Nei, það er ekki vatn á tunglinu eins og lesa má í svari við spurningunni: Eru vötn á tunglinu?. Vatn hefur ekki fundist í fljótandi formi á neinni annarri plánetu en jörðinni. En hins vegar er vatnsís líklega að finna undir yfirborði Mars og í gufuhvolfum flestra plánetna má finna vatnsgufu. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvers vegna ekkert vatn sé að finna á hinum plánetunum. Á Merkúríusi er ekkert vatn. Það er fyrst og fremst vegna þess hve Merkúríus er nálægt sólinni og þar er einnig lítið sem ekkert gufuhvolf. Sökum þessa eru hitabreytingar á Merkúr þær mestu sem um getur í sólkerfinu. Á næturnar er meðalhitinn -170°C en á daginn fer hitinn upp í +350°C. Við þessar aðstæður er ljóst að ekkert vatn fyrirfinnst á Merkúr. Þegar menn horfðu á Venus gegnum stjörnusjónauka sáu menn ekkert annað en mikil skýjaþykkni. Venus er þó lík jörðinni utan frá og þess vegna töldu menn ekkert ósennilegt að handan skýjaþykknisins væri að finna plánetu sem á margan hátt líktist jörðinni og jafnvel líf. En þegar betur var að gáð sáu menn plánetu sem minnir heldur á helvíti en paradísina jörð. Gufuhvolf Venusar er mjög þykkt og er það aðallega samansett úr koltvísýringi, sem er efnið sem kemur út úr bílunum og myndast yfirleitt við bruna kolefnis og við öndun dýra. Það veldur því að þar eru ofsafengin gróðurhúsaáhrif sem hækka hitann á Venusi um 400 stig. Venus hafði ef til vill eitt sinn vatn á yfirborðinu en það hefur allt saman gufað upp og er því í formi vatnsgufu í gufuhvolfinu. Venus er okkur því þörf áminning um hvað við getum gert jörðinni ef við höldum áfram að dæla gróðurhúsalofttegundum í gufuhvolfið. Af öllum plánetum sólkerfisins er Mars talinn besti staðurinn til að hýsa fljótandi vatn. Á myndum sem teknar hafa verið af yfirborði Mars sést fjöldinn allur af rásum og öðrum kennileitum sem líkjast mjög svæðum þar sem vatn hefur flætt um. Á Mars hafa líklega verið stór vötn eða jafnvel höf. Það hefur þó varað í stuttan tíma, líklega fyrir um 4 milljörðum ára. En hvert fór allt vatnið? Vísindamenn telja líklegt að það sé ef til vill að finna frosið undir yfirborði Mars. Mars hefur hins vegar pólhettur sem eru þó aðallega úr föstum koltvísýringi ("þurrís"). Ein ástæða þess að Mars er svo þurr er að braut Mars hefur talsverða miðskekkju sem kallað er, en þá er sporbaugurinn ílangur og fjarlægð reikistjörnunnar frá sól talsvert breytileg. Þetta hefur svo áhrif á veðurfarið, til dæmis á Mars. Meðalhitinn er á bilinu -55°C til -67°C, en hitinn fer líklega sjaldan yfir frostmark. Í gufuhvolfinu er að finna vatnsgufu. Gasrisarnir Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus, innihalda smávegis vatnsgufu í lofthjúpum sínum. Lofthjúpar Júpíters, Satúrnusar og Úranusar eru þó aðallega úr vetni og helíni, en meira er af köfnunarefni (nitri) og helíni á Neptúnusi. Lítið er vitað um níundu og síðustu plánetu sólkerfisins, Plútó. Eðlismassi Plútós er að meðaltali á milli 1,8 og 2,1 grömm á hvern rúmsentímetra og því álykta menn að Plútó sé 50 til 75% berg og ís. Hitastigið er líklega um -230°C en það er breytilegt vegna þess að fjarlægðin er á bilinu 30 til 50 stjarnfræðieiningar. Þegar plánetan er hvað fjærst sólu frýs þunnt gufuhvolfið og fellur sem snjór á yfirborðið. Sá staður í sólkerfinu sem menn horfa mest til í sambandi við fljótandi vatn er þó ekki reikistjarna heldur Júpítertunglið Evrópa. Á myndum sem teknar hafa verið af yfirborðinu sjást kennileiti sem líkjast mikið hafís á jörðinni. Líklegt þykir að neðan yfirborðsíssins á Evrópu sé að finna haf, ef til vill allt að 50 km djúpt. Það gæti haldist fljótandi vegna varmamyndunar af völdum sjávarfalla. Evrópa er líka sá staður í sólkerfinu þar sem margir telja mestar líkur á lífi utan jarðar. Vísindamönnum þykir heillandi tilhugsun að senda geimfar til Evrópu sem myndi bora í gegnum ísinn, sigla um í hafinu og leita að örverum. Heimildir: Beatty, J. K., og A. Chaikin (ritstj.): The New Solar System. Sky Publishing House, Bandaríkin/England 1990. Freedman, R. A. og Kaufmann, W. J., 1998. Universe, 5. útgáfa. New York, W. H. Freeman and Company.
Er vatn á tunglinu? Hefur vatn fundist á einhverjum öðrum plánetum en jörðinni?
