Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ósonið í ósonlaginu gleypir í sig skaðlega útfjólubláa geislun af flokki B, með bylgjulengd 200 – 300 nm, og hindrar þar með að hún komist að yfirborði jarðar (1 nm eða 1 nanómetri er milljarðasti partur úr metra). Þessi geislun hefur styttri bylgjulengd en sýnilegt ljós og hver ljóseind er að sama skapi orkumeiri. Ef ósonlagið hyrfi kæmist þessi útfjólubláa geislun óhindrað til jarðarinnar. Þá mundu efni sem þar fyrirfinnast, þar með talin efni sem lífheimurinn er samsettur úr, gleypa viðkomandi geislun.
Við það að efni gleypa útfjólubláa ljósgeislun yfirfærist orkan á sameindir efnisins, sem getur orðið þess valdandi að sameindirnar umbreytist með ýmsum hætti og eiginleikar efnisins breytist. Slík röskun á efni lífheimsins getur haft ýmsar alvarlegar afleiðingar. Vitað er að umrædd útfjólublá geislun getur til dæmis valdið skaða á sameindum í erfðaefni frumna (DNA) í og við yfirborð eða húð í kjölfar geislagleypingarinnar. Afleiðing þess getur meðal annars orðið myndun húðkrabba, sem á sér stað þegar frumur með skaddaðar DNA-sameindir ná að fjölga sér meira en heilbrigðar frumur (æxlismyndun). Vitað er um ýmis önnur skaðleg áhrif B-geislunar á mannslíkamann, svo sem myndun augnsjúkdóma á borð við starblindu (á ensku cataracts) og ónæmisbælingu (á ensku immunosuppression).
Tilvísun:
The Science of Ozone Depletion
Ágúst Kvaran. „Hvaða áhrif hefur það á lífið á jörðinni ef ósonlagið hverfur?“ Vísindavefurinn, 5. september 2002, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1097.
Ágúst Kvaran. (2002, 5. september). Hvaða áhrif hefur það á lífið á jörðinni ef ósonlagið hverfur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1097
Ágúst Kvaran. „Hvaða áhrif hefur það á lífið á jörðinni ef ósonlagið hverfur?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2002. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1097>.