verða þá einungis til að fresta skattbyrði.
Viðskiptahallinn getur því orðið of mikill (og sömuleiðis viðskiptaafgangur) ef brestir á fjármagnsmörkuðum eða mistök í rekstri fyrirtækja, heimila og hins opinbera valda tímabundinni aukningu einkaneyslu, fjárfestingu og ríkisútgjalda. Af þessum sökum er æskilegt að stjórnvöld setji sér markmið um að afgangur eða halli á viðskiptum við útlönd haldist innan tiltekinna marka.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Haustskýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 2000.
Upphaflega var spurt á þessa leið:
Hvert er samhengið á milli vöru- og viðskiptahalla og gengisskráningar? Táknar mikill halli á undanförnum árum að gengið sé skráð of hátt? (Helgi Hjálmarsson)
Telst neikvæður vöruskiptajöfnuður ávallt neikvæður fyrir efnhagslífið almennt? (Gunnar Axelsson)
Starfsfólk Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. „Er viðskiptahalli slæmur?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1201.
Starfsfólk Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. (2000, 30. nóvember). Er viðskiptahalli slæmur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1201
Starfsfólk Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. „Er viðskiptahalli slæmur?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1201>.