Nei, það er ekki vatn á tunglinu eins og lesa má í svari við spurningunni: Eru vötn á tunglinu?. Vatn hefur ekki fundist í fljótandi formi á neinni annarri plánetu en jörðinni. En hins vegar er vatnsís líklega að finna undir yfirborði Mars og í gufuhvolfum flestra plánetna má finna vatnsgufu. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvers vegna ekkert vatn sé að finna á hinum plánetunum. Á Merkúríusi er ekkert vatn. Það er fyrst og fremst vegna þess hve Merkúríus er nálægt sólinni og þar er einnig lítið sem ekkert gufuhvolf. Sökum þessa eru hitabreytingar á Merkúr þær mestu sem um getur í sólkerfinu. Á næturnar er meðalhitinn -170°C en á daginn fer hitinn upp í +350°C. Við þessar aðstæður er ljóst að ekkert vatn fyrirfinnst á Merkúr. Þegar menn horfðu á Venus gegnum stjörnusjónauka sáu menn ekkert annað en mikil skýjaþykkni. Venus er þó lík jörðinni utan frá og þess vegna töldu menn ekkert ósennilegt að handan skýjaþykknisins væri að finna plánetu sem á margan hátt líktist jörðinni og jafnvel líf. En þegar betur var að gáð sáu menn plánetu sem minnir heldur á helvíti en paradísina jörð. Gufuhvolf Venusar er mjög þykkt og er það aðallega samansett úr koltvísýringi, sem er efnið sem kemur út úr bílunum og myndast yfirleitt við bruna kolefnis og við öndun dýra. Það veldur því að þar eru ofsafengin gróðurhúsaáhrif sem hækka hitann á Venusi um 400 stig. Venus hafði ef til vill eitt sinn vatn á yfirborðinu en það hefur allt saman gufað upp og er því í formi vatnsgufu í gufuhvolfinu. Venus er okkur því þörf áminning um hvað við getum gert jörðinni ef við höldum áfram að dæla gróðurhúsalofttegundum í gufuhvolfið. Af öllum plánetum sólkerfisins er Mars talinn besti staðurinn til að hýsa fljótandi vatn. Á myndum sem teknar hafa verið af yfirborði Mars sést fjöldinn allur af rásum og öðrum kennileitum sem líkjast mjög svæðum þar sem vatn hefur flætt um. Á Mars hafa líklega verið stór vötn eða jafnvel höf. Það hefur þó varað í stuttan tíma, líklega fyrir um 4 milljörðum ára. En hvert fór allt vatnið? Vísindamenn telja líklegt að það sé ef til vill að finna frosið undir yfirborði Mars. Mars hefur hins vegar pólhettur sem eru þó aðallega úr föstum koltvísýringi ("þurrís"). Ein ástæða þess að Mars er svo þurr er að braut Mars hefur talsverða miðskekkju sem kallað er, en þá er sporbaugurinn ílangur og fjarlægð reikistjörnunnar frá sól talsvert breytileg. Þetta hefur svo áhrif á veðurfarið, til dæmis á Mars. Meðalhitinn er á bilinu -55°C til -67°C, en hitinn fer líklega sjaldan yfir frostmark. Í gufuhvolfinu er að finna vatnsgufu. Gasrisarnir Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus, innihalda smávegis vatnsgufu í lofthjúpum sínum. Lofthjúpar Júpíters, Satúrnusar og Úranusar eru þó aðallega úr vetni og helíni, en meira er af köfnunarefni (nitri) og helíni á Neptúnusi. Lítið er vitað um níundu og síðustu plánetu sólkerfisins, Plútó. Eðlismassi Plútós er að meðaltali á milli 1,8 og 2,1 grömm á hvern rúmsentímetra og því álykta menn að Plútó sé 50 til 75% berg og ís. Hitastigið er líklega um -230°C en það er breytilegt vegna þess að fjarlægðin er á bilinu 30 til 50 stjarnfræðieiningar. Þegar plánetan er hvað fjærst sólu frýs þunnt gufuhvolfið og fellur sem snjór á yfirborðið. Sá staður í sólkerfinu sem menn horfa mest til í sambandi við fljótandi vatn er þó ekki reikistjarna heldur Júpítertunglið Evrópa. Á myndum sem teknar hafa verið af yfirborðinu sjást kennileiti sem líkjast mikið hafís á jörðinni. Líklegt þykir að neðan yfirborðsíssins á Evrópu sé að finna haf, ef til vill allt að 50 km djúpt. Það gæti haldist fljótandi vegna varmamyndunar af völdum sjávarfalla. Evrópa er líka sá staður í sólkerfinu þar sem margir telja mestar líkur á lífi utan jarðar. Vísindamönnum þykir heillandi tilhugsun að senda geimfar til Evrópu sem myndi bora í gegnum ísinn, sigla um í hafinu og leita að örverum. Heimildir: Beatty, J. K., og A. Chaikin (ritstj.): The New Solar System. Sky Publishing House, Bandaríkin/England 1990. Freedman, R. A. og Kaufmann, W. J., 1998. Universe, 5. útgáfa. New York, W. H. Freeman and Company.
Útgáfudagur
29.11.2000
Spyrjandi
Rósa Dögg, f. 1982
Tilvísun
Sævar Helgi Bragason. „Er vatn á tunglinu? Hefur vatn fundist á einhverjum öðrum plánetum en jörðinni?“ Vísindavefurinn, 29. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1195.
Sævar Helgi Bragason. (2000, 29. nóvember). Er vatn á tunglinu? Hefur vatn fundist á einhverjum öðrum plánetum en jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1195
Sævar Helgi Bragason. „Er vatn á tunglinu? Hefur vatn fundist á einhverjum öðrum plánetum en jörðinni?“ Vísindavefurinn. 29. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1195>